„Fínni hluti World Class“
|
Fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári ákvað ég að reyna að taka upp nýjan lífsstíl. Ég ákvað að fara að hreyfa mig og styrkja, létta mig og liðka. Reyndar hafði ég reynt áður að taka mig á í heilsusamlegu líferni en einhvernvegin tókst mér alltaf að snúa mér aftur að hamborgurunum.
En þetta er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að ég byrjaði umskiptin í lítilli stöð í Fellsmúlanum, World Class. Alltaf fannst mér þetta frekar asnalegt nafn á líkamsræktarstöð á Íslandi, nafn sem gæti útlagst á íslensku Heimsmælikvarði eða Heimsflokkur eða eitthvað þessháttar.
WC í Fellsmúlanum þótti mér frekar skrýtinn staður. Þar voru nokkur upphitunartæki, nokkur lyftingartæki, handlóð og teygjusvæði. Maður mætti þarna eins og hálfviti, reyndi að lyfta eitthvað við hliðina á 120 kg tröllum með 3% líkamsfitu. En eftir að hafa púlað í 2 mánuði í Fellsmúlanum flutti stöðin inn í Laugardal. Eitthvað hafði maður heyrt um þessa nýju stöð í Laugum. Maður heyrði fastagesti WC tala sín á milli:
Tröll 1: „Heyrðu, ég kíkti þarna inn í Laugar um daginn, þarna nýja staðinn!“
Tröll 2: „Já, var það? Var þetta ekki alveg geðveikt?“
T 1: „Jú, þetta verður alveg klikkað!“
T 2: „Já, maður bíður bara eftir að komast í nýja bekkinn maður“
Þannig að maður bara beið með mikilli eftirvæntingu eftir að komast í nýja bekkinn. Og svo kom að því. Í byrjun janúar steig maður fyrst fæti inn í hina nýju stöð í Laugardalnum. Þarna voru fleiri hundruð upphitunartæki, hellingur af lyftingartækjum og fullt af handlóðum. Uss. Ég skal alveg viðurkenna að eftir 2 mánuði í Fellsmúlanum var maður kominn með smá leið á því að lyfta lóðum, kommon, þetta er nú ekki mjög fjölbreytileg íþrótt, ef íþrótt skyldi kalla. En þegar maður komst í WC í Laugum þá endurnýjaðist eldmóðurinn, maður mætti á hverjum degi (ég geri það nú reyndar ekki lengur).
Upplifunin að koma inn í þessa byggingu var ótrúleg. Hvernig hlaupabrettunum er raðað upp í boga eftir risastórum gluggunum sem snúa út að Laugardalslauginni þannig að um leið og maður hleypur getur maður horft á stelpurnar og hugsað: „Sko, ef þú ætlar einhvern daginn að vera með stelpu sem lítur svona út þá skalt þú sko gjöra svo vel og hlaupa í korter í viðbót“ Algjör snilld! Svo getur maður horft á sjónvarpið ef engar eru stelpurnar. Og upphaflega átti það að vera efni þessa pistils (ekki einhver umfjöllun um mína tilraun til að verða heilsusamlegri) hversu vel aðstandendum WC hefur tekist til með uppsetningu og hönnun staðarins.
Á unglingsárunum, fyrir löngu síðan, var ég á ferðalagi með fjölskyldunni í Kalíforníu, mekka hins heilsusamlega lífernis (og kannski hins óheilsusamlega). Við fórum með vinafólki í svona Sport Club þar sem þeir sem vildu gerast meðlimir þurftu að bíða í fleiri ár eftir að komast að. Og til að gera langa sögu stutta þá var ekkert varið í þennan Club miðað við minn Club í Laugum. Þeir voru að vísu með útitennisvelli – en hver spilar tennis?
Mér finnst Björn og Dísa í World Class eigi heiður skilinn fyrir að framkvæma það sem þau trúa á og gefast ekki upp. Og eftir að hafa stundað heilsurækt í Laugum í rúmlega ár er ég sannfærður um það að þau hjón væru tilvalin í að stjórna okkar næsta útrásarfyrirtæki og þá gætum við sýnt umheiminum að það stendur fyllilega undir nafni.
- Hvít heyrnartól - 2. desember 2005
- Aðeins um nýjustu geisladiskana - 12. október 2005
- Iðnaðarleyndarmál frítt til Kínverja - 3. september 2005