Viðvörunarbjöllur eru farnar að hringja í Bandaríkjunum vegna ríkisstjórnar Hugo Chavez, forseta Venesúela. Í síðustu viku lýstu hann og Fidel Castro – bandamaður hans og félagi – því yfir að Bandaríkjastjórn hygðist koma honum fyrir kattarnef.
Chavez var kjörinn forseti árið 1998 með loforðum um að stöðva spillingu í landinu og auka velferð fátæka meirihlutans. Sex árum síðar virðist lítið hafa breyst í þeim málum. Hinir fátæku eru jafn fátækir og milli- og yfirstéttinn á minna en áður. Pólitískir stuðningsmenn Chavez virðast vera þeir einu sem eru betur settir undir hans völdum.
Þegar Chavez komst til valda gat forsetinn aðeins verið kjörinn til fimm ára. Fyrir tilstuðlan Chavez var stjórnarskránni breytt árið 2000 á þann veg að kjörtímabilið er nú 6 ár og hægt er að sitja tvö kjörtímabil í röð. Sama ár var Chavez endurkjörinn til næstu sex ára. Stjórnarandstaðan kallaði eftir endurkosningu, sem fékkst loksins í gegn á síðasta ári. Í ágúst 2004 fóru fram kosningar sem Chavez vann samkvæmt opinberum tölum, en að áliti margra voru þær niðurstöður falsaðar.
Bandaríkin hafa talsverðar áhyggjur af þróun mála í Venesúela þessa dagana. Persónulegt og pólitískt samband Chavez við Fidel Castró og Kúbu stendur eðlilega í Bandaríkjamönnum. Þá hefur Chavez hafið gríðarlega enduruppbyggingu hersins og kaup á vopnum til að verjast gegn fræðilegri innrás Bandaríkjanna. Stuðningur Chavez við vinstrisinnaða skæruliða í Kólombíu veldur einnig áhyggjum. Undirrót kvíða Bandaríkjanna má þó sennilega að mestu leyti rekja til olíu. Venesúela situr á einum stærstu olíulindum heimsins fyrir utan Mið-Austurlönd. Bandaríkin hafa um langt skeið verið helsti markaðurinn fyrir olíuna. Chavez hyggst breyta þeirri aðstöðu og hefur hafið samningaviðræður við Rússland, Brasilíu, Íran og Kína.
Þetta er þó ekki það eina sem vert er að hafa áhyggjur af. Einræðistilburðir Chavez hafa eflst mjög að undanförnu. Á síðasta ári tryggði hann völd sín yfir hæstarétti og yfirvaldi kosninga- og kjörmála (sem er sérstök grein ríkisivaldsins “electoral authority”). Hæstaréttardómurum var með lagabreytingu fjölgað úr 20 í 32 og nýir dómarar skipaðir sem voru hliðhollir forsetanum. Á umdeildan hátt var yfirvald kosninga- og kjörmála endurskipað og er núna skipað 4 mönnum hliðhollum forsetanum og einum á móti. Forsetinn hefur einnig hert lög á fjölmiðlum og skipað þeim að ritskoða efni sitt að viðurlögðum háum sektum. Ákvæði laganna þykja óljós en afleiðingarnar eru skýrar – fjölmiðlar veigra sér í auknum mæli við að gagnrýna forsetann og ríkisstjórn hans. Stjórnarandstaðan er sundruð og veik og margir hafa litla trú á því að lýðræðislegar kosningar munu fara fram í Venesúela á næstunni.
Einræðistilburðir forsetans valda heimamönnum almennt meiri áhyggjum en vaxandi spenna í samskiptum við Bandaríkin.
Kjörtímabil forsetans rennur út á næsta ári. Eins og staðan er í dag virðist fátt koma í veg fyrir að þá hefjist annar kafli í vinstribyltingu Hugo Chavez.
Heimildir: The Economist og BBC.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020