Margir virðast hafa áhyggjur af því að útlendingar á Íslandi kunni ekki og vilji ekki læra íslensku. Slíkar ályktanir byggjast oft á fordómum og skilningsleysi í garð þess að íslenska er erfitt tungumál sem Íslendingarnir sjálfir leggja sig ekki allt of mikið fram við að kenna.
Íslenskukennsla er nokkuð sem þarfnast samstarfs. Vissulega er það útlendinganna að læra tungumálið: skrifa óreglulega sögn á framhlið minnisspjalds og beyginguna á bakhliðina, horfa á Gísla Martein og hlusta Spegilinn til að kynnast óbeisluðu afli talmálsins og lesa DV til að byggja upp orðaforðann, hins vegar er ekki hægt að krefjast krefjast þess af nýbúunum að þeir sjálfir taki að sér kennsluna. Það er Íslendinganna að gera það.
Oft kvarta menn sáran undan leti hinna og þessara kvista þegar kemur að því að ná tökum á íslenskunni. „Margir búa hérna í mörg ár án þess að að læra hvorki staf né hljóðung,“ má heyra sagt. Þeger slíkt er sagt gerir fólk sér sjaldnast grein fyrir að til skamms tíma var framboð íslenskunáms vægast sagt grátlegt. Flest kennsluefni var frá dögum zetunnar og var meira stílað inn á málfræðinörda en fólk sem ætlaði að nota tungumálið í daglegu lífi. Íslensku var síðan varla hægt að læra nema í Háskólanum, nánast ekkert var um námskeið og alls ekki fyrir utan Reykjavík.
Sem betur fer hefur nú ýmislegt breyst til batnaðar. Enn er þó enn langt því frá að framboð náms og umgjörð þess séu eitthvað fyrir menn til að verða stolta af. Algjörlega vantar upp á samstarf milli Ríkis, sveitarfélaga og þeirra sem kenna. Það er í raun ótrúlegt hve samhæfingin er lítil miðað við hve fáir það eru sem sjá um þessa þjónustu.
Nýlega var sett í lög að íslenskukunnaátta (eða öllu fremur þátttaka í íslenskunámskeiði) væri forsenda dvalarleyfis. Eftir í mesta lagi sex ár munu allir íbúar ESB, þ.m.t. Pólverjar, geta dvalið hér án verulegra hindrana. Þeir munu ekki þurfa dvalarleyfi og því munu skyldunámið lítið gagn gera. Skylda til íslenskunáms mun þá að öllum líkindum eiga við um 40% allra innflytjenda.
Það er auðvitað jafngagnlegt fyrir alla, Norðmenn, Kanadamenn, Pólverja eða Kínverja að læra tungumál þess ríkis sem þeir vilja búa í. Mun gagnlegra væri því að búa til góðan ramma utan um íslenkunámið og opna það öllum áhugasömum, búa til almennilega námskrá, sérmennta kennara og búa til stöðluð próf sem nemendur gætu tekið nokkru sinnum á ári.
Á vegum Evrópuráðsins hafa verið gefnir út viðmiðunarstaðlar (Common European Framework of Reference for Languages) fyrir stöðupróf í tungumálum. Ramminn gerir ráð fyrir 6 stigum kunnátt: A1-C2. Æ fleiri ríki hafa nú lagað sín stöðluðu tungumálapróf að rammanum. Með því móti fæst góð leið til vita hvað hægt sé að ætlast af viðkomandi. T.d. á aðili með B1 próf að geta notað tungumálið vel sem ferðamaður og tjáð sig um flest málefni sem snúa að daglegu lífi, meðan að C1 á að duga til að stunda háskólanám í öllu nema hugvísindum (þar þarf C2).
Það væri góð hugmynd að koma á slíku íslenskuprófi t.d., á B1 stigi, sem hægt væri að taka tvisvar á ári. Slíkt próf gæti virkað sem hvatning fyrir nemendur og enn fremur búið til aðferð til að bera saman ólíka tungumálaskóla. Það er vonandi að þeir sem hafa einhverju um þetta ráða beiti sér fyrir að slíkum prófum verði komið á í náinni framtíð.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021