Hótel jörð

Í tækni og vísindapistli dagsins er sjónarhorninu beint að landafræði jarðarinnar. Við munum skoða stærstu löndin, þau fjölmennustu, smæstu ríkin, ríkustu þjóðirnar, algengustu tungumálin og sitt hvað fleira.

Komiði sæl,

í tækni og vísindapistli dagsins er sjónarhorninu beint að landafræði jarðarinnar. Við munum skoða stærstu löndin, þau fjölmennustu, smæstu ríkin, ríkustu þjóðirnar, algengustu tungumálin og sitt hvað fleira.

Heildaryfirborðsflatarmál jarðkringlunnar er um 510 milljónir ferkílómetrar, þar af er land um 29,2% og vatn 70,8 %. Alls eru 271 þjóð og sjálfstæð landsvæði, t.a.m. óbyggðar eyjar, á jörðinni og deila þau með sér landamærum sem eru samtals 250.472 km. Rússland og Kína eiga landamæri að fleiri ríkjum en önnur lönd, eða 14 hvort. 43 lönd eiga hvergi landamæri að sjó og 98 lönd eru eyjur. Heildarstrandlengja landa á jörðinni telur 356 þúsund kílómetra.

Á jörðinni okkar býr tæplega hálfur sjöundi milljarður manna og fjölgar Íbúum um liðlega 200.000 á dag. Af heimsálfunum sjö búa langflestir í Asíu en langfæstir á Suðurskautslandinu. Tíu fjölmennustu þjóðir heims eru:

1. Kína (1.306)

2. Indland (1.080)

3. Bandaríkin (296)

4. Indónesía (242)

5. Brasilía (186)

6. Pakistan (162)

7. Bangladesh (144)

8. Rússland (143)

9. Nígería (129)

10. Japan (127)

Innan sviga er áætlaður íbúafjöldi landanna í milljónum. Rússland og Bangladesh annars vegar og Nígería og Japan hins vegar hafa skipt um sæti milli áranna 2004 og 2005 (áætlun júlí hvort ár).

Meðallífslíkur við fæðingu eru 64,05 ár og geta meybörn vænst þess að lifa að jafnaði 1175 dögum lengur en sveinbörn. 77% af íbúum jarðarinnar, 15 ára og eldri, eru læsir – 83% karla en einungis 71% kvenna. Flestir íbúanna eru kristinnar trúar (32,71%) en þar á eftir koma múslimar (19,67%), hindúar (13,28%) og búddistar (5,84%). Áætlað er að 12,43% íbúa séu óháðir trúarbrögðum (e. non-religious) og 2,41% séu trúlausir með öllu (atheistar). Sem fyrsta tungumál tala flestir jarðarbúar kínversku eða Mandarín. Annars eru tíu algengustu tungumálin sem hér segir:

1. Mandarín (14,37%)

2. Hindí (6,02%)

3. Enska (5,61%)

4. Spænska (5,59%)

5. Bengali, Bangladesh (3,4%)

6. Rússneska (2,75%)

7. Portúgalska (2,63%)

8. Japanska (2,06%)

9. Þýska (1,64%)

10. Kóreska (1,28%)

Innan sviga er hlutfall jarðarbúa sem talar tungumálið sem fyrsta mál. Til samanburðar tala um það bil 0,0047% jarðarbúa íslensku.

Flestir hafa lært að Rússland er langvíðfeðmasta ríki jarðar og er landið það eina sem nær yfir meira en 10% af landsvæði jarðarinnar. Tíu stærstu löndin eru:

1. Rússland (17,08)

2. Kanada (9,96)

3. Bandaríkin (9,63)

4. Kína (9,58)

5. Brasilía (8,51)

6. Ástralía (7,69)

7. Indland (3,29)

8. Argentína (2,77)

9. Kasakstan (2,72)

10. Súdan (2,51)

Innan sviga er stærð þeirra í milljónum ferkílómetra. Til samanburðar er Ísland um 0,103 milljónir ferkílómetra.

Tíu minnstu löndin eru af allt annarri stærðargráðu. Samkvæmt The World Factbook, vef CIA, er minnsta landið eða sjálfstæða landsvæðið ekki Vatíkanið eins og flestir myndu telja heldur Bassas de India. Sundlaug Indlandshafsins, eins og eflaust mætti þýða þetta nafn, er pínulítill klettur, eða eldfjall, umlukinn kóralrifjum sem hverfur á háflóði. Þar sem ekki nokkur maður býr þarna, eðli málsins samkæmt, og að staðurinn er í raun í eigu Frakka, er afar hæpið að telja hann með smæstu löndum heims. Listinn yfir minnstu löndin lítur því svona út:

1. Vatíkanið (0,44)

2. Mónakó (1,95)

3. Nauru (21)

4. Tuvalu (26)

5. San Marínó (61,2)

6. Liechtenstein (160)

7. Sant Kitts and Nevis (261)

8. Maldív eyjar (300)

9. Malta (316)

10. Sant Vincent og Grenadines (389)

Innan sviga er stærð þeirra í ferkílómetrum. Eins og með Sundlaug Indlandshafsins er öðrum sjálfstæðum landsvæðum, þar sem enginn býr og eru ekki sjálfstæð ríki sem slík, sleppt.

Meðalkaupgeta, eða verg þjóðarframleiðsla ríkja heims á hvern jarðarbúa var $8.200 Bandaríkjadalir árið 2003. Er þar um að ræða útreiknaðan kaupmátt á svo kölluðum PPP grunni (e. Purchasing Power Parity) og er þar tekið tillit til kostnaðar lífsnauðsynjavara á hverjum stað. Lúxembúrg er langríkasta landið en þjóðarframleiðsla þar á íbúa var 45% hærri en í því næstríkasta. Annars eru tíu ríkustu lönd heims, mælt í þjóðarframleiðslu á íbúa, sem hér segir:

1. Lúxembúrg ($55.100)

2. Noregur ($37.800)

3. Bandaríkin ($37.800)

4. Bermuda ($36.000)

5. Cayman eyjar ($35.000)

6. San Marínó ($34.600)

7. Sviss ($32.700)

8. Danmörk ($31.100)

9. Ísland ($30.900)

10. Austurríki ($30.000)

Ef ekki væri stuðst við áðurnefndan PPP staðal væri þjóðarframleiðsla Íslendinga miðað við núverandi gengi dollarans farin að nálgast $50.000. Lúxembúrg, Bermuda, Cayman eyjar og Sviss leggja öll mikla áherslu á frelsi í fjármála- og bankastarfsemi. Það er því ljóst að gott lagaumhverfi og frelsi á fjármagnsmarkaði getur fleytt þjóðum langt.

Gæðum heimsins er misskipt og ekki eru það ný sannindi. Í tuttugu fátækustu ríkjum heims er þjóðarframleiðsla á íbúa minni en $800 á ári. Í þeim þremur fátækustu, Austur-Tímor, Sómalíu og Sierra Leóne er hún einungis um $500 á ári.

Í stuttu máli þá er jörðin okkar svona. Þetta eru stærstu, smæstu, fjölmennustu, fátækustu og ríkustu herbergin á Hótel jörð. Þá er ekki meira í pistlinum að þessu sinni.

Veriði sæl!

Heimildir: