Sebastian Mallaby er breskur blaðamaður og pistlahöfundur á dagblaðinu Washington Post, en áður starfaði hann hjá The Economist sem fréttaritari í Afríku. Mallaby þekkir því vel til þess veruleika sem Alþjóðabankinn er að fást við. The World´s Banker: A Story of Failed States, Financial Crises, and the Wealth and Poverty of Nations (2004), er í stuttu máli bók um þróunaraðstoð undanfarin tíu ár sem er fléttað saman með skemmtilegum sögum af Wolfensohn í starfi sínu sem forseti Alþjóðabankans. Stærsti kostur bókarinnar er hversu víða Mallaby hefur leitað fanga. Hann tók viðtöl við um tvö hundruð starfsmenn hjá Alþjóðabankanum, meðal annars sjálfan Wolfensohn, sem hann talaði við í samtals tuttugu klukkustundir. Útkoman er lífleg frásögn af heillandi persónu og stofnun, sem fær sjaldnast það hrós sem hún á skilið.
Verkefni Alþjóðabankans er mjög skýrt: Að minnka fátækt í heiminum. Og Wolfensohn hafði svo sannarlega hugsjón um hvernig hann ætlaði að fara að því, þegar hann kom til bankans árið 1995. En vandamálið var hins vegar, eins og Mallaby bendir á, að hann hafði oft kannski þrjár mismunandi hugsjónir á einni viku. Vanhæfni til að forgangsraða málum leiddi því oft til þess að hann náði ekki að standa undir hinum góða ásetningi sínum.
En Wolfensohn hefur gert margt mjög vel. Hann kom því m.a. á dagskrá bankans að fella niður skuldir hjá fátækustu ríkjum heimsins, eitthvað sem var nánast bannað að ræða um áður innan bankans. Og hann tókst á við spillingu sem bankinn hafði áður forðast að takast á við. Wolfensohn breytti einnig stefnu bankans frá því að skipa löndum nákvæmlega fyrir um það í hvað peningarnir eigi að fara sem þau fengu að láni frá bankanum. Reynslan af þeirri stefnu hafði ekki verið góð. Í staðinn spyr bankinn viðkomandi land hvað það vill gera og ef það hljómar skynsamlega veitir bankinn því aðstoð fyrir verkefninu.
Það sem var eitt helsta forgangsmál Wolfensohns þegar hann tók til starfa var að bæta samband bankans við þau fjölmörgu frjálsu félagasamtök (NGOs) sem höfðu gagnrýnt hann. Með þessu ætlaði hann sér að reyna bæta ímynd bankans. Þetta hefur hins vegar reynst dýrkeypt. Að mati Mallaby gekk Wolfensohn of langt í viðleitni sinni til að sætta gagnrýnendurna.
Yfirleitt er gert ráð fyrir því að frjáls félagasamtök séu bæði heiðarleg og hafi göfugu hlutverki að gegna; þau veiti nauðsynlegt aðhald gagnvart stjórnvöldum og stórfyrirtækjum með vafasöm markmið að leiðarljósi. Og það má vel vera að svo sé í mörgum tilvikum. En eins og mörg dæmi sem Mallaby rekur í bókinni sýna, þá koma sum þeirra oft í veg fyrir að bankinn geti hrundið af stað góðum verkefnum með óraunhæfum og oft á tíðum fáránlegum kröfum sínum. Lítum á bara eitt dæmi.
Úganda býr við mikinn rafmagnsskort og því var ákveðið að fara út í það verkefni á vegum Alþjóðabankans að reisa stíflu svo hægt væri að framleiða raforku. Og þá var komið að umhverfisverndarsamtökum í Bandaríkjunum að segja frá því hversu hræðileg þessi stífla væri. Það ætti að flytja fullt af fólki í burtu frá heimilum sínum svo hægt væri að reisa stífluna og án þess að fólkið fengi neinar bætur í staðinn. Auk þess sem umhverfisverndarsamtök í Úganda áttu að hafa lýst yfir mikilli andstöðu við þessar framkvæmdir.
Mallaby fer og heimsækir þessi umhverfisverndarsamtök í Úganda og spyr einfaldlega hversu margir meðlimir séu í samtökunum. Svarið sem hann fær? Jú, það eru samtals tuttugu og fimm meðlimir í samtökunum. Eftir það fer hann og heimsækir svæðið þar sem reisa átti stífluna, í för með félagsfræðingi frá Úganda sem er túlkur fyrir hann. Og hann spyr allt fólkið á svæðinu hvort það sé í uppnámi yfir þessari stíflu sem stendur til að reisa. Svörin eru öll á sömu leið: Þeim finnst þetta af hinu góða, þar sem þeim hafi verið boðnir miklir peningar í staðinn og þau hafi núna möguleika á kaupa sér betra land.
Allur sá áróður sem umhverfisverndarsamtök í Bandaríkjunum höfðu verið með í bandarískum blöðum vegna þessara áforma Alþjóðabankans, var því byggður á ósannindum. En þrátt fyrir það, var þessi andstaða hluti af þeirri ástæðu – en ekki sú eina – að verkefninu hefur verið frestað í langan tíma.
Wolfensohn hefur samt sem áður tekist að koma á uppbyggilegum samböndum við sum virtari félagasamtök, eins og t.d. Oxfam. En við mörg önnur mun bankinn einfaldlega aldrei getað komið til móts við, því ekkert sem hann gerir mun þóknast þeim. Tilvist þessara samtaka byggist nefnilega meira og minna á þeirri athygli sem vestrænir fjölmiðlar sýna þeim. Og til að viðhalda henni þýða engar málamiðlanir.
Enda þótt Wolfensohn hafi tekist að breyta mörgu til hins betra innan Alþjóðabankans, var árangur bankans við að minnka fátækt í heiminum undir hans stjórn ekki sérlega góður. Á heildina litið minnkaði fátækt í heiminum undanfarin tíu ár, en það var aðallega vegna mikils hagvaxtar í Kína og Indlandi. Fátækustu ríki heimsins, sérstaklega í Afríku, tóku hins vegar litlum framförum – en það voru einmitt löndin sem áttu að vera forgangsmál hjá Wolfensohn.
The World´s Banker er skyldulesning fyrir alla þá sem langar til að öðlast dýpri skilning á þróunarmálum og baráttunni gegn fátækt í heiminum – eða bara kynna sér persónuna James Wolfensohn. Einhver ætti kannski að benda Paul Wolfowitz á bókina.
- Hvenær mun kínverska hagkerfið fara fram úr hinu bandaríska? - 21. ágúst 2008
- Af hverju kapítalismi leiðir ekki endilega til lýðræðis - 15. ágúst 2008
- Annað tækifæri - 12. janúar 2008