Þegar Jónas frá Hriflu stofnaði Framsóknarflokkinn þá óraði hann varla fyrir þeim áhrifum sem flokkurinn ætti eftir að hafa á íslenskt þjóðlíf, hvað svo sem mönnum finnst um það. Jónas stýrði flokknum lengi sjálfur en eftir mikil og ómálefnaleg geðvonskuköst settu samflokksmenns hann af. Þrátt fyrir að miklar deilur og átök hafi átt sér stað innan Framsóknarflokksins á valdatíma Jónasar er ljóst að á síðustu misserum hafa Framsóknarmenn náð mun betri árangri í hvers konar þrasi og innanflokksdeilum. Reyndar hafa menn ekki enn verið settir varanlega af en átökin sjást alls staðar innan flokksins. Í apríl náðu Framsóknarmenn síðan ákveðinni “bestun” í þrasi í hinu svokallaða Stóra Kanínumáli.
Stóra Kanínumálið byrjaði ósköp sakleysislega. Þann 30. mars 2005 var birt tilkynning um að Herrakvöld Félags Ungra Framsóknarmanna í N-Reykjavíkurkjördæmi yrði haldið 1. apríl 2005. Var farið í gegnum helstu atriði kvöldins svo sem veislustjóra, veitingar og fleira. Var síðan í lokin sérstaklega tekið fram að þjónustufólk yrðu “nokkrar hressar framsóknarkonur”. Áttu þessi ummæli um þjónustufólkið eftir að draga dilk á eftir sér.
Daginn eftir birtist færsla á heimasíðu Kristins H. Gunnarssonar þingmanns Framsóknarflokksins þar sem hann telur ummælin um þjónustufólkið lýsa einstaklega slæmu viðhorfi til kvenna og spurði sérstaklega hvort Framsóknarkonurnar yrðu í kanínubúningum að þjónusta flokksbræður hans. Rétt er að geta þess að þarna var ekki um óskhyggju að ræða heldur taldi Kristinn líklega búninginn vera táknrænan fyrir kúgaðar og undirgefnar konur.
Taldi Kristinn þetta þjóðþrifamál eiga fullt erindi inn í þjóðmálaumræðuna og birtist viðtal við hann um þetta mikilvæga málefni í fréttatíma Ríkissjónvarpsins sama dag. Gerði hann þar gott betur og impraði í fréttatímanum á því hversu óheppilegt það væri að varaþingmaður flokksins og aðstoðarmaður forsætisráðherra ætti að stjórna þessari kanínusamkomu. Var Kristinn þar að vísa til ekki ómerkari manns en Björns Inga Hrafnssonar sem lesendur Deiglunnar þekkja vel undir dulnefninu “BINGI”. Fordæmdi Björn Ingi í kjölfarið þessar árásir á herrakvöldið á heimasíðu sinni.
Sama kvöld þá sá stjórn Félags Ungra Framsóknarmanna í N-Reykjavík ástæðu til koma með sérstaka yfirlýsingu vegna málsins. Þar eru ummæli Kristins á heimasíðu hans fordæmd harðlega. Taldi stjórnin Kristinn sýna félagsstarfi í félaginu lítilsvirðingu og krafðist þess að hann drægi ummæli sín til baka. Var síðan rætt við formann Félags Ungra Framsóknarmanna í N-Reykjavík daginn eftir í DV þar sem hann lýsir því yfir með þjósti að það sé ekkert óeðlilegt við að framsóknarkonur þjóni körlum til borðs og klikkir hann út með því að uppnefna Kristinn “Vestfjarðarundrið”.
Krafa um afsökunarbeiðni var eins og að hella olíu á eld og hefði stjórnin eflaust átt meiri séns ef hún hefði krafist þess að Ísraelsmenn hyrfu frá Vesturbakkanum. Brást Kristinn að sjálfsögðu við þessari áskorun um afsökunarbeiðni með því að halda áfram að drulla yfir flokksbræður sína á heimasíðu sinni.
Herrakvöldinu var engu að síður frestað og fór að lokum fram 8. apríl síðastliðinn og fer engum sögum af því hvort framsóknarkonur hafi verið í kanínubúningum við það tækifæri. Hins vegar er ljóst að jafn málefnalegt deiluefni hefur ekki sést í háa herrans tíð.
Jónas hlýtur að snúa sér við í gröfinni.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020