Deiglan Group

sdfdFastlega er búist við því að sú tillaga verði lögð fyrir aðalfund Deiglunnar, sem haldinn verður 11. apríl næstkomandi, að nafni félagsins verði breytt í Deiglan Group.

Deiglan Group er í útrásarham.

Fastlega er búist við því að sú tillaga verði lögð fyrir aðalfund Deiglunnar, sem haldinn verður 11. apríl næstkomandi, að nafni félagsins verði breytt í Deiglan Group. Kunnugir segja að búast megi við átakafundi. Enda eru ekki allir á eitt sáttir um hvort Group-viðskeytið sé lýsandi fyrir þann tilgang félagsins að halda hóp af rekstrareiningum sem hver um sig hefur sitt markmið og getur vaxið og dafnað á eigin forsendum með stuðningi af heildinni. Deiglan er nefnilega doldið opinn félagsskapur og innan raða Deiglufólks má finna ansi kynlega kvisti í bland við tiltölulega eðlilegt og stabílt fólk sem t.a.m. heldur úti vikulegri umfjöllum um tækni og vísindi og mætir alla jafna í vinnu eða skóla fyrir hádegi.

Þannig held ég að það sé mikill misskilningur að lunginn af Deiglupennum eigi sér einhverjar pólitískar ambissjónir og að allt sem þeir segi og skrifi sé úthugsað innlegg í pólitísku plotti.

Velgengni Deiglunnar má sennilega rekja til þess að lesendur ættu að geta fundið samsvörun við skrif einhverra meðlima grúppunnar þó svo að ólíklegt sé að menn geti tekið undir allt það sem hér birtist. Eðli máls samkvæmt eru pistlarnir sem hér birtast ansi misjafnir að gæðum og sumir pistlar (lesist: þessi pistill) eru skrifaðir í svo miklum flýti að höfundar þeirra ættu að skammast sín fyrir að birta aðra eins hrákasmíð.

Hins vegar hefur meginkenning pistlahöfundar um velgengni Deiglunnar ekki hlotið hljómgrunn á meðal Deiglumanna. Að grunni til snýst kenningin um það að langflestum leiðist svo svakalega í vinnunni að þeir leiti allra leiða til að finna sér eitthvað ferskt lesefni — svona þegar þeir eru orðnir leiðir á að spila Minesweeper á vinnutíma.

En það er eiginlega alveg sama hvernig dæminu er snúið; fólk sem eyðir hluta frítíma síns (lesist: vinnutíma) í að skrifa pistla á vefrit hlýtur hlýtur undir öllum kringumstæðum kjósa að skrif þeirra séu í deiglunni.

Góða helgi.

————-

Innskot höf: Rétt í þessu voru að berast fregnir þess efnis að Skífan hafi tekið upp nafnið Dagur Group og hyggi á frekari útrás. Deiglan harmar þessa nafnanotkun enda hafði pistlahöfundur bundið vonir við að Dagur B. Eggertsson myndi taka upp ættarnafnið Dagur Group og flytja af landi brott.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)