Það deila fáir orðið um það að kominn sé hiti í íslenska hagkerfið en menn greinir á um hvert hitastigið sé. Úrvalsvítsitalan hefur nú rofið 4000 stiga múrinn í fyrsta sinn, fasteignir á höfuðborgarsvæðinu hækka enn í verði og mikill halli er kominn á vöruskipti við útlönd. Það er greinilega mikið af peningum í umferð, einkaneysla er komin á flug og í raun merkilegt að verðbólga skuli enn ekki vera hærri en raunin er, sem skýrist sennilega að mestu af sterku gengi íslensku krónunnar.
Það sem gerst hefur er í raun að vegna mikillar hækkunar á innlendum þætti vísitölunnar er það einungis lækkun á innfluttum vörum sem heldur aftur af verðbólgunni. Þær vörur geta ekki haldið verðbólgunni í skefjum til lengri tíma og þegar krónan veikist fer verðbólgan af stað – nema að innlendar vörur og húsnæði lækki í verði.
Innkoma bankanna á íbúðalánamarkaðinn hefur óneitanlega haft mikla þýðingu fyrir íslenskt efnahagslíf. Mörg þúsund einstaklingar hafa endurfjármagnað gömul óhagstæðari lán með nýju íbúðalánunum og lækkað hjá sér greiðslubyrðina. Við það hefur skapast svigrúm fyrir aukna neyslu sem við erum sennilega ekki enn farin að súpa seyðið af, með hækkandi verðbólgu. Fljótlega eftir að bankarnir tóku að bjóða íbúðalán á lágum vöxtum (sem eru reyndar ekki sérlega lágir miðað við vexti í nágrannalöndunum) kom í ljós að hluti þessara nýju lána voru greinilega nýtt til þess að greiða upp yfirdráttarlán og fjármagna aðra neyslu. Það má deila um fjármálahagfræðina sem liggur að baki því að dreifa einkaneyslu á 25 eða 40 ára lán (!) en það jákvæða við þennan gjörning er að dýr yfirdráttarlán heimilanna lækkuðu úr 61ma í rúmlega 57ma.
Það er því töluvert áhyggjuefni að nú er að koma í ljós að yfirdráttarlán heimilanna hafa verið að vaxa aftur og stefna nú óðfluga aftur yfir 60ma markið. Ber þá e.t.v. að túlka það þannig að heimilin hafi greitt upp yfirdráttarlán með nýjum íbúðalánun en freistast til þess að halda lánaheimildunum – og eru svo smám saman að koma sér í fyrri stöðu?
Skuldbreyting íbúðalána, kaupmáttaraukning, hækkun fasteingaverðs, velgengni íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum og samhliða fjölgun vel launaðra manna hefur aukið mjög peningamagn í umferð. Í þessu peningaflóði ættu skynsamir að spara og nota aukinn kaupmátt til þess að leggja fyrir í stað þess að neyta og skuldbinda sig frekar. Seðlabankinn reynir að sýna fyrirhyggju og hækkar vexti en stjórnvöld setja upp sólgleraugu og mótmæla. Þetta er nákvæmlega sá tími sem að stjórnvöld ættu að hvetja til sparnaðar – og spara sjálf – til þess að draga úr hættunni á mögulegu falli. En nei, hver eru skilaboðin þegar allt flýtur í peningum og atvinnuleysi er hverfandi – ekki er þörf á neinu aðhaldi og nú er rétti tíminn til þess að ráðast í Héðinsfjarðargöng.
Jú, þetta hlýtur að vera það og þrátt fyrir fögur loforð fasteignasala og greiningardeildanna og um að það sem fer upp komi ekki aftur niður að þá hefur sú kenning oftast staðist tímans tönn. Spurningin er, hversu hátt verður fallið?
Tölur frá Hagstofunni:
Vinnumarkaðsrannsókn 4. ársfjórðungur 2004:
Atvinnuþátttaka, 79,7%
Atvinnuleysi, 2,5%
Vinnuafl alls 16-74 ára 160.300:
Starfandi 159.300
Atvinnulausir 4.000
Vísitala neysluverðs í mars 2005, stig 241,5
Breyting frá fyrra mánuði, 0,8%
Breyting síðastliðna 12 mánuði, 4,7%
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009