Þær fréttir bárust eins og eldur í sinu um heimsbyggðina nýlega að japanska fyrirtækið Sony hefði fengið einkaleyfi á nýrri tækni sem gerir það t.a.m. kleift að vekja upp lyktarskynjun hjá áhorfendum bíómynda.
“Góð leikstjórn, frábær leikur og góð angan, með smá keim af kanil og örlítilli karamellu, setti punktinn yfir i-ið”, mætti ímynda sér að væri klippt úr kvikmyndagagnrýni framtíðarinnar. Þó svo vissulega komi upp í hugann tilfelli þar sem áhorfendur myndu alls ekki óska þess að þessari tækni yrði beitt. Klósettatriðið úr Trainspotting og klóakið úr bíl bróðurins í Christmas vacation eru dæmi um atriði þar sem maður hefði eflaust tekið fyrir nefið á meðan stóð, hefði tæknin verið til staðar.
Það ber þó ekki að skilja sem svo að tæknin hafi verið fullþróuð. Langt í frá. Sony menn eru einungis forsjálir og ákváðu að sækja um einkaleyfi (e. patent) á tækni sem þeir sjá fram á að verði hugsanlega framkvæmanleg í framtíðinni. Í stuttu máli gengur þetta út á að senda hátíðni bylgjur sem púlsa, að ákveðnum hlutum heilans til kalla fram ákveðna skynjun. Telja menn að með þessu ætti að vera hægt að kalla fram t.a.m. lyktarskynjun, sjón (myndir) og snertiskynjun. Í raun er því verið að blekkja heilann til að halda að ákveðin skynfæri séu að senda rafboð til að galdra fram tilsvarandi viðbrögð.
Augljóslega eru möguleikar slíkrar tækni miklir í skemmtanalegu tilliti og er það eflaust aðal ástæðan fyrir áhuga Sony á tækninni. Hver myndi ekki vilja spila tölvuleik þar sem spilarinn finnur lykt af herberginu sem hann er í, meðspilurum sínum og þeim hlutum sem er að finna í leiknum? Áhrifin má svo margfalda með því að kalla fram þrívíðar sjónblekkingar í heilanum og telja spilaranum trú um að hann taki þátt af alvöru með því að kalla fram snertitilfinningu. Tölvuleikjagúru framtíðarinnar sem munu spila Half life 12 og Doom 28 munu því upplifa stemninguna þannig að þeir haldi á alvöru byssu, sjái skrýmslin ljóslifandi og finni úldin fnykinn af gallsúru þvagi þeirra.
Þrátt fyrir óteljandi möguleika í skemmtanabransanum er þessi tækni eflaust mikilvægust á lækningasviðinu. Í rauninni má ímynda sér að með henni megi t.a.m. leyfa blindum að sjá lifandi myndir eða upptökur og heyrnarlausum að heyra. Þó þetta hljómi ótrúlega og að enn sé langt í land að tæknin verði fullþróuð, má þó binda vonir við að þetta verði einhvern tímann að veruleika þar sem tæknin er vísindalega möguleg að mati taugasérfræðinga.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008