Á undanförnu hefur verið mikið í umræðunni umdeild tillaga skipulagsnefndar Reykjavíkur um niðurrif 25 húsa við Laugarveg. Í gær var reyndar dregið í land og húsunum fækkað niður í 15. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að byggja upp ákjósanlegt verslunarhúsnæði í stað gömlu húsanna sem nýtast illa til verslunarreksturs, en einnig til þess að bæta ímynd og ytra útlit götunar. Ekki þarf að rífa allar byggingarnar þar sem hægt er að flytja sumar á nýjan stað.
Samkvæmt deiliskipulaginu má reisa um 60.000 m² nýbygginga, þar af 30.000 m² verslunarrými. Núverandi byggingarmagn er um 190.000 m², þar af 27.000 m² verslunarhúsnæði. Mögulegt heildarniðurrif húsa samkvæmt deiliskipulagsáætlunum er um 13.000 m².
Margir þeir sem gagnrýna þessa grisjun eru þó alveg sammála því að bæta verði Laugarveginn sem verslunar og þjónustu götu. En það verður ekki bæði haldið og sleppt í þessum efnum. Mörg þessara húsa eiga sér merka sögu vegna þess fólks sem búið hefur í þeim, en þau geta þrátt fyrir það verið byggð af vanefnum og ofan á allt forljót. Saga fólksins er skráð en húsið má fara. Yfirvöld í Reykjavík eiga að blása á sjónarmið ofverndunarsinna sem telja fegurð og tígurleika aðeins felast í aldrinum einum saman, því auðvitað skipta aðrir þættir máli.
Vissulega er nauðsynlegt að varðveita menningarsögulegt gildi bygginga í Reykjavík og hefur slíkt verið gert með góðum hætti t.d. í Grjótaþorpinu og á fleiri stöðum. En við getum ekki haft alla miðborgina undir. Reykjavík þarf að vaxa og dafna eins og aðrar borgir og þá ekki aðeins í úthverfum, heldur þarf miðbærinn að fá að þroskast. Það er þá ekkert verið að tala um niðurrif allra eldri bygginga, heldur að tvinna saman fortíð og framtíð á skemmtilegan hátt. Í þessu sambandi má benda á nauðsyn þess að útlit nýrra húsa sé í samræmi við þau eldri svo að borgarbúar þurfi ekki að súpa seyðið af misvitrum lausnum og smekkleysu í hönnun.
Það er ljóst að eitthvað verður að gerast svo að verslun fái þrifist á Laugarveginum. Stór verslunarrými standa auð mánuðum saman sem hefur slæm áhrif á aðrar verslanir í kring og skapar þannig hringrás hnignunar sem leiðir til þess að gamalgrónar verslanir flýja inn í verslunarmiðstöðvar. Til að mynda verslunin Drangey sem hóf rekstur á Grettisgötu 1934 og flutti síðan á Laugarveg 58 árið 1941. Þar var verslunin til húsa allt fram til vorsins 2004 er hún flutti eftir 70 ár í miðbænum, enda sá eigandinn sig knúinn til þess að elta viðskiptavini sína. Verslunin Drangey er nú í Smáralind.
Miðbæir borga þurfa að vera í stöðugri endurskoðun og eðlilegri þróun til að halda aðdráttarafli sínu í samræmi við kröfur samtímans hverju sinni. Jafnvægi þarf að ríkja milli verndunar og uppbyggingar á sögulegum svæðum, þannig að byggt sé í sátt við söguna og horft til framtíðar.
- Millivegur - 23. apríl 2021
- Þak yfir höfuðið - 16. janúar 2021
- Góðærisvandamál? - 24. mars 2007