Hvað er það sem veldur krabbameini, hjartaáfalli og sáðláti en kemur í veg fyrir æxlismyndun, kransæðastíflu og dregur úr frjósemi? Ef það er ekki vín, kaffi eða kál þá er það kannski lélegur fréttaflutningur ef marka má nýlegar rannsóknir erlendra vísindamanna.
Nær undantekningarlaust eru þær rannsóknir sem sagt er frá í fjölmiðum óáhugaverðar í vísindalegum skilningi. Yfirleitt er sagt frá einhverju bulli sem einhverjum hefur dottið í hug og gert einhverja óvandaða könnun með það fyrir augum að sýna fram á að ranghugmyndir sínar séu réttar. Þessar rannsóknir sem ekki fást birtar í vönduðum ritrýndum tímaritum virðast hins vegar eiga greiða leið til almennings í gegnum gagnrýnislausa fjölmiðla sem keppast um að birta þær sé niðurstaðan bara nógu fjarstæðukennd.
Í Fréttablaðinu í gær er til dæmis sagt frá því að blýmengun geri börn að glæpamönnun. Ástæðan er sú að í bandarískri rannsókn er því haldið fram að jafnvel lítið magn af blýi geri börn árásargjörn og valdi hegðunarvandamálum. Ályktunin sem er síðan dregin af þessu öllu saman er að glæpum muni fækka í Bandaríkjunum ef dregið verði úr blýmengun þar í landi. Rannsóknir sem þessi einkennast af óvönduðum vinnubrögðum, hæpnum forsendum og skorti á röksemdum til rökstuðnings niðurstöðunni.
Á sama tíma og rannsóknir sem þessar eru gagnrýndar er rétt að gagnrýna óvandaða umfjöllun fjölmiðla um vísindalegt efni sem virðist almennt lakari en umfjöllun um annað efni. Oft er ekki haft fyrir því að birta sjálfsagðar upplýsingar til að gera lesandanum kleift að leggja sjálfstætt mat á áreiðanleika rannsóknarinnar svo sem að vísa til heimilda, geta stærðar úrtaks eða hvar og hvernig rannsóknin var framkvæmd. Yfirleitt er „Í nýlegri rannsókn kom í ljós…“ látið nægja svo taldar upp einhverjar niðurstöður og ályktanir dregnar án þess að velta vöngum yfir því hvort þær fást staðist.
Bæði Fréttablaðið og Morgunblaðið greina í gær frá rannsókn á vegan mataræði (þeir sem eru vegan eru grænmetisætur sem ekki borða neinar dýraafurðir). Það að bæði blöðin fjalli um sömu rannsóknina væri ekki frásögur færandi nema fyrir þær sakir að nálgun blaðanna að viðfangsefninu er ólík og er niðurstaðan lögð fram á talsvert mismunandi hátt ásamt því að þær ólíku ályktanir sem dregnar eru af niðurstöðunni eru nokkuð dæmigerðar fyrir umfjöllun af þessu tagi.
Í Fréttablaðinu er því haldið fram að vegan mataræði sé skaðlegt ungum börnum og að þau börn sem fái einungis slíka fæðu séu smávaxnari en önnur börn og verði seinþroska. Úrtakið í rannsókninni voru 544 kenisk börn sem var skipt upp í þrjá hópa í tvö ár. Undirstaða mataræðisins var aðeins korn og baunamatur, en þar að auki fengu börnin í einum hópnum tvær skeiðar af kjöti á dag, í öðrum hópnum mjólkurglas og börnin í síðasta hópnum fengu ekkert aukalega. Fram kemur að rannsóknin var gerð í fátæku samfélagi í Afríku en forsvarsmenn hennar töldu samt sem áður að þessi niðurstaða þeirra hefði beina þýðingu fyrir Vesturlandabúa.
Í Morgunblaðinu segir hins vegar að helsta niðurstaðan sé sú að starfsmaður Landbúnaðarrannsóknarstofnunar Bandaríkjanna segi það siðlaust að meina börnum að neyta allra dýraafurða. Niðurstaða þessi er rökstudd þar með samanburði á þroska vannærðra barna sem annars vegar fengu staðbundið jurtafæði og hins vegar þeirra vannærðu barna sem fengu auk hins staðbundna jurtafæðis lítið magn af kjötmeti, mjólk og olíu. Og hvern skyldi undra að úr hópi þessarra vannærðu barna vegnaði þeim best sem fengu mestan matinn!
Ekki aðeins er hér dæmi um tvær mismunandi túlkanir á sömu rannsókn og lélegar ályktanir dregnar og aðstæður heimfærðar upp á ólíka hópa heldur er siðferði einnig blandað inn í málið.
Það er ekki bara slæmt að svona rannsóknir séu birtar ranghugmyndanna vegna heldur leiðir það til óskynsamlegrar hegðunar fólks sem hefur engar forsendur til annars en að trúa þessu rugli. Hver kannast ekki við að ákveða að hætta að drekka rauðvín eða kaffi því þessir drykkir dragi úr hinu og þessu en skömmu síðar byrja síðan aftur að drekka því þessi drykkja styrki jú hjartað og örvi blóðflæðið! Menn eru eflaust betur settir með sínar eigin ranghugmyndir en að reyna að fylgja ranghugmyndum annarra.
Hvort sem við viljum drekka að minnsta kosti fjóra kaffibolla á dag og reyna að borða ekki meira en eitt baðker af rauðum M&M á dag er á endanum mikilvægt að trúa ekki öllu sem er birt og muna að allt er best í hófi.
- Einkaframtakið er umhverfisvænna - 10. maí 2007
- Framlagið þitt - 6. desember 2005
- Skotnar snyrtivörur - 6. október 2005