(Afreks)mannaklúbburinn

sdfdÍ drepleðinlegu helgarnesti dagsins er fjallað um hátíðarkvöldverð sem haldinn verður til heiðurs afreksmanninum Ólafi Ragnari Grímssyni á Waldorf-Astoria hótelinu í New York-borg annað kvöld.

Ólafur DNA?

Í hádeginu bárust fregnir þess efnis að forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, verði aðalræðumaður og heiðursgestur í kvöldverði The Explorers Club í New York-borg annað kvöld. Ýmsum var talsvert brugðið við þessar fréttir enda tenging forsetans við afreksmenn kannski ekki jafnaugljós og ætla mætti í fyrstu. Til að gera langa sögu stutta verða samræðumenn forsetans menn af ekki þrengri hlaupvídd en milljarðamæringurinn Steve Fosset auk Nóbelsverðlaunahafans James D. Watson, sem gerði sér lítið fyrir og uppgötvaði í slagtogi við annan mann byggingu DNA-erfðaefnis á einu föstudagseftirmiðdegi. Ólafur er því sannanlega í góðra manna hópi og vonandi að hann subbi ekki súpunni yfir orðum skrýdda jakkaboðungana.

Hér er hins vegar rík ástæða til að staldra við í stutta stund og velta fyrir sér hvað þessir menn eiga hugsanlega sameiginlegt. Þannig er líklegt að sameiginlegt áhugamál þessara manna snúist um sjálfhverfu enda Fosset annálaður fyrir gott álit á sjálfum sér auk þess Ólafur Ragnar gerði sér lítið fyrir og færði Margréti Þórhildi Danadrottningu mynd af föður sínum þegar keðjureykingamaðurinn kom í opinbera heimsókn til Íslands.

Tengsl Ólafs við Watson eru hins vegar torræðari og nema ef litið er til útlits þeirra enda deila þeir lífssýn um að sundra einingum til að komast að kjarna þeirra — á misuppbyggilegan máta þó. Þannig hefur uppgötvun Watson um uppbyggingu erfðaefnis valdið straumhvörfum í vísindaheiminum — en enn er beðið eftir dómi sögunnar á því þegar Ólafur þóttist vera sósíalisti hjá allaböllum og sundraði þannig grunneiningu flokksins.

Skál í boðinu, segi ég nú bara.

Líklegra verður þó að teljast að Ólafur hafi verið boðin þátttaka í kvöldverðinum vegna þess að einn af stofnendum félagsins var landkönnuðurinn Vilhjálmur Stefánsson. Þannig hefur einhverjum skriffinnanum dottið í það snjallráð að fá fulltrúa þjóðarinnar til að halda stutta tölu um gildi afreksmanna í þjóðfélaginu sem virðist í auknum mæli hampa meðalmennsku á öllum sviðum þess.

Góða helgi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)