Evrópusambandið tók við friðargæslu af NATO í Bosníu í desember síðastliðnum og er nú um sjö þúsund manna lið á þeirra vegum í landinu. Skiptin fóru ósköp hljóðlega fram, en 33 þjóðir taka þátt í verkefninu, þar af 22 ríki Evrópusambandsins. Þessi hernaðaraðgerð, sem ber nafnið ALTHEA, er sú þriðja og jafnframt sú stærsta sem Evrópusambandið hefur staðið fyrir hingað til.
Ráðamenn í Brussel binda miklar vonir við að EUFOR (European Union Force in Bosnia and Herzegovina) takist verkið vel úr hendi, enda yrði það vitnisburður um að varnarstefna Evrópusambandsins geti gengið. Það hefur því miður löngum loðað við sameiginlega utanríkis- og varnarstefnu sambandsins að hún hefur átt það til að bresta þegar mest reynir á. Er stríðið í Júgóslavíu helsta dæmi þess. Í upphafi stríðsins voru höfð stór orð um að nú væri komið að Evrópu – með öðrum orðum Bandaríkjanna væri ekki þörf til að koma á friði. Tilraunir Evrópusambandsins til að hafa stjórn á ástandinu í Júgóslavíu náðu loks botninum árið 1995 er hollenskum friðargæsluliðum tókst ekki að koma í veg fyrir fjöldamorð Bosníu-Serba á um 7500 Bosníu-múslimum í Srebrenica. Nokkru síðar komu liðssveitir NATO undir stjórn Bandaríkjamanna og bundu enda á átökin í landinu. Til að kóróna allt saman var skrifað undir friðarsamkomulagið í Ohio í Bandaríkjunum en ekki í Brussel.
Áratug síðar er Evrópusambandið komið á sömu slóðir á ný. Skiptin eru þó fremur táknræn en raunveruleg því um 80% af friðargæsluliðum í Bosníu störfuðu þar áður undir merkjum NATO. Bosníu-múslimar eru sagðir ekki yfir sig hrifnir af þessum skiptum, þar sem þeir treysti Bandaríkjamönnum betur en Evrópusambandinu til þess að vernda friðinn í landinu. Þeir óttast að Evrópa geti brugðist þeim enn á ný. Yfirmenn EUFOR segja það hins vegar afar ólíklegt að átökin brjótist út aftur, en ef svo gerist hafi EUFOR stjórn á þeim.
Starf EUFOR felst meðal annars í því að gera ástandið á Balkansskaga stöðugt. Evrópusambandið hefur lýst því yfir að þegar til lengri tíma sé litið geti fyrrum ríki Júgóslavíu sótt um aðild að sambandinu. En til þess að af slíkum áformum geti orðið þarf margt að gerast. Atvinnuleysi í Bosníu er um 45% og mikið er um skipulagða glæpastarfsemi. Þeim tilmælum hefur jafnframt verið beint til ríkjanna á Balkansskaga að afhenda alla stríðsglæpamenn til Haag svo hægt verði að rétta yfir þeim. Á síðustu vikum hefur aukinn fjöldi stríðsglæpamanna verið framseldur til Haag, svo spurning er hvort það sé liður ríkjanna til að komast nær inngöngu í Evrópusambandið. Óhætt er þó að fullyrða að langt er í að af slíkum áformum geti orðið. Það er svo vonandi að EUFOR takist ætlunarverk sitt í Bosníu í millitíðinni og að það geti orðið vitnisburður um að sameiginleg utanríkis- og varnarstefna Evrópusambandsins geti gengið.
Heimildir:
The Economist
www.euforbih.org
- Árleg mannekla - 18. september 2007
- Lítilla breytinga að vænta - 5. maí 2007
- Jarðgangagerð, opinber störf og niðurgreiðslur - 17. mars 2007