Það er ótrúlega algengt að menn tapi gögnum af tölvunum sínum, oft eru þetta mjög mikilvæg gögn svo sem myndir, tölvupóstur eða tónlist. Ástæður þess að menn tapa gögnum eru fjölmargar, má þar nefna vírusa, skemmdir á diskum eða t.d. ef fartölva dettur í gólfið. á fartölvu Oftast er um hugsanaleysi að ræða þar sem menn íhuga ekki að afrita gögnin sín.
Menn gera sér oft ekki grein fyrir verðmætinu sem er fólgið í þeim gögnum sem eru á tölvunum þeirra, en þau eru oft mjög mikil þótt tölvan sé aðeins notuð sem heimilistölva. Það er svo ekki fyrr en diskurinn er hruninn að fólk íhugar hvers virði gögnin á tölvunni virkilega eru. Með auknum fjölda stafrænnamyndavéla geyma tölvurnar oft myndasöfnin, tölvupóstsamskipti og netföng vina og vandamanna, efni og ritgerðir úr námi og annað efni sem okkur finnst vera þess virði að geyma á tölvunni okkar.
Þegar diskurinn er hruninn er í raun oftast of seint að bjarga gögnunum á einfaldan hátt. Þó eru til hugbúnaðarlausnir sem geta hjálpað hafi ekki orðið bilun í vélbúnaði. Í boði eru ýmsar þjónustur sem taka að sér að bjarga diskum, hins vegar felst gríðarlegur kostnaður slíkri þjónustu, frá nokkrum tugum þúsunda og upp í mörg hundruð þúsund krónur eftir því hvers eðlis þjónustan er.
Í dag er tiltölulega ódýrt að kaupa sér ódýran afritunarbúnað t.d. utanáliggjandi harðan disk, geisladiska, usb kubba eða DVD diska. Auðvelt er að afrita reglulega mikilvægar upplýsingar inn á svona miðla eða fá sér sérhæfð forrit sem sjá um það. Fyrir mikilvægari upplýsingar er rétt að skoða aðrar og umfangs meiri aðgerðir, ef þetta er lítið af gögnum er hugsanlega hægt að senda sér sjálfvirkan tölvupóst með þeim, setja upp ftp þjón og senda á tölvu fyrir utan heimili eða fyrirtæki. Eða fá fagaðila sem sérhæfa sig í réttri meðferð á slíkum gögnum.
Flestir hugsa að þetta komi ekki fyrir þá eða íhuga þetta alls ekki. Það er því ráð fyrir lesendur að gefa sér smá tíma núna og íhuga hversu mikilvæg gögn þeirra eru, og ef þeir taka ekki nú þegar reglulega afrit að líta við í næstu tölvubúð og velji sér diska við hæfi, og taka svo afrit að mikilvægustu gögnunum sínum.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020