Margt hefur breyst frá árinu 1886 þegar 1. maí öðlaðist fyrst sess sem baráttudagur verkalýðsins. Frá iðnbyltingu og fram eftir síðustu öld stóð verkalýðurinn afar höllum fæti gagnvart atvinnurekendum. Kjör verkafólks voru slæm, vinnutíminn langur, aðbúnaðurinn slæmur, vinnan líkamlega erfið og oft á tíðum hættuleg. Samkeppni milli atvinnurekenda var takmörkuð og samningstaða verkafólks því erfið.
Við þessar aðstæður var eðlilegt og skynsamlegt að verkfólki skyldi látið í té með lögum viðamikil réttindi til þess að bæta samningstöðu þeirra í deilum við atvinnurekendur. Mikilvægast þessara réttinda var vitaskuld verkfallsrétturinn. Þessi réttindi hafa hjálpað launafólki í gegnum tíðina til þess að knýja á um breytingar launum, vinnutíma, aðbúnaði og öryggi. Á þeim tíma þegar þessi réttindi voru veitt og fram eftir síðustu öld leiddu þau án efa til aukinnar velsældar fyrir almennt launafólk. Þetta gerðist einkum með því að almennt launafólk fékk meiri hlutdeild í landsframleiðslunni á kostnað fjármagnseigenda.
En tímarnir hafa breyst. Lífskjör fólks hafa stórbatnað, vinnutími hefur styst og allt vinnuumhverfi hefur tekið stakkaskiptum. Í dag er hlutdeild launa í landsframleiðslu um 70% og því er ljóst að kjör launafólks verða ekki bætt til muna með því að auka það hlutfall. Þess í stað er þarf að bæta kjör launþega með bættri framleiðni og framleiðslu. Þrátt fyrir allar þessar breytingar hefur löggjöfin um stéttarfélög og vinnudeilur lítið breyst. Verkföll og allsherjarsamningar þar sem bæði launþegar og atvinnurekendur standa í verðsamráði sem væri ólöglegt í öllum öðrum samningum eru enn veigamikill þáttur, bæði í bókstaf og framkvæmd laganna.
Verkföll eru mjög skaðleg aðferð til þess að leysa vinnudeilur og í stað þess að auka framleiðni og framleiðslu þá draga þau úr þeim. Það er því umhugsunarefni hvort verkfallsrétturinn í núverandi mynd sé réttlætanlegur við núverandi aðstæður. Kostnaður samfélagsins við verkföll er verulegur og umhugsunarefni að verkföll virðast ekki skila umtalverðum kjarabótum til þeirra stétta sem stunda þau af mestu kappi. Raðverkföll kennara hafa litlum árangri skilað og telur Deiglan að bann við verðsamráði sveitarfélaganna í samningum við kennara myndi skila mun meiru í vasa kennaranna en verkfallsvopnið.
Núverandi fyrirkomulag á vinnumarkaði hefur aðra ókosti. Úr fjarlægð virðist oft á tíðum eins og barátta verkalýðsfélaga sé hætt að snúast um að bæta kjör launafólks og þess í stað farin að snúast um það að enginn einn hópur fái meiri hækkanir en annar. Þetta hefur á síðustu árum orðið eitt sterkasta vopn stórra viðsemjenda verkalýðsfélaga. Þeir geta með réttu sagt að þeir geti alls ekki gengið að kröfum ákveðins hóps því þá verði allt vitlaust á meðal annarra hópa. Þetta hefur þau afskaplega slæmu áhrif að nánast ómögulegt er fyrir t.d. ríkið að leiðrétta kjör ákveðins hóps. Ef ríkið vildi til dæmis gera kennarastarfið eftirsóknarverðara í því augnamiði að fá betra fólk til starfa við kennslu þá er það gríðarlega erfitt vegna afleiðinganna sem það myndi hafa í samningaviðræðum við aðra hópa.
Nýjasta tískubólan er “félagsleg undirboð”. Þetta hugtak er illa skilgreint en felst í grundvallaratriðum í að fólk (útlendingar) sem tilbúið er að vinna að ákveðnum verkefnum fyrir tiltekna upphæð fái ekki að gera það svo lengi sem aðrir (félagar í verkalýðsfélögum) eru tilbúnir að gera það fyrir mun hærri upphæð. Því er síðan haldið fram að allir tapi á slíkum “undirboðum”. Hið rétta er auðvitað að langflestir græða á þeim.
- Útlendingar græða, því þeir fá vinnu sem þeir hefðu ekki fengið ella
- Íslendingar græða, því útlendingarnir bjóða þjónustu sem annars hefði ekki verið í boði
- Fyrirtækin græða, því þeim býðst ódýrara vinnuafl í ákveðin verkefni
- Samfélagið græðir, því auðlindir þess nýtast á hagkvæmari máta og hagvöxtur eykst
Það er löngu tímabært að lög um stéttarfélög og vinnudeilur verði tekin til endurskoðunar. Kostnaðurinn sem fylgir verkföllum var ef til vill réttlætanlegur fyrir 50 árum. En í dag er allt annað upp á teningnum. Í dag snýst verkalýðsbaráttan meira um stöðu eins hóps miðað við við annan en um kjör launafólks almennt. Allt öðruvísi og hagkvæmari reglur um réttindi verkafólks eru við hæfi við slíkar aðstæður.
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008