Mér er til efs að nokkurs staðar í heiminum sé að finna meira áreiti vegna ágengra markaðsafla heldur en hér í Bandaríkjunum. Hvar sem maður kemur, hvert sem maður fer, hvernig sem maður snýr sér, hvaða útvarpsrás sem maður stillir á, hvað sjónvarpsrás sem maður stillir á – alls staðar er ákefðin og áreitið svo mikið og sterkt að maður neyðist til að stilla á kántrý stöðina til að fá frið. Það að búa hérna kennir manni t.d. að meta betur hversu gott er að horfa á íslenskt sjónvarp sem að mestu leyti er ótruflað af auglýsingum inni í miðjum dagskrárliðum. Vissulega hafa einhverjar stöðvar tekið upp á því að rjúfa efni með auglýsingum, en það er sem betur fer í mun minna mæli en tíðkast hérna.
Þegar ég reyni að horfa á sjónvarp í Bandaríkjunum þarf ég að hafa þrjár til fjórar rásir tiltækar með efni sem ég get hugsað mér að horfa á. Þessu efni forgangsraða ég svo, þ.a. ef auglýsingar rjúfa aðalþáttinn, þá get ég skipt yfir á þann næsta í forgangsröðinni til að stytta mér stundir fram að lokum auglýsingarhlésins. En þetta gerir það auðvitað að verkum að ég nenni afar sjaldan setjast fyrir framan sjónvarpið til þess að horfa á eitthvað sérstakt efni frá upphafi til enda. Annað hvort það eða þá að þegar maður sest niður til horfa á eitthvað, þá endar maður með að sjá fullt af brotum úr þáttum og myndum. En það er til marks um hversu vel skipulagðir auglýsingatímarnir eru í sjónvarpinu hérna, að ég hef lent í því að þrjár stöðvar sem ég var að flakka á milli samkvæmt áðurnefndu plani voru allar í auglýsingum.
Öll uppbygging sjónvarpsefnisins og hvernig það er sýnt miðar að því að þóknast auglýsendum og þar með hámarka tekjumöguleika stöðvanna. Þannig byrja þættir sem eru á heila tímanum strax á eftir þeim sem á undan fer án nokkurs hlés og svo eftir inngangsatriðið (sem ætlað er að fanga áhorfendann) koma auglýsingar. Með þessu er reynt að halda áhorfendanum við sjónvarpstækið með því að gera skilin milli þátta óskýrari og fá áhorfendann til að bíta á næsta öngul.
En það eru ekki bara sjónvarpsauglýsingar sem vaða yfir allt hérna. Símasölumenn og póstsendingar eru alveg í óþolandi miklu magni hérna. Iðulega þegar ég kem heim í lok dags er fjöldi símtala á númerabirtinum mínum sem tengjast einhvers konar sölumennsku. Ef ég er heppinn bíða mín líka skilaboð á símsvaranum þar sem mér er tjáð að ég geti fengið frábær kjör á kreditkortaskuldinni minni. Það skiptir engu máli þó ég skuldi bara alls ekki neitt af kreditkortinu mínu, þeir eru alveg hissa á því að ég hafi ekki hringt í þá. Iðulega bera sölumennirnir sig þannig að að þeir tala inn almenna romsu inn á einhverja vél sem svo hringir í þig og spilar fyrir þig romsuna. Þannig hamast fyrirtækin á borgurunum vitandi að ekki nema örsmár hluti þarf að hringja til baka til þess að uppátækið borgi sig. Þetta er að sjálfsögðu bara annað form af ruslpósti sem fólki er vel kunnugt í tengslum við tölvupóstinn.
Verstu símaböggararnir eru þó þeir sem hringja í nafni alls konar samtaka og góðgerðarmáli. Þetta eru iðulega fyrirtæki sem gefa sig út fyrir að vera að safna fyrir ákveðin málefni þangað sem “ágóðinn” rennur. Þau hirða hins vegar þorrann af framlögunum sjálf og ég hef heyrt tölur niður í 15 prósent nefndar um hlutfall þess sem þessi fyrirtæki láta svo rakna af hendi til málefnisins. Það er sérstaklega vinsælt að hringja og safna fyrir lögregluna hérna hvernig sem stendur á því. Ef þú vilt ekki gefa þig og leggja eitthvað til þess sem hringir þá viðstöðulaust fara þeir í “höfða til samviskunnar” gírinn og reyna að snúa þér þannig. Ábending til þeirra sem eiga eftir að flytja til Bandaríkjanna, ef símatal byrjar á “Are you the man of the house?” þá er best að bíta odd af oflæti sínu og svara að bragði “There is no man in this house”. Öll önnur svör leiða til leiðinlegs sníkjusamtals. Það er nóg af leiðum til að láta pening renna til góðra málefna hér á öruggari hátt en í gegnum síma.
Í hverri viku berst mér í pósti aragrúi af alls konar tilboðum um kredikort, blaðaáskriftir og annað slíkt. Þegar maður skráir sig fyrir áskrift af blaði þá má maður búast við að í kjölfarið fylgi holskefla af alls kyns tilboðum að öðrum blaðaáskriftum. Ekki nóg með það, heldur byrja þeir mánuði eftir að maður kaupir ársáskrift að bjóða manni frábær kjör ef maður endurnýjar og framlengir áskriftina strax. Ég hugsa að ég gæti verið kominn með hátt í 50 ára áskrift að Business Week hefði ég tekið öllum gylliboðunum jafnóðum og þau bárust mér.
Það sem má hins vegar hafa gaman af í þessu öllu saman er hversu beinskeyttar margar þessar auglýsingar og markaðsherferðir eru. Hér hika menn ekki að blanda keppninautum inn í auglýsingarnar og segjast vera miklu betri í hinu og þessu. Gosdrykkjaframleiðandinn Pepsi hefur verið nokkuð virkur í þessum efnum og þá að sjálfsögðu með því að gera á eitthvað á hlut Coke.
Mörg fyrirtækin senda ógrynni af vörulistum og bæklingum í kjölfar þess sem fólk pantar eitthvað hjá þeim. Sömuleiðis er mikið sent út af afsláttarmiðum eða svokölluðum “kúponum”. Í síðustu viku barst mér bæði skemmtilegur bæklingur sem og skemmtilegur afsláttarmiði. Á bæklingnum sem ég fékk stóð “Við viljum ekki vera að bögga þig með því að senda þér bæklinga sem þú notar ekki, þannig að drífðu þig í að panta eitthvað frá okkur svo þetta verði ekki síðasti bæklingurinn sem þú færð frá okkur!” Mér barst svo einnig afsláttarpési frá þekktu alþjóðlegu pizzafyrirtæki. Þar er mér boðinn afsláttur ef ég panta pizzu og læt sendilinn hafa gulu síðurnar úr símaskránni þar sem öll símanúmer hinna pizzafyrirtækjanna koma fram. Fram til þessa held ég að ég hafi ekki séð betri árás á keppinauta en þessa hvorki á afsláttarmiðamarkaðnum né annars staðar.
- Hitamál vikunnar - 11. ágúst 2007
- Allt vitlaust á vellinum - 12. júní 2007
- Stjórnarjafnan - 4. mars 2007