Svokallaður líkamsþyngdarstuðull (e. Body Mass Index) er víða notaður sem mælikvarði á líkamsástand og er sífellt meira í umræðunni, stundum á heldur óvarkáran hátt. Nýlegt dæmi er þyngsályktunartillaga Ástu R. Jóhannesdóttur um hreyfingu sem valkost í heilbrigðiskerfinu þar sem fram kemur að „65% fullorðinna séu yfir æskilegri þyngd og fylgir því fjöldi sjúkdóma“.
Þyngdarstuðullinn er skilgreindur* sem þyngd deilt með hæð í öðru veldi. Miðað er við að fólk með þyngdarstuðul minni en 20 sé í undirþyngd, fólk milli 20 og 24.9 sé í venjulegri þyngd, 25 til 29.9 sé yfirþyngd og yfir 30 teljist fólk með offitu. Rökin fyrir því að nota þennan stuðul til að meta fituástand fólks er að sýnt hefur verið fram á að fyrir flesta er mjög sterkt samband milli fituhlutfalls og þyngdarstulsins. Og þar sem erfitt og dýrt sé að mæla fituhlutfall en mjög auðvelt að mæla þyngdarstuðulinn er hann talinn hentugur mælikvarði.
Þessi staðall hefur hins vegar sínar takmarkanir. Hann ofmetur fituhlutfall íþróttamanna og þeirra sem eru vöðvastæltir eða stórbeinóttir og setur þannig marga vel þjálfaða íþróttarmenn, s.s. frjálsíþróttamanninn Jón Arnar Magnússon, körfuboltamanninn Kobe Bryant og fótboltamanninn Sol Campbell, í flokk þeirra með yfirþyngd. Hann vanmetur oft fituhlutfall eldra fólks sem misst hefur vöðvamassa og er almennt háður aldri og kyni.
Staðlinum fylgja einnig klínískar leiðbeiningar um meðferð á yfirþyngd og offitu. Þar er mælt með að einstaklingur í yfirvigt létti sig ef hann/hún hefur mikið mittismál (hann meira en ummál mjaðma, hún meira en 80% af ummáli mjaðma) eða hefur 2 eða fleiri áhættuþætti fyrir þyngdartengdum sjúkdómum. Það er því ljóst að af þeim 65% prósentum sem nefnd eru í þyngsályktunartillögunni eru fjölmargir sem þurfa alls ekkert að léttast til að koma í veg fyrir þyngdartengd heilbrigðisvandamál. Yfirþyngd þýðir því ekki endilega óæskileg þyngd.
Offita er mikið og vaxandi vandamál. Baráttunni gegn því vandamáli væri greiði gerður ef fólk færi varlegar með tölur um flokkun eftir þyngdarstuðlinum og myndi einbeita sér að kjarna málsins. Og kjarni málsins er ekki 65% allra fullorðinna Íslendinga heldur það fólk sem virkilega þarf að léttast til að fyrirbyggja þyngdartengda sjúkdóma.
* Skv. US National Heart, Lung and Blood Institute.
- Við, þau og loftslagsbreytingar - 20. júní 2007
- Veðjað á þakið - 24. mars 2007
- Kosningar í Bangladesh - 27. janúar 2007