Göran Person forsætisráðherra og formaður Sósíaldemókrataflokksins stendur frammi fyrir ýmsum vandamálum. Samkvæmt skoðanakönnunum er fylgi flokksins í sögulegu lágmarki sem og hans persónulegu vinsældir. Mikill skandall skekur ungliðahreyfingu flokksins þar sem formaður ungra hefur verið staðinn að því að draga að sér fé og standa að ólögmætum skráningum saklausra ungmenna í flokkinn. Konur eru óánægðar með sinn hlut á þingi og eru í þann mund að stofna Sænskan Kvennalista sem kemur til með að bjóða fram í næstu kosningum.
Í viðtali við sænska ríkissjónvarpið í síðustu viku ákallaði Göran flokksystur sína og aðalsprautu svía í ESB, Margot Wallström að koma heim frá Brussel og hjálpa honum við að vinna komandi kosningar þar sem hún hafi miklu meir mögluleika en hann til að tryggja að fylgi flokksins tapist ekki yfir til Kvennalistans. “Velkomin heim Margot, við þörfnumst þín” sagði Göran og vill að hún leiði lista flokksins í næstu kosningum. Þetta neyðarkall Persons hefur verið túlkað á ýmsa ólíka vegu af sænskum fjölmiðlum. Expressen segir að Person þurfi á henni að halda til að geta unnið kosningarnar enda eigi Margot mikinn stuðning bæði meðal kjósenda og flokksmanna. Þá vilji Person fara að daga sig í hlé til að gerast skógarbóndi í Sörmland þar sem hann hefur nýverið keypt sér búgarð.
Aftonbaldet túlkar orð Görans á öndverðan hátt. Í yfirlýsingu hans felist í raun að aðgerðin “Kremjum Margot” sé hafin. Göran hræðist vinsældir Margotar meðal flokksmanna og óttist að þeir kunni að vilja skipta honum út sem formanni flokksins fyrir Margot á aðalfundi flokksins í haust. Því setji hann henni nú þá afarkosti að velja annað hvort leiðtogahlutverk í Brussel eða þingmensku í Svíþjóð. Ef hún ætli að koma heim verði það að vera núna og þá verði hún að segja störfum sínum lausum í Brussel. Þetta fína tilboð Görans feli í raun ekki í sér annað en að hún fái möguleika á þvi að verða einn af 349 þingmönnum eftir kosningarnar. Plottið gengur sem sagt út á að Margot lýsi því yfir að hún verði áfram í Brussel og þá geti Göran sagt við flokksmenn sína að hann hafi viljað fá hana heim en hún hafi hafnað því og þar með hafnað því að starfa fyrir flokkinn heima í Svíþjóð.
Margot hefur ekki enn gefið út hvað hún ætlar að gera en ljóst er að spennandi tímar eru framundan í sænskri pólitík.
- Framtíðin sem við skuldum - 30. nóvember 2020
- Alþingi í gíslingu - 11. júlí 2009
- Tækifæri til að efna fögur fyrirheit - 16. júní 2009