Sigur hægrimanna í Danmörku yrði mikill persónulegur sigur fyrir Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra.
|
Flest bendir til þess að ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussen haldi velli í þingkosningunum í Danmörku sem fara fram á þriðjudag. Nýjustu kannanir sýna sterka stöðu Danska þjóðarflokksins og ljóst er að hann vill hafa meiri áhrif á stefnu stjórnarinnar á næsta kjörtímabili.
Í Danmörku hefur löngum verið hefð fyrir minnihlutastjórnum sem sitja í skjóli annarra flokka. Ríkisstjórn Venstre og Konservative hlaut um 40% atkvæða í síðustu kosningum en Danski þjóðarflokkurinn og Kristilegir demókratar hafa tryggt henni meirihluta á þinginu undanfarin 4 ár. Á kjörtímabilinu var hert á reglum um útlendinga, en segja má að umdeild lög sem tóku gildi hér á landi í fyrra byggi að mestu á dönsku útgáfunni.
Danska ríkisstjórnin hyggst þó ganga lengra í þessum efnum því á næsta kjörtímabili verður hert á þeim reglum sem heimila stjórnvöldum að vísa fólki úr landi gerist það brotlegt við lög. Þá hefur sú hugmynd skotið upp kollinum að þeim sem á annað borð er vísað úr landi verði bannað koma aftur til Danmerkur. Sumir telja þó að slíkar reglur gætu stangast á við alþjóðlega sáttmála sem Danmörk er aðili að og því vilja sumir stjórnarþingmenn stíga varlega til jarðar í þeim efnum.
Danski þjóðarflokkurinn gengur hvað harðast fram í þessu máli enda sækir hann stuðning sinn einkum til þeirra sem hafa áhyggjur af innflytjendum. Ef marka má yfirlýsingar forsvarsmanna flokksins fyrir kosningarnar hyggst hann gera kröfur um meiri áhrif á næsta kjörtímabili. Reyndar gekk formaður flokksins Pia Kjærsgård svo langt að krefjast þess að flokkurinn kæmi að myndun stefnuskrár nýrrar ríkisstjórnar, en forsvarsmenn Venstre og Konservative höfnuðu þeirri hugmynd algjörlega. Venjan er sú að ný ríkisstjórn semur stefnuskrá og leitar síðan eftir stuðningi annarra flokka við hana í heild sinni eða jafnvel einstök atriði.
Á síðustu dögum hafa þær raddir orðið æ sterkari innan stjórnarflokkanna sem segja að ríkisstjórnin ætti að leita eftir stuðningi Radikale venstre í ýmsum málaflokkum, meðal annars til að draga úr því sem margir telja óæskileg áhrif Danska þjóðarflokksins. Pia Kjærsgård sagði það vera ljóst að flokkurinn myndi ekki styðja skattalækkunarfrumvarp stjórnarinnar ef leitað yrði eftir meira samstarfi við Radikale venstre. Skattalækkanir eru einmitt einn af hornsteinum kosningabaráttu borgaralegu flokkanna en það myndi reynast þeim mikið áfall ef þær hugmyndir næðu ekki fram að ganga. Til þess þurfa þeir atkvæði þingmanna danska þjóðarflokksin. Það stefnir því allt í æsispennandi kosningabaráttu þessa síðustu daga og verður fróðlegt að fylgjast með þreifingum flokkanna í kjölfar kosninganna.
Danskir Jafnaðarmenn eiga í miklum vandræðum því flestar kannanir benda til þess að flokkurinn tapi fylgi frá því í kosningunum fyrir 4 árum. Þá virðist yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar telja að Anders Fogh Rasmussen sé betri kostur í stöðu forsætisráðherra en Mogens Lykketoft, formaður Jafnaðarmanna. Lykketoft hefur ekki tekist að heilla þjóðina og búast má við því að hann segi af sér verði úrslit kosninganna sérstaklega slæm fyrir flokkinn. Jafnaðarmenn hafa lagt mikla áherslu á velferðarmál í kosningunum en hefur þó ekki tekist að varpa nægjanlega miklum skugga á verkefni ríkisstjórnarinnar.
Radikale venstre hefur komið mjög vel út úr könnunum og gæti farið úr rúmum 5% í um 9%. Kristilegir demókratar sjá fram á að ná ekki 2% markinu en það þýddi að flokkurinn fengi ekki þingsæti. Enda hafa forsvarsmenn hans breytt áherslum sínum á undanförnum dögum. Í stað þess að styðja Anders Fogh opinberlega í embætti forsætisráðherra leggur flokkurinn nú meiri áherslu á sérstöðu sína og mikilvægi þess að kristileg gildi hafi rödd á þinginu.
Miðað við kannanir missa ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar nokkur þingsæti en halda þó þingmeirihlutanum með um 54% atkvæða á bak við sig. Það hlýtur að teljast mikill sigur fyrir borgaralegu flokkana en þó sérstaklega Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra.
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008