Það kann að vera að pistlahöfundur skipi sér með skrifum sínum í fylkingu með „vantrúaða úrtölumanninum“, sem „getur verið eins og bilaða klukkan sem er stopp. Haft rétt fyrir sér eingöngu tvisvar á sólarhring“, eins og Björgólfur Thor Björgólfsson hafði á orði á nýafstöðnu viðskiptaþingi Verslunarráðs. Það verður þá svo að vera. Því undirritaður getur ekki tekið undir með öllu því sem Björgólfur sagði þar.
Vissulega benti Björgólfur á ýmislegt sem betur mætti fara í þankagangi landans, sagði til dæmis að rétt sé að hætta að staglast á orðinu „útrás“, því að það sem menn kalla útrás eigi að vera einföld meginregla þegar menn stofna fyrirtæki, það er að líta á heiminn sem markað sinn. Hann ræddi líka um kjölfestufjárfesta og gagnsemi þeirra, og hafði þar án efa ýmislegs til síns máls.
En orðið „kjölfestufjárfestir“ er einmitt mikið í tísku á Íslandi í dag, rétt eins og orðið „útrás“ og orðatiltækið „dreifð eignaraðild“. Björgólfur virðist ekki hafa mikið meiri trú á dreifðri eignaraðild heldur en útrás. Hann er á þeirri skoðun að kjölfestufjárfestar veiti stjórnendum aðhald og vissulega er það rétt. En kjölfestufjárfestar geta líka hæglega freistast til að beita fyrirtækjum sínum fyrir sig, í sumum tilfellum þvert á hagsmuni smærri hluthafa. Þetta er reyndar ekki líklegt ef kjölfestufjárfestirinn á aðeins í einu fyrirtæki. En ef hann rekur margar fjárfestingar getur verið freistandi að nýta fyrirtækið til að búa til valdablokkir í samvinnu við önnur fyrirtæki þar sem kjölfestufjárfestirinn ræður ríkjum, hugsanlega þvert á hagsmuni smærri hluthafa.
Vissulega er sú hætta einnig fyrir hendi að stjórnendur fyrirtækja í dreifðri eignaraðild standi í slíku makki. Það liggur þó í hlutarins eðli að litlir hluthafar fyrirtækis í dreifðri eignaraðild eru í skárri aðstöðu til að bola stjórnendum þess frá heldur en stórum kjölfestufjárfesti.
Trú Björgólfs á sterkum kjölfestufjárfestum verður hálfu varhugaverðari þegar henni er blandað saman við málflutning gegn reglum og eftirliti. Þótt Björgólfur viti vissulega hvað hann syngur er erfitt að verjast þeirri hugsun að hann sé einfaldlega litaður af eigin stöðu og vilji gjarna fá að fríspila eins og hann vill.
Rök hans, um að yfirtökur og afskráningar fyrirtækja á síðustu árum séu afleiðing af þeim reglum sem settar hafa verið um skráð fyrirtæki hér á landi, eru ekki mjög trúverðug. Pistlahöfundur var lítill hluthafi í Baugi þegar félagið var afskráð og er sannfærður um að þessu er þveröfugt farið. Ein af ástæðum þess að hægt var að afskrá Baug var sú að litlar reglur voru í gildi sem vernduðu litla hluthafa við yfirtökur. Fyrir vikið gátu kjölfestufjárfestarnir gengið frá yfirtökunni einhvers staðar í reykfylltu herbergi og tilkynnt svo um yfirtökutilboðið án þess að litlir fjárfestar fengju nokkurn skerf í yfirtökurentunni. Yfirtökuverðið var svo án nokkurs álags á það gengi sem hafði verið á bréfunum. Engu að síður seldu allir, því menn vissu að það er súrt að vera lítill hluthafi í óskráðu félagi á Íslandi. Yfirtaka sem þessi hefði aldrei getað átt sér stað í Bretlandi, þar sem Baugsmenn eru vanir því að borga tugi prósenta í álag á verð bréfa við yfirtökur.
Það er alltaf gott þegar menn sem hafa notið velgengni eru tilbúnir til að gefa góð ráð – og Björgólfur hefur notið meiri velgengni en flestir. En örlítill fyrirvari skaðar sjaldan.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020