Upphaf núverandi valdaskeiðs Framsóknarflokksins, myndun ríkisstjórnar 14. júlí 1971. Talið frá vinstri: Magnús Torfi Ólafsson, Halldór E. Sigurðsson, Ólafur Jóhannesson, Kristján Eldjárn forseti Íslands, Einar Ágústsson, Lúðvík Jósefsson, Guðmundur Benediktsson ríkisráðsritari, Magnús Kjartansson.
|
Ef undan er skilin vinstristjórn sem sat frá 1978 til 1979* 1979 til 1980 og Viðeyjarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991-1995, hefur Framsóknarflokkurinn verið í ríkisstjórn síðan Viðreisnarstjórnin leið undir lok árið 1971. Hefur Framsóknarflokkurinn verið í forsæti ríkisstjórnar í samtals ellefu ár á þessu tímabili.
Hvernig stendur á því að flokkur sem að jafnaði nýtur stuðnings innan við fimmta hvers kjósanda hefur gegnt svo veigamiklu hlutverki við stjórn landsmála og raun ber vitni? Augljósasta ástæðan fyrir áhrifum Framsóknarflokksins er auðvitað pólitísk tvíkynhneigð hans. Eðlislægt stefnuleysi og algjör skortur á grundvallarhugmyndafræði hafa gert Framsóknarflokkinn að heppilegum samstarfsaðila, og gildir þá einu hvort ríkisstjórnin standi fyrir frjálshyggju og einkavæðingu eða höft og ríkisafskipti – Framsóknarflokkurinn er til í tuskið.
Þetta er ástæðan fyrir því að Framsóknarflokkurinn er viðriðinn það versta sem gert hefur verið í íslenskum stjórnmálum, en einnig verið þátttakandi í því sem hvað mest hefur horft til framfara. Áratugum saman stóð Framsóknarflokkurinn vörð um haftastefnuna og beitti sér ákaft í stífri sérhagsmunagæslu fyrir kaupfélögin og Sambandið. Ömurleg staða íslensks landbúnaðar er afleiðing þeirrar ánauðar sem bændur sættu af hálfu kaupfélaganna með fulltingi Framsóknarflokksins.
Í seinni tíð hafa Framsóknarmenn bætt ráð sitt verulega. Í stað hafta og helsis stendur Framsóknarflokkurinn nú að einkavæðingu og frelsi í viðskiptum. Vissulega má deila um þær hvatir sem liggja að baki einkavæðingu framsóknarmanna, hvort þær séu þessum eða hinum til heilla, en í öllu falli hefur verið losað um tök ríkisins á atvinnulífinu, og það er auðvitað aðalatriðið.
Margslungin hagsmunatengsl framsóknarmanna í íslensku samfélagi eru mörgum áhyggjuefni. Miðað við það hversu fáir framsóknarmenn eru og hversu fáir kjósendur hafa áhuga á að greiða þeim atkvæði sitt, þá eru áhrif og völd flokksins með eindæmum. Ljóst er að margir sjálfstæðismenn hafa horft í gegnum fingur sér með þessi hagsmunatengsl, enda hafa kostir stjórnarsamstarfsins verið það miklir, og aðrir kostir lítt fýsilegir, að ekki hefur þótt ráðlegt að rugga bátnum.
Vegna pólitískrar tvíkynhneigðar sinnar á Framsóknarflokkurinn enga náttúrlega óvini í íslenskri pólitík. Hvorki Samfylkingin né Sjálfstæðisflokkurinn myndu skilgreina Framsóknarflokkinn sem höfuðandstæðing sinn. Hann er eins og gamla konan eða gamli maðurinn í Survivor, flýtur með af því að engum stafar ógn af honum. Þessi staða Framsóknarflokksins hefur tryggt honum ríkisstjórnarsetu nær samfellt frá árinu 1971.
Það er þess vegna eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort ekki þurfi að gefa Framsóknarflokknum frí frá stjórn landsmála. Hugsanleg hefðu íslensk stjórnmál býsna gott af því að flókið net hagsmunagæslu og samtryggingar yrði slitið niður. Hins vegar er það svo að það sem menn tengja helst við Framsóknarflokkinn, þ.e. hentistefna og hagsmunapot, fyrirfinnst hjá öðrum stjórnmálaflokkum líka. Kleppur er víða.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021