Í dag er liðið eitt ár síðan Pólland og níu önnur ríki gengu í Evrópusambandið. Á slíkum tímamótum er við hæfi að líta yfir farinn veg og skoða hvernig til hefur tekist. Skemmst er frá því að segja að allar spár bölsýnismanna úr röðum ESB-andstæðinga rættust ekki.
Fyrsti pistillinn sem ég skrifaði á Deigluna, Tvær hliðar ESB-andstöðu, fjallaði um það hvernig pólskir ESB-andstæðingar og aðrir haga málflutningi sínum með ólíkum hætti eftir því hverja þeir ræða við. Út á við tala þeir líkt og þeir vilji einungis ekki loka sig innan tollamúra ESB heldur vilji líta á allan, ja, jafnvel alheiminn, sem markað. Þeirra raunverulega stefna sem grasrótin er fóðruð með er ekkert annað en gamaldags útlendingahatur.
Það sama gilti um spár ESB-andstæðinga varðandi það sem gerast mundi ef Pólland fengi aðild. Inn á við var reynt að höfða til lægstu hvata mannsins með bullspám á borð við þær að Pólverjar mundu glata sérstöðu sinni eða Vestur-Pólland yrði keypt upp af Þjóðverjum og innlimað inn í Þýskaland. Sannleiksgildi slíkra spáa verður seint rannsakað með vísindalegum aðferðum og því lítið um þær að segja. Hinar spárnar, þessar sjónvarpsvænni og skörungslegri er auðveldar a að eiga við, en þeir gengu heldur ekki eftir.
Því var til dæmis haldið fram að Pólverjar myndu, allavega fyrst um sinn, borga meira í ESB en þeir fengu til baka. Þetta átti að vera vegna þess að pólsk stjórnsýsla mundi ekki vera í stakk búinn til að sækja allan þennan pening úr styrkjakerfinu. Þessi spá gekk ekki eftir og nemur munurinn rúmlega 3000 kr. á hvert mannsbarn seinasta árið.
Einhvers konar smækkuð útgáfa af þessari mýtu átti að fela það í sér að pólskir bændur mundu ekki geta nýtt sér evrópska styrki vegna þess að kerfið væri svona flókið (og þeir svo vitlausir). Sú spá brást algjörlega. Til að mynda sóttu 90,7% allra bænda í Podkarpackie-sýslu í Suðaustur-Póllandi um styrki fyrsta árið. Þetta er met á landsvísu sem er raunar svolítið skondið því það voru einmitt bændur í þeirri sýslu sem mest voru á móti til að byrja með.
Útflutningur á landbúnaðarvörum til annara ESB-ríkja stórjókst þrátt fyrir spár um að ómögulegt yrði fyrir pólskan landbúnað að laga sig að heilbrigðiskröfum og öðrum stöðlum Evrópusambandsins. Um 100 þús. Pólverjar réðu sig til vinnu í Bretlandi, Írlandi og Svíþjóð en þau lönd settu engar hömlur á frjálst flæði verkafólks. Fjölmargir Pólverjar sem höfðu verið að vinna í öðrum löndum gátu einnig nýtt tækifærið til að hætta að vinna á svörtu og ráðið sig löglega.
En hvað finnst Pólverjunum sjálfum? Skoðanakannir fyrir ári síðan sýndu að 61% Pólverja studdu ESB aðild. Í dag mælist stuðningur við Evrópusambandsaðild 75%. Eins hefur hlutfall andstæðinga ESB-aðildar minnkað úr 28% í 18%. Mest munar þar um bændur, á einu ári hefur stuðningur bænda við aðild vaxið úr 22% í hvork meira né minna en 61%! Einn þeirra sagði í nýlegu viðtali: „Hvað á maður að segja, maður finnur alveg fyrir þessum peningum.“
Það virðist því vera sem stækkun Evrópusambandsins hafi gengið framar vonum. Í því felst auðvitað mikill sigur fyrir ESB á tímum þegar aðildaríkin ströggla við að selja borgurum sínum nýju Evrópsku stjórnarskrána. Enn og aftur kemur hins vegar það í ljós að það sem þetta „skrifstofubákn“ tekur sér fyrir hendur, hvort sem það er sameiginlegur gjaldmiðill, afnán landamæra eða inntaka fátækari ríkja, heppnast nær undantekningarlaust vel.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021