Maðurinn er snar…
|
Í vikunni bárust fregnir þess efnis að Ekvadorþing hafi samþykkt að svipa Lucio Gutierrez, forseta landsins, völdum. Það þarf engan að undra að róstursamt hefur verið í Ekvador að undanförnu og andstæðingar hans hafa ásakað hann um að reyna að sölsa undir sig öll völd í landinu. Til að gera langa sögu stutta þá var kveikt í stjórnarbyggingunni í Quito og í kjölfarið ákvað þingið að lýsa yfir vantrausti á Gutierrez og herinn dró stuðnings sinn við hann til baka skömmu síðar.Sem sagt, allt í tómu tjóni.Það skal fúslega viðurkennast að inngangur þessa helgarnestis er af öðrum meiði en lesendur Deiglunnar eiga að venjast. Hins vegar er algerleg óþarfi fyrir lesendur að örvænta – þetta helgarnesti verður á jafnómálefnalegum nótum og áður hafa verið slegnar á þessum vettvangi.
Menn eru nefnilega misjafnlega speisaðir og það þekkja íbúar Ekvador betur en flestir aðrir og eru öllu vanir þegar stjórnmálamenn eiga í hlut. Þannig greinir breska dagblaðið Independent frá því að annar fyrrum forseti Ekvador, sprelligosi að nafni Abdala Bucaram, hafi nýverið snúið aftur til heimalandsins eftir að hafa verið í útlegð frá árinu 1997 – já, þið áttuð kollgátuna! – vegna spillingamála.
Hins vegar fannst mörgum samlöndum hans sem minni reisn hafi verið yfir heimkomu hans en hingað til hefur mátt búast við af þessum skrautlega stjórnmálamanni. Enda skildi engan undra; þegar hann var forseti landsins átti hann það til – haldið ykkur fast! – að ávarpa samlanda sína íklæddur Batman-búning!
Hér er sönnunargagn, fyrir þá villuráfandi sauði sem efast!
Til að lesendur eigi auðveldara með að henda reiður á hversu speisaður Abdala Bucaram var áður en hann lét af embætti, þá lagði hann það t.a.m. í vana sinn að syngja fyrir landsmenn sína eftir að hann hafði ávarpað þá og að því loknu steig hann á bak hestsins síns og lýsti því yfir að hann væri jafngalinn og áður.
Góða helgi.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007