Það er ekki oft sem stjórnarandstaðan hittir naglann á höfuðið í umræðum á alþingi, en það kemur þó fyrir. Slík töfrastund átti sér stað í fyrirspurnatíma á Alþingi sl. þriðjudag þegar Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, beindi fyrirspurn til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, um formlega stöðu Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins gagnvart stofnuninni.
Ruku þingmenn stjórnarandstöðunnar upp til handa og fóta og sökuðu þingmann um að nota fyrirspurn til ráðherra í pólitískum tilgangi, þ.e. að með henni væri ætlunin að gera samtökin tortryggileg. Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, varð fyrir því í umræðunni að hitta naglann á höfuðið þegar hann sagði að Sigurður Kári hefði vel getað spurt Margréti Sverrisdóttur sjálfa um málið enda starfaði hún á Alþingi.
Alveg hárrétt hjá Merði. Vafalítið hefði Sigurður Kári getað gert það. Það er heldur alls ekki ósennilegt að fyrir Sigurði Kára hafa vakað draga það fram að Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins eru ekkert annað en pólitískur þrýstihópur. Fyrirspurnin hafði því hvorki þann tilgang að leita svara við einhverju sem þingmaðurinn ekki vissi eða mátti vita né að leita eftir afstöðu ráðherra.
Og þingmenn stjórnarandstöðunnar bitu á agnið. Einn af öðrum komu þeir upp til að lýsa hneykslun á þessari „furðulegu“ og „allsérstæðu“ fyrirspurn – bentu á flísina í auga Sigurðar Kára en sáu ekki bjálkann í sínu eigin. Á undanförnum árum hefur stjórnarandstaðan á þingi gert úr því íþrótt að leggja fram fyrirspurnir á Alþingi. Fæstar þessara fyrirspurna eru settar fram til að leita svara, því svörin liggja annað hvort fyrir eða í augum uppi. Þannig er framlagning fyrirspurna mikil íþrótt hjá sumum þingmönnum Samfylkingarinnar sem eru svo afkastamiklir að engu er líkara en þeir séu sérstaklega styrktir til starfans – þeir séu umfram allt annað atvinnufyrirspyrjendur. Þannig hefur Mörður Árnason lagt fram á fimmta tug fyrirspurna á kjörtímabilinu og er hann einungis meðalmaður á þessu sviði í þingflokki Samfylkingarinnar.
Og varaþingmenn Samfylkingarinnar eru aðalmönnunum engir eftirbátar. Örlygur Hnefill Jónsson settist inn á þing fyrir Samfylkinguna í nokkra daga haustið 2002. Á tveimur dögum, 29. og 30. október 2002, lagði hann fram samtals 14 fyrirspurnir til ráðherra. Telja verður Örlyg Hnefil til „afkastamestu“ þingmanna sem tekið hafa sæti á Alþingi.
En ókrýnd drottning fyrirspurna á Alþingi er auðvitað Jóhanna Sigurðardóttir. Margir furða sig eflaust á því af hverju Jóhanna er alltaf í fréttunum. Af langri reynslu hefur hún lært að fátt er líklegra til að tryggja þingmönnum nokkrar sekúndur í kvöldfréttum eða nokkra dálksentímetra í blöðunum en fyrirspurnir á Alþingi, nema ef vera skyldi utandagskrárumræður. Fyrirspurnir eru fjölmiðlavænar af því að þær krefjast lágmarksvinnu af blaðamanninum. Tökumaður eða ljosmyndari er með í för, tekur myndir af fyrirspyrjanda og ráðherranum. Svar ráðherra er oftast inngangur fréttarinnar og svo kemur: „Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur á Alþingi í dag.“ Síðan er rennt yfir fyrirspurnina, svarið og svo viðbrögð frá Jóhönnu í lokin.
Hvað höfum við séð margar svona fréttir með Jóhönnu Sigurðardóttur. Þótt ekki væri nema brot af fyrirspurnum hennar sem ratar í fréttar, hleypur fjöldi fréttanna á tugum. Frá því í október 2003 hefur Jóhanna Sigurðdóttir lagt fram samtals 107 fyrirspurnir á Alþingi. Það heggur nærri fjórum fyrirspurnum á hverri viku sem þing hefur setið frá síðustu kosningum.
Ekki er ótrúlegt að sex heilir vinnudagar fari að meðaltali í að svara hverri fyrirspurn. Það þýðir að ríkið þarf í raun að hafa tvo deildarsérfræðinga á fullum launum allan ársins hring við það eitt að undirbúa svör við fyrirspurnum frá Jóhönnu Sigurðardóttur. Ef aðrir þingmenn væru eins öflugir, gerðu eitthundrað ríkisstarfsmenn ekkert annað en að undirbúa svör við fyrirspurnum þingmanna (þess má geta að heildarfjöldi starfsmanna ráðuneytanna er innan við fimmhundruð). Ef við gefum okkur að árslaun hvers og eins þessara deildarsérfræðinga séu að meðaltali 5 milljónir, þá færi hálfur milljarður af skattfé almennings í beinan launakostnað við að svara þessum fyrirspurnum, og þá er ótalinn annar kostnaður. En sem betur fer komast aðrir þingmenn ekki með tærnar þar sem Jóhanna hefur hælana.
Annars er það skemmtileg tilviljun að Mörður Árnason skyldi vera einn af þeim sem gagnrýndu fyrirspurn Sigurðar Kára. Á síðasta vorþingi lagði Mörður fram fyrirspurn til þáverandi forsætisráðherra Davíðs Oddssonar um kostnað við gerð skýrslna samkvæmt beiðni þingmanna. Fram kom í skriflegu svari forsætisráðherra að dýrasta skýrsla sem þingmaður hefði óskað eftir væri skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands (167. mál á 130. löggjafarþingi), en áætlaður kostnaður við hana var 22 milljónir króna. Sá þingmaður sem bað um skýrsluna var enginn annar en fyrirspyrjandi sjálfur, Mörður Árnason.
Þær eru því ekki ókeypis sekúndurnar og dálksentímetrarnir sem þingmenn eru oftar en ekki leita eftir með fyrirspurnum sínum og beiðnum um þessar og hinar skýrslur. Sú umfjöllun er dýru verði keypt af skattgreiðendum. Oftar en ekki er þó verið að leita að upplýsingum sem eru að fullu aðgengilegar hjá viðkomandi stofnunum eða afar auðvelt væri fyrir þingmenn að verða sér úti um þær. En það dugar ekki til að komast í fréttirnar ef þingmaður hringir í fjölmiðil með einhverjar upplýsingar sjálfur. Það verður að vera myndamóment, tilvitnun í svar ráðherra og svo komment frá fyrirspyrjanda. Annað er ekki hægt að bjóða upp á sem frétt. Fyrirspurnir á Alþingi eru fullkomnar fyrir 20 sekúndna sjónvarpsfrétt eða 10 dálksentímetra frétt í Mogganum eða Fréttablaðinu.
Vissulega ber Alþingi að sinna eftirlitsskyldu sinni og það er jafnframt í þágu þingræðisins að framkvæmdavaldið veiti löggjafanum þær upplýsingar sem hann óskar eftir. En því miður er með þessar heimildir Alþingis eins og svo margt jákvætt og gott, að til eru þeir sem kunna ekki með þær að fara og draga þannig úr gildi þeirra.
Viðbrögð stjórnarandstöðunnar við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar til menntamálaráðherra um formlega stöðu Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins eru vonandi vísbending um að þingmenn þar á bæ séu vakna til vitundar um hvers konar misnotkun það er á aðstöðu þingmanna að leggja fram endalausar fyrirspurnir til ráðherra í þeim tilgangi einum að fanga athygli fjölmiðla. Gera verður þá kröfu til þingmanna að þeir taki hlutverk sitt og umboð alvarlegra en svo að þeir leyfi sér slíkt.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021