Áfengi hefur verið hluti af menningu mannsins frá alda öðli og skyldi engan undra. Það þykir almennt fínt að kunna skil á góðum vínum, rauðum eða hvítum og jafnvel hafa ánægju af því að drekka þau. Vegna þess hve langa sögu það á sér og hversu dýr vín er hægt að kaupa hefur léttvínið jafnan setið skör hærra en frændi þess bjórinn. Margir neyta bjórs til þess eins að finna á sér í stað þess að njóta raunverulega bragðsins, líkt og gjarnan er raunin með góð vín.
Á okkar litla landi, þar sem lítið er um góðan bjór, þarf ekki að koma á óvart að einhverjir hafi ekki áttað sig á því hversu góður hann getur verið. Margir drekka íslenska framleiðslu, vissulega í anda “íslenskt-já takk,” en hins vegar er íslenski bjórinn því miður ekki sérlega góður og stundum einfaldlega vondur. Höfundur kann engar ástæður fyrir þessu, því án efa hafa íslenskar bruggverksmiðjur getu til þess að búa til öl sem jafnast á við það besta í heiminum.
Til þess að gera sér almennilega grein fyrir hversu magnað fyrirbærinn bjórinn raunverulega er þarf örlítið að skoða bæði söguna og sömuleiðis mismunandi gerðir öls og muninn á þeim. Fyrstu heimildir um bjór er að finna um 4000 f.Kr. og sömuleiðis hjá Babylóníumönnum, 2300 f.Kr. Bjór var hafður um hönd í Rómaveldi og líklegt þykir að með Rómverjum hafi hann borist um alla Evrópu. Í dag eru líklega flestir sammála um að besti bjór í heimi sé bruggaður í Belgíu, en þó má að sjálfsögðu finna frábær öl bæði í Þýskalandi, Danmörku og Bandaríkjunum.
Grunngerðir bjórs eru átta talsins, en tvær þeirra helstar, lager og öl. Lagerinn er sá sem við Íslendingar drekkum líklega hvað oftast, enda flestir þeirrar tegundar í okkar ágætu áfengisverslunum. Hann gerjast almennt við frekar lágt hitastig og er gjarnan daufgullinn að lit. Kolsýru er bætt í hann og finna má létt humlabragð. Að öðru leyti er bragðið fremur beitt og frískandi. Okkar íslenski Thule er dæmi um afbragðsgóðan lager.
Öl (e. ale) er afar ólíkt lagernum og töluvert meira í það varið. Ölið gerjast við kjallarahita, er jafnan náttúrulega kolsýrt og töluvert bragðmeira, gjarnan með keim af ýmsum ávöxtum eða kryddjurtum. Öl er dekkri en lager og henta vel með bragðmiklum mat. Vilji menn nálgast gott öl er ágætt að leita til Belgíu og bragða til dæmis Gulden Draak. Hann er ófáanlegur á Íslandi, nema ef vera skyldi sérpantaður, en mörgum þykir þetta öl eitt það besta í heimi. Meðal hinna sex gerða bjórs eru svo stout, porter og bock.
Ekki er nóg með að það skipti miklu máli hvaða bjór er drukkinn heldur er glasið einnig lykilatriði. Bjór skal raunverulega aldrei drukkinn úr flösku, nema hann sé ekki þess virði að hella í glas, heldur ber að gæta þess að nota útbúnað sem hæfir því sem verið er að neyta hverju sinni. Hin hefðubundnu glös sem flestir barir notast við henta almennt vel fyrir lager, öl fara best í svokölluðum túlípanaglösum, hveitibjórar drekkast úr háum, niðurmjóum glösum og svo mætti lengi telja. Það er mikilvægt að kynna sér vel hverju sinni úr hverju skal drekka, nema, eins og áður segir, að mjöðurinn sé varla flöskunnar virði, en þá er auðvitað spurning um að fá sér annan bjór.
Eins og inngangur pistilsins ber með sér telur höfundur að nú sé mál að linni hvað léttvínið varðar. Við Íslendingar þurfum að koma okkur upp raunverulegri bjórmenningu og læra að meta hann útfrá bragði og gæðum, en ekki nota hann aðeins sem vímugjafa. Því miður er enn litið niður á fólk sem pantar bjór á fínum veitingahúsum, þrátt fyrir að sama veitingahús geti ekki séð sóma sinn í því að reiða fram drykkinn í glasabúnaði við hæfi.
Ísland hefur alla burði til þess að komast á kortið í heimi bjórsins, en til þess þarf sameinað átak allra sem vettlingi geta valdið og eina skilyrðið er að teyga mjöðinn eins og menn eigi lífið að leysa.
Ef menn vilja kynna sér málið frekar:
Allt um bjór á Beer Advocate
Brouwerij Van Steenberge í Belgíu
Glasabúnaður
- Siðlaust guðlast - 5. september 2007
- Þess vegna er Laugavegurinn dauður - 6. mars 2007
- Hvað á RÚV að þýða? - 12. febrúar 2007