Á þriðjudaginn birti Seðlabankinn ársfjórðungsrit sitt, Peningamál. Í Peningamálum er að finna nýja verðbólguspá bankans. Samkvæmt henni mun verðbólga á Íslandi lækka hratt á næstu mánuðum og fara inn fyrir þolmörk verðbólgumarkmiðsins fyrir lok árs. Þetta eru gleðitíðindi. Mesta gleðiefnið er hins vegar að bankinn spáir því að rauðu stikin á vinnumarkaðinum haldi. Ef þetta gengur eftir og ekki verður hróflað við kjarasamningunum má loks segja að hættunni á gamaldags víxlhækkun launa og verðlags hafi verið bægt hjá og stöðugleiki efnahagslífsins festur í sessi í náinni framtíð.
Sigurinn í baráttunni við verðbólgudrauginn hefur vitaskuld ekki verið okkur að kostnaðarlausu. Aðhaldssöm stefna Seðlabankans á síðustu misserum á stóran þátt í því að talsvert hefur dregið úr hagvexti að undanförnu, atvinnuleysi hefur aukist og verulega hefur dregið úr launahækkunum. Þessi stöðnun var hins vegar óumflýjanleg úr því sem komið var þegar Seðlabankinn hlaut sjálfstæði í fyrra vor.
Hefði Seðlabankinn neitað að horfast í augu við það ójafnvægi sem hagkerfið þá var komið í og lækkað vexti, eins og margir kölluðu eftir, hefði það einungis leitt til þess að ójafnvægið hefði magnast og aðlögunin hefði verið enn harkalegri ögn síðar. Seðlabankinn á hrós skilið fyrir að standa af sér þá gagnrýni sem hann fékk á síðasta ári frá þeim sem trúa því að unnt sé að eiga kökuna og éta hana.
Nú hafa aðstæður hins vegar breyst. Viðskiptahallinn er horfinn. Útlánaþennsla bankakerfisins hefur hjaðnað. Sú þennsla sem einkennt hefur vinnumarkaðinn á síðustu árum er horfinn og gott betur. Gengið hefur tekið að styrkjast. Með öðrum orðum, nú er kominn tími til að Seðlabankinn taki að lækka vexti. Á síðustu vikum hefur bankinn lækkað vexti í tvígang um alls 0,8%. Í inngangi Peningamála segir bankinn: „Verði allri óvissu um að núverandi kjarasamningar haldi eytt í þessum mánuði mun bankinn að öllum líkindum lækka vexti sína skjótt í kjölfarið.” Hér er Seðlabankinn að veita aðilum vinnumarkaðarins sterkan hvata til þess að hrófla ekki við kjarasamningunum. Vonandi bera þeir gæfu til þess að fara að vilja bankans hvað þetta varðar.
Ef kjarasamningarnir halda spái ég að Seðlabankinn muni lækka vexti um 3-4% á næstu 12 mánuðum. Ef hins vegar samið verður um meiri kauphækkanir gæti það leitt til þess að bankinn haldi að sér höndum. Það myndi aftur þýða að ekki er ýkja langt í að atvinnuleysi á Íslandi verði mun meira en það er í dag.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009