Á undanförnum mánuðum hefur það gerst oftar en einu sinni að Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, hefur gagnrýnt Seðlabanka Íslands fyrir að hækka vexti. Síðast þegar bankinn hækkaði vexti sagði Halldór að vaxtahækkunin hafi valdið honum vonbrigðum. Hann sagði ennfremur: “Ég hef miklar áhyggjur af því að þessi vaxtahækkun, líkt og hinar fyrri, verði til þess að styrkja gengi krónunnar enn frekar en orðið er og þar með gera rekstrarstöðu útflutnings- og samkeppnisgreinanna þeim mun erfiðari.”
Þetta eru athyglisverðar áhyggjur í ljósi þess að sterkt gengi krónunnar orsakast alfarið af Kárahnjúkavandanum og það var einmitt Halldór sjálfur sem sótti hvað harðast að út í þær framkvæmdir yrði farið. Halldór ætti því að kenna sjálfum sér um erfiða stöðu útflutnings- og samkeppnisgreinanna frekar en að skammast út í Seðlabankann.
En á einhvern undraverðan hátt hefur Halldóri og öðrum Framsóknarmönnum (í öllum flokkum – Já, Einar Oddur, þú mátt taka þetta til þín) tekist að komast algerlega hjá því að sjá samhengi hlutanna þegar kemur að þessu máli. Þeir virðast ekki skilja að þeir geta ekki bæði borðað kökuna og átt hana. Kárahnjúkavandinn var allur fyrirséður og á hann var bent margoft áður en farið var af stað (meðal annars hér á Deiglunni).
Það er afskaplega lítilmannlegt að ráðast síðan á Seðlabankann sem hefur verið settur í þá stöðu að þurfa að berjast við Kárahnjúkavandann til þess að viðhalda verðstöðuleika og ná verðbólgumarkmiðinu sem ríkisstjórnin setti bankanum árið 2001. Seðlabankinn hefur svarað fyrir sig og bent á það að raungengi krónunnar myndi vera hátt um þessar mundir hvort sem bankinn hækkaði vexti eða ekki. Eini munurinn er sá að þá myndi raungengið hækka vegna hækkunar á verðlagi en ekki vegna hækkunar á nafngengi. En þessi rök virðast því miður ekki komast til skila. Það er eins og svo oft áður að menn skilja ekki það sem þeir hafa hag af því að skilja ekki.
En alveg óháð þeirri stöðu sem kominn er upp í hagkerfinu þá er það mjög ámælisvert að forsætisráðherra skuli gagnrýna Seðlabankann með þessum hætti. Ríkisstjórnin setti Seðlabankanum markmið árið 2001 og veitti honum sjálfstæði til þess vinna að því markmiði. Markmið Seðlabankans er þess eðlis að geta hans til þess að ná því byggist í ríkum mæli á því að hann öðlist trúverðugleika og traust fjármálamarkaða. Það að forsætisráðherra skuli gagnrýna bankann trekk í trekk fyrir að hækka vexti grefur ekki aðeins undan trúverðugleika verðbólgumarkmiðsins heldur gerir það Seðlabankanum erfiðara fyrir en ella að láta af vaxtahækkunum. Það síðasta sem bankinn vill er að fjármálamarkaðir komist á þá skoðun að bankinn hafi lúffað fyrir þrýstingi stjórnvalda.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009