Skattar – flatir skattar

Ýmislegt getur ráðið úrslitum í alþingiskosningum. Sumir kjósendur láta atkvæði sitt fara eftir flokkslínum, aðrir láta sig málefnin mestu máli varða og enn aðrir velja eftir einstaklingum. Nokkuð mismunandi er hvaða málefni er á oddinum þó að nokkur kjarnamál séu þó oftast rædd. Eitt þeirra er málefni sem snertir flest okkar og má segja sé grunnur flestra annarra.

Segja má að skattar séu okkar framlög til samfélagsins. Okkar framlag til að halda uppi löggæslu, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, landbúnaði o.s.fr.v. En skattar eru líka notaðir til að hafa áhrif á hegðun. Hærri virðisaukaskattur á gosdrykki en sódavatn eru dæmi um það. Því skiptir miklu máli að skattamál séu sem réttlátust og þau framlög sem í ríkissjóð renna séu nýtt á sem bestan hátt. Því er eðlilegt að tekist sé á um mismunandi leiðir í skattamálum og skiptar skoðanir séu um skiptingu þeirra tekna sem aflað er með innheimtu þeirra.

Í þessum málum eins og svo mörgum öðrum verður að finna hinn gullna meðalveg. Nauðsynlegt er að afla ríkinu nógu mikilla tekna án þess þó að kæfa frumkvæði og einkarekstur með íþyngjandi álögum.

Grein í nýlegu tölublaði The Economist fjallar um kosti flatrar skattheimtu þ.e. skattakerfi með eina skattaprósentu í stað þrepa í tekjuskatti. Þessi leið hefur ekki verið mikið rædd á Íslandi þó að einstakir stjórnmálamenn hafa lagt hana til með Pétur Blöndal fremstan í flokki.

Sérstaklega var fjallað um nokkur ríki sem hafa verið í farabroddi í innleiðingu á flatri skattheimtu. Þar er helst að nefna.Eistlendinga sem tóku upp flatan 26% tekjuskatti árið 1994 og urðu þannig fyrstir Evrópubúa til að reyna þessa leið. Í kjölfarið fylgdu síðan aðrar Baltneskar þjóðir þ.á.m. Lettar og Litháar. Slóvakar settu síðan eina skattaprósentu á tekjuskatt, skatt á fyrirtæki og virðisaukaskatt á síðasta ári.

Ein aðalrökin fyrir því að halda þrepaskiptu skattakerfi eru að hátekjuskattur komi í veg fyrir misskiptingu og um sé að ræða réttlætismál. Þrátt að þetta sé algeng skoðun er vísbendingar um að lítill munur sé á heildarinnheimtu í þrepaskiptu og flötu skattkerfi.

Reynsla þeirra ríkja sem hafa reynt þessa leið virðist í flestum tilfellum vera jákvæð. Eitt áhugaverðasta dæmið kemur frá Rússum sem tóku upp 13% flatan tekjuskatt árið 2001. Árið 1997 neyddust Rússar til að viðurkenna að þeir gátu ekki staðið undir skuldbindingum við lánadrottna sína vegna minnkandi getu til að innheimta skatta sem voru komnir niður fyrir 12,5% af þjóðarframleiðslu. Rannsóknir sýndu að 29% af fyrirtækjum greiddu ekki tilætlaða skatta á meðan 63% þeirra greiddu, ja meira svona eftir hentisemi.

Eftir þessar endurbætur var eftirlit bætt og hert og batnaði skattheimta þeirra um 26%. Jafnframt „hækkuðu“ laun um 12% árið sem breytingarnar voru gerðar. Þó að umbætur Rússa geti ekki verið heimfærðar á mun skilvirkari stjórnkerfi Vestur-Evrópu er þó um að ræða vísbendingu um áhrif slíkra breytinga.

Kostir flats tekjuskatts við innheimtu og eftirlit eru ótvíræðir. Ef allir borga einfalda prósentu af launum er í raun óþarfi að einstaklingar geri grein fyrir tekjum sínum heldur væri nóg að hvert fyrirtæki geri grein fyrir hversu mikið það greiðir í heildarlaun allra starfsmanna. Síðan væri einfalt mál að innheimta, segjum 20% af þeirri tölu og væri það upphæðin sem væri greidd í skatt beint frá fyrirtækinu. Þannig gæti eftirlit með tekjuskatti einskorðast við launagreiðendur sem eru mun færri en launþegar.

Mikilvægi skatta og meðhöndlun þeirra fjármuna sem flest okkar greiða til ríkisins gera það að verkum að skattamál ættu að vera í stöðugri endurskoðun. Oftar en ekki grípa ríki til þess ráðs að hækka álögur til að fjármagna starfsemi sína í stað þess að leita leiða til að fara betur með þær tekjuleiðir sem þau ráða yfir.

Allar nýjungar í skattamálum ætti að skoða með opnum hug. Getur til dæmis verið að flatir skattar geti sparað peninga í skattheimtu og leitt til þess að minna verði um að fólk telji ekki fram atvinnutekjur sem samkvæmt Gallup 10% Íslendinga viðurkenna að hafa gert? Væri hægt að sjá til þess að tekjulitlar fjölskyldur hafi meira á milli handanna með því að hafa flata skatta og hækka frítekjumark? Gæti verið að betra að innheimta skatta á hinum endanum í auknum mæli þ.e. sem virðisaukaskatt?

Núverandi stjórnvöld hafa staðið sig ágætlega í skattamálum. Unnið hefur verið markvisst að því að lækka skatta og vilji er fyrir því að einfalda skattkerfið sem virðist hafa ágæt áhrif á íslenska hagkerfið. Þó hljóta að vera leiðir til frekari endurbóta og ætti að vera ofarlega á forgangslista stjórnmálamanna leita þeirra. Í þeim tilgangi gæti reynst happadrjúgt að leita í reynslubanka vina okkar í Austur-Evrópu.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.