Það hefur lengi þótt sjálfsögð grundvallarregla að lög, sem gilda skulu hér á landi, séu birt á íslensku. Birting laga er mikið grundvallaratriði í réttarríki, enda verða menn að vita hvaða reglur gilda svo þeir geti farið eftir þeim. Nú lítur hins vegar út fyrir að birting á öðrum tungumálum verði í sumum tilvikum látin nægja ef frumvarp til laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað, sem liggur fyrir Alþingi, verður að lögum. Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að birta eingöngu erlendan frumtexta milliríkjasamnings ef samningurinn varðar afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji hið erlenda mál vegna menntunar sinnar eða annarrar sérhæfingar.
Íslendingar hafa eytt miklu púðri í vernda íslenskuna. Við erum fámenn þjóð og tungumálið er eitt okkar helsta sérkenni. Málverndarstefnan er eingöngu af hinu góða. Við fyrstu sýn gæti maður ætlað að breytingar af þessu tagi væru því skref í öfuga átt og varaði formaður íslenskrar málnefndar við breytingunni í frétt á Stöð 2 um helgina.
Allt frá gildistöku EES-samningsins á síðasta áratug hefur ógrynni reglna flætt yfir þjóðina. Margar hverjar eru þær mjög sérhæfðar og varða aðeins afar fámennan hóp manna. Sem dæmi má nefna ýmsar flugreglur og aðra staðla. Ætla má að flestir þeirra, sem hafa með þessar reglur að gera, hafi vegna menntunar sinnar kunnáttu í því tungumáli sem frumtextinn er á. Það kann því að virka fremur óeðlilegt að tíma og fjármunum sé eytt í þýðingu á reglum, sem viðkomandi aðilar lesa hvort er á frummálinu. ,,Það er dýrt að vera fámenn þjóð,” sagði formaður íslenskrar málnefndar. Vissulega er það svo. En íslensk þýðing hefur oft lítið að segja í þessum tilvikum. Nýyrði yfir hin ýmsu sérfræðiheiti, sem menn hafa ekki tileinkað sér að nota, gera þýðingarnar jafnvel óþjálar og menn grípa því til frumtextans í staðinn.
Formaður íslenskrar málnefndar taldi að ef einn hópur, þótt fámennur væri, fengi undanþágu fylgdu ávallt fleiri í kjölfarið. Erfitt yrði að draga mörkin. Hann sagði það einnig áhyggjuefni, hér á landi sem víðar, að ýmis fræðisvið væru að hverfa úr málinu. Bæði eru þetta góð og gild rök og má sérstaklega taka undir með hinum fyrri. Erfitt verður að draga mörkin hvenær á að þýða og hvenær ekki. Helsta vísbendingin sem gefin er í frumvarpinu er að beita þurfi heimildinni með varfærni og sérstaklega ef um er að ræða refsireglur eða aðrar íþyngjandi reglur. Hvað hin síðari varðar má spyrja hvort mörg sérfræðisviða hafi nokkru sinni verið til í íslensku máli? Ýmis tækniorð hafa verið notuð frá upphafi á erlendum málum, menn hafa ekki vanist að nota íslensk nýyrði og hugtakanotkunin er stundum á reiki Stór hluti lesefnis í háskólum landsins er á erlendum tungumálum, aðallega ensku, því íslensk fræðirit eru stundum ekki fyrir hendi. Í mörgum fögum fer kennslan jafnvel fram á ensku. Það þarf ekki að vera svo slæmt. Enskan hefur einfaldlega tekið við af latínunni sem menntamál.
Ef heimild sem þessari er beitt af mikilli varfærni er ekkert því til fyrirstöðu að hafa hana í lögum. Tíma og fjármunum, sem lengi hefur verið eytt í oft á tíðum tilgangslausar þýðingar, er hægt að eyða á betri hátt. Það eru til margar aðrar leiðir til að rækta og hlúa að íslenskunni en þýðingar á stöðlum sem fimmtán manns eiga eftir að lesa.
- Árleg mannekla - 18. september 2007
- Lítilla breytinga að vænta - 5. maí 2007
- Jarðgangagerð, opinber störf og niðurgreiðslur - 17. mars 2007