Undanfarið ár hefur verið viðburðaríkt hjá bönkunum. Upp úr þar síðustu áramótum hófu bankarnir að bjóða upp á lán í erlendri mynt og skyndilega fóru allir að spá í lán í jenum og evrum, líkt og ekkert væri sjálfsagðara. Þá dró heldur betur til tíðinda þegar leið á vorið og Íbúðalánasjóður fékk samkeppni frá bönkunum. Hálfgert vaxtastríð fór af stað og hver bankinn á fætur öðrum bauð lægri vexti á fasteignalánum og hærra lánshlutfall af fasteignum en Íbúðalánasjóður hafði áður boðið. Í kjölfarið kusu fjölmargir landsmenn að endurfjármagna óhagstæð skammtímalán, svo sem yfirdráttarlán.
Þessi þróun hefur vakið óhug meðal margra og sumum þótt nóg um. Lán með ýmis nöfn eru auglýst til að gefa fólki hugmyndir að hlutum til að taka lán fyrir svo sem tölvukaupalán, sumarleyfislán, bílalán og framkvæmdalán. Fólki stendur allt til boða sem hugurinn girnist og bankarnir lána fyrir neyslunni með glöðu geði. Þegar hefur margt ungmennið brennt sig á neyslulánum og hafa námsráðgjafar menntaskólanna kvartað sáran yfir því hve auðfengið það er að fá lán fyrir dýrum lífstíl þessa aldurshóps. Yfirdráttalán heimilanna eru nú að taka mikinn kipp og nálgast 60 milljarða á ný en það jafngildir því að hver einstaklingur skuldi um 280 þúsund á hæstu vöxtum. Kostnaðurinn við slíkt lán nemur tugum þúsunda á ári.
Þessi ofuráhersla bankanna á að veita fólki lán hefur vakið neikvætt umtal um starfsemi bankanna og mörgum þykir þetta draga úr trúverðugleika þeirra og velt því fyrir sér hvort að þeim beri að sýna ábyrgð í þessum efnum. Sagt er að þjónustufulltrúar þurfi að hugsa sig um þegar þeir eru spurðir út í sparnaðarleiðir. Það er ljóst að ekki þarf að spyrja að leikslokum ef fasteignir taka upp á því að lækka í verði en þá myndu eflaust fjölmargir sitja uppi með hærri lán en sem andvirði fasteignarinnar nemur. Því hefur ábyrgð bankanna oft verið rædd undanfarið og hvort þeir séu að fara skynsamlegar leiðir í þessum efnum.
Það stakk því í stúf þegar banki allra landsmanna hóf að auglýsa sparnað í gær. Í auglýsingunni er minnt á gamlan kunningja, spariskírteini ríkissjóðs, og í kjölfarið eru sparibréf og fleiri sparnaðarleiðir kynntar. Gamaldags sparnaður og ekkert annað. Minnt er á þá augljósu kosti sem sparnaði fylgja og að mikilvægt sé fyrir hverja fjölskyldu að sýna fyrirhyggju til að geta mætt óvæntum jafnt sem fyrirsjáanlegum útgjöldum og sleppa þannig við óhagstæð yfirdráttarlán. Auglýsingin er sérstaklega skemmtileg fyrir þær sakir að í henni eru dregnir saman helstu punktar David Bach um sparnað. David bendir á að snjallasta leiðin sé að byrja á því að greiða sjálfum sér fyrst, áður en nokkuð annað er greitt. Sparnaðurinn á að vera bundinn í fastar mánaðarlegar greiðslur til að koma í veg fyrir að greiðsla detti niður. Ef markmiðið með sparnaðinum er skýrt, þá verður sparnaðurinn mun skemmtilegri og ánægjulegt verður að njóta ávinningsins þegar markmiðinu er náð.
Hann heldur því fram að yfirleitt eyði maður því sem eftir stendur til ráðstöfunar þegar reikningar hafa verið greiddir og því skipta 10% til eða frá ekki öllu máli. Með þetta í huga er ljóst að það er ekki kvalarfullt að verja hluta af tekjunum í sparnað. Staðreyndin er einnig sú að mun skemmtilegra er að fara í orlofsferð til sólarlanda sem maður hefur sparað fyrir en að taka lán og greiða mun hærra verð.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér skemmtilegar pælingar David Bach er bent á bókina: Smart Couples Finish Rich, en í þeirri bók eru tekin ýmis dæmi um ávinning sparnaðar og er lesning hennar eins konar sjálfshjálp í þessum efnum.
En fyrir þá sem eru orðnir áhugasamir um sparnað og vilja láta sig dreyma um gull og græna skóga í framtíðinni, geta reiknað sig fram í tímann hér. Allt sem þarf er reglulegur sparnaður og tími til að leyfa vöxtunum að græða stofninn.
Hér skal þó ósagt látið hvort það borgi sig að taka nýtt lán, endurfjármagna fasteignalánin og lækka mánaðarlega afborgun til að geta eytt – í sparnað.
- Svarið við áskorunum framtíðarinnar en ekki lausnin á vanda nútímans - 2. júní 2020
- Lifum við á fordómalausum tímum? - 9. maí 2020
- Má ég, elskan? - 21. júní 2008