„Ó, þarf maður að vera í buxum? — alltaf má maður ekki neitt!“
|
Talandi um slæmar tímasetningar. Þingmenn Frjálslynda flokksins hljóta að hafa nagað sig í handabökin þegar þingsályktunartillaga þeirra um klæðaburð þingmanna komst í hámæli á sjálfan Öskudaginn. Tillaga þeirra er sannanlega aðkallandi enda eru vinnuaðstæður Alþingismanna hræðilegar. Starfið er óþægileg innivinna og drepleiðinlegir sessunautar úr öðrum flokkum gera fátt nema auka á eymdina. Sem var næg fyrir. Ekki nóg með það heldur þurfa þingmenn að hlunkast til að halda utan um upplýsingar um álagsgreiðslur, húsnæðis- og dvalarkostnað, ferðakostnað í kjördæmi, fundarferðir, ferðir milli heimilis og kjördæmis, dagpeninga, ferðakostnað erlendis, síma- og póstkostnað, starfskostnað, tryggingar og endurgreiðslu kostnaðar samkvæmt reikningum fyrir ríflega 100 vinnudaga ársins — og þetta verða þeir allt saman að gera með bindi um hálsinn!
Já, kæru lesendur — líf Alþingismannsins er sko ekki dans á rósum.
Hugmynd Frjálsynda flokksins er í raun og veru tvíþætt; annars vegar miðar hún að því að þingmönnum verði ekki lengur gert skylt að mæta í skyrtu, jakka og með hálstau og hins vegar að slakað verði á formkröfum sem gerðar eru til tungutaks þingmanna.
Hagræðið af tillögunni er augljóst. Í stað steingeldrar málsgreinar eins og:
„Ég vísa fullyrðingum hæstvirts 9. þingmanns Norðausturkjördæmis til föðurhúsanna…“
Mættu þingmenn segja beinum orðum:
„Ég vísa fullyrðingum þessa þybbna þarna í marengetertulitaða anórakknum til föðurhúsanna…“
Hvernig sem menn stilla dæminu upp þá er Alþingi bara ekkert sérstaklega speisaður vinnustaður. En öllu má samt ofgera. Regluverk um klæðaburð og málfar þingmanna er kannski barn síns tíma — en hins vegar getur verið erfitt að draga mörkin, því það verður ekki bæði haldið og sleppt í þessum efnum:
Ef slakað verður á reglunum má þá mæta í kvartermaskyrtu? Batman-skyrtu? Hversu mörgum tölum má hneppa niður? Verða þingmenn að mæta í buxum? Má vera með skikkju á herðunum ef maður er með þverslaufu?
Álitmálin eru nefnilega mörg og ærin og rík ástæða til að setja málið í nefnd.
Það stendur nefnilega skrifað að jakki sé ekki frakki nema síður sé — og hafa þau orð sjaldan átt betur við en í þessari viku. En hvað sem öðru líður vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort Björn Bjarnason sæti færis og mæti loksins í nýpressaðri hermannamúnderingu í vinnuna.
Þá fyrst væri björninn unninn.
Góða helgi.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007