Svo virðist sem ný stétt fasteignaheildsala sé að ryðja sér til rúms í íslenska atvinnulífinu. Margir býsnast yfir því að þessir menn nái skjótfengnum gróða við að selja eignir á uppsprengdu verði.
Undirrituðum finnst ekkert því að menn hagnist á að fjárfesta í áhættusömum fjárfestingum. Óneitanlega er fasteignabrask áhættusöm fjárfesting og ekki augljóst að menn komi til með að hagnast. Það er ekki hægt að segja að þessir heildsalar þvingi verðið upp, það eru fjölmargar ástæður fyrir því að verðið hækkar svo hratt sem það gerir og þessir áhættufjárfestar ætla að nýta sér ástandið og ná í skyndigróða. Aðstæður geta þó breyst.
Áður hefur komið upp stétt manna sem nýtti sér óvenjulegt ástand, en það voru verðbréfadrengirnir, sem veðsettu heimili sín, og gíruðu svo allt upp með því að taka lán út á þau verðbréf sem þeir þegar höfðu keypt. Á meðan allt lék í lyndi var einfalt að vera spekingur og api gat fjárfest og grætt á þessum tíma. Nú er ástand markaðarins þannig að menn geta keypt næstum hvaða eign sem er og beðið með hana í smá tíma og grætt.
Í upphafi tíundaáratugs seinustu aldar voru erfið ár á fasteignamarkaði á Íslandi. Þeir sem muna þennan tíma vita að ásett verð lækkaði ekki á þessum tíma en hins vegar voru boðin alltaf 10-15% undir ásettu verði. Sölur fóru oftast fram í keðjum, þar sem ein eign gekk upp í aðra. Fáir þorðu að taka þá áhættu að sitja uppi með tvær eignir í langan tíma vegna þess að eignin seldist ekki. Að sjálfsögðu var mjög margt öðruvísi þá eins og atvinnuástand og ástand á lánamarkaði, slíkt ástand gæti þó komið upp aftur ef katlarnir ofhitna.
Í verðbréfunum var þetta kallað “meira fífls kenningin” eða “moore fool theory”. Hlutirnir virka vel á meðan það er einhver vitlausari tilbúin að kaupa húsin eða lóðirnar á hærra verði en þær voru keyptar á. En komi til þess að menn átti sig eru það þeir sem halda á eignunum þann tíma sem verða “fíflin”, menn hafa þá vonandi grætt nóg til að koma á heildina út í hagnað. Það gerðu ekki allir sem græddu í ákveðinn tíma á meðan á netbólunni stóð en væntanlega var öfundast út í menn með stórgróða á meðan vel gekk.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020