Áhersla íslenskra stjórnmálamanna á stóriðjuframkvæmdir er með hreinum ólíkindum. Það virðist sem hún sé eina lausnin að þeirra mati varðandi atvinnuppbyggingu í landinu og auknar gjaldeyristekjur. Reykjanesbær vill stólpípuverksmiðju (eða var það stálpípuverksmiðja?) og magnesíumverksmiðju, Akureyringar og Húsvíkingar rífast um hvorir eigi rétt á næsta álveri og svo má lengi telja. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra lýsti því svo yfir í vikunni að eftir Kárahnjúka komi vel til greina að skoða aðra jafnstóra fjárfestingu í stóriðju.
Er stóriðja jafngóð lausn og stjórnmálamenn vilja meina? Henni fylgja mjög margir slæmir fylgifiskar s.s. loft- og sjónmengun. Allir sem hafa flogið til landsins í góðu veðri hafa séð risastórar byggingar álversins í Straumsvík brjóta upp annars fallega loftmynd. Sama má segja um hræðilegar byggingar Norðuráls og Íslenska járnblendisins á Grundartanga sem eyðileggja annars fallegt umhverfi Hvalfjarðarins. Að sjálfsögðu fylgja stóriðju ýmsir kostir, þær auka atvinnu og uppbyggingu á þeim stöðum sem þeim er plantað og þær auka gjaldeyristekjur þjóðarbúsins. Til skamms tíma eru áhrifin því mjög góð en til lengri tíma litið er niðurstaðan ekki eins augljós. Stóriðja getur t.a.m. skaðað ímynd Íslands sem ferðamannalands og ímynd íslensks landbúnaðar og fisks sem hreinnar, hágæðaútflutningsafurðar.
Ótvírætt er að stóriðja hefur bein áhrif á umhverfið. Uppistöðulón, sem nauðsynlegt er að mynda til að geta framleitt nægt rafmagn fyrir þær, munu þekja stóran hluta hálendisins og tapast þar dýrmæt svæði sem ákaflega erfitt er að verðmeta í dag. Auk þess spýr stóriðja miklu magni af óhreinu lofti út í andrúmsloftið og blandar við hreint íslenskt loft sem við viljum ávallt telja öðrum trú um að sé það hreinasta í heimi. Við þetta má svo bæta niðurgreiddri raforku. Fólkið í landinu er látið borga hátt verð fyrir raforku til að hægt sé að selja stóriðjunni orkuna nógu ódýrt.
Íslendingar eru metnaðarfullir. Við viljum eiga háskóla á heimsmælikvarði og beina flestum í langskólanám enda er menntun arðbær og um það deila fáir. Við viljum fleiri verkfræðinga, fleiri tölvunarfræðinga, fleiri frumkvöðla og fleiri útrásarfyrirtæki. Viljum við þess vegna ekki hátæknifyrirtæki sem skapa tekjur úr þekkingu starfsfólks í stað hráefnisfyrirtækja sem skapa tekjur úr báxíti? Viljum við ekki skapa vettvang fyrir vel menntað ungt fólk til að vera skapandi og selja íslenskt hugvit, sama hvort það er í tengslum við hugbúnaðargerð, stoðtækjahönnun eða hönnun á kjúklingaplokkurum? Við þurfum nýtt Marel, nýtt Díkót og nýjan Össur ekki Austurál, Vesturál og Suðurál. Þekkingin er dýrmæt og hafa flest önnur vestræn lönd áttað sig á því og einbeitt sér að því að búa til verðmæti úr hráefninu, sama hvort það sé ál, timbur eða sköpunargáfan, í stað þess að framleiða hráefnið sjálft (þó vissulega væri góður bisness í því að framleiða sköpunargáfu).
Stóriðjan gerir einungis kröfur um að brot af heildarvinnuafli sé langskólagengin svo með sífelldri fjölgun háskólamenntaðra og aukinni áherslu í þjóðfélaginu á góða menntun er hætt við því að stóriðjur framtíðarinnar þurfi að leita út fyrir landsteinana að vinnuafli. Slíkt er nánast óhugsandi miðað við núverandi fordómafulla stefnu stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar í málefnum útlendinga. Eru þau landsbyggðarsveitafélög sem hvað harðast sækja stóriðju tilbúin að mæta slíkri þróun?
Það er erfitt að átta sig á langtímaáhrifum stóriðju, þó svo að mínu mati séu neikvæðu hliðarnar fleiri en þær jákvæðu. En þar liggur hundurinn grafinn. Stóriðja er fyrst og fremst skammtímalausn þar til annað kemur í ljós. Sem slík hentar þessi lausn stjórnmálamönnum, sem hugsa í kjörtímabilum, ákaflega vel. Líklega er þetta þó síður en svo skynsamlegasta lausnin fyrir Ísland til langs tíma litið. Er þá ekki betra fyrir alla að ríkisstjórnin beini sjónum sínum annað og taki t.a.m. tilboði Ingvars Kristinssonar, formanns samtaka upplýsingatæknifyrirtækja um tíföldun gjaldeyristekna af hugbúnaði? Á þessum sviðum eigum við að sækja fram, ekki með stóriðju og hráefnisframleiðslu eins og gert er í þriðja heiminum.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008