Félagarnir í augum Pablo Picasso.
|
Riddarinn er án efa einna skemmtilegasti taflmaðurinn. Hann er um margt frjálsari en litlaus peðin eða þeir voldugu embættismenn sem deila aftari fylkingunni með honum. Hann getur stokkið út og suður, eins og hann lúti ekki sömu lögmálum og hinir.
Þetta sama á oft við ýmsa hópa og einstaklinga, þeir eru afbrigði frá hinu venjulega, eða sjá sig í það minnsta þannig. Við Íslendingar erum gott dæmi um þetta. Við eigum einstaklega erfitt með að lúta yfirvaldi og reglum og erum á öllum sviðum best miðað við höfðatölu. Þetta einkennir einmitt oft þá sem á einhvern hátt einangrast frá öðrum, hvort sem það er landfræðilega eða félagslega.
Þannig á landfræðileg einangrun okkar Íslendinga átt þátt í tilurð mikilmennskubrjálæðis okkar og sterkrar einstaklingshyggju. Á svipaðan hátt einangraði Alonso Quijano sig við lestur riddarasagna og á góðlátlegu hversdagsmáli getum við sagt að hann hafi klikkast lítillega og lesið yfir sig. Afleiðingin varð umbreyting hans í don Kíkóta, riddaran hugumprúða sem sá heiminn í réttu ljósi.
Hugsanlega getum við líka fundið hliðstæðu í nýjasta miðaldra Íslendingnum. Manni sem aldrei hefur verið sérlega félagslyndur en líkað betur að einbeita sér algjörlega að sínu helsta áhugamáli. Sjálfur sagði hann einhverju sinni: „Chess is life.“
Árið 1972 má með sanni segja að hann hafi verið hinn hvíti riddari okkar Íslendinga. Setti landið á kortið eins og gjarnan er sagt, þegar hann vann frægasta skákeinvígi sögunnar. Við fundum einhvernvegin samsömun í honum; sérlunduðum og sjálfstæðum. Ekki skipti minna máli að hann var að berjast gegn ofurefli, gegn rússnesku skákhefðinni sem öllu hafði ráðið í áratugi. Við höldum jú gjarnan með lítilmagnanum. Uppáhalds íþróttaliðin okkar eru spútnikliðin – sem eru best miðað við fyrirframgefnar forsendur.
Riddarinn okkar tók nú stökk í kerfinu, framfyrir peðin eins og honum einum er lagið. Hin sérlundaða en hugumprúða þjóð rétti honum hjálparhönd á ögurstundu. Meira að segja á þessi sjónumhryggi riddari sinn Sansjó, sem heldur tryggð við hann sama hvað á gengur og útskýrir og afsakar hegðun hans þegar hann ræðst gegn vindmyllum og sauðahjörðum.
Í eigin augum erum við að sjálfsögðu hugumprúðir riddarar að bjarga – að vísu ekki fagurri prinsessu heldur gömlum vini frá óbilgjörnum dreka. Það er þó ekki víst að aðrir sjái það sama og við. Hugsanlega erum við sjálf sjónumhrygg í augum áhorfenda, föst í eigin hetjusögu um hestasveininn sem varð riddari, besti riddari heims miðað við höfðatölu.
Það þarf ekki mjög mikinn kjark til verka eins og þess sem hér um ræðir, því þó vel sé meint felst í því þónokkur sjálfumgleði. Það þarf hins vegar sannarlega kjark til að meta alla menn á jöfnum grunni með réttlæti og mannúð að leiðarljósi. Ef við viljum leika riddara á skákborði heimsins – nú eða Sameinuðu þjóðana – þá skulum við muna að þeir sem ekki passa upp á peðin verða heimaskítsmát.
Það er von mín að vinargreiði okkar við skáksnillinginn sjónumhrygga beri vott um breyttar áherslur frá því ný lög um útlendinga voru samþykkt í sumar. Að við munum hvað varð til þess að landið byggðist; þegar sjálfstæðir og sérlundaðir þegnar flýðu ofríki í von um frið og réttlæti. Það þarf kjark til að taka vel á móti þeim sem minna mega sín, því þá þykir ekki ástæða til að rjúfa útsendinguna, það er ekki forsíðufrétt. Peðunum er fórnað.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021