Útvarpsréttarnefnd komst að þeirri niðurstöðu fyrir helgi að útsendingar Skjás Eins á knattspyrnuleikjum í ensku úrvalsdeildinni með lýsingu á ensku samræmdust ekki ákvæðum útvarpslaga. Afleiðing þessa úrskurðar var sú að í gær sýndi Skjár Einn leik Crystal Palace og Bolton eingöngu með umhverfishljóðum af vellinum.
Í 1. mgr. 8. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 kemur fram að efni á erlendu máli sem sýnt er á sjónvarpsstöð skuli jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Þetta á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Ákvæðið á heldur ekki við þegar um er að ræða endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum, enda sé um að ræða viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva.
Erfitt er að gagnrýna á lagalegum forsendum útvarpsréttarnefnd fyrir að komast að þeirri niðurstöðu sem hún gerði í úrskurði sínum. Þetta eru einfaldlega gildandi reglur og eftir þeim verður útvarpsréttarnefnd að úrskurða og það hefur hún gert. Það eru lögin sjálf sem eru gagnrýniverð og þeim þarf að breyta. Þótt tilgangur að baki lögunum sé göfugur, þ.e. að vernda og efla íslenska tungu, þá er of langt gengið í forræðishyggju að gera íslenskum sjónvarpsstöðvum það skylt, í þeim mæli sem nú er, að hafa íslenskt tal og texta með erlendu efni. Þannig geta lögin, svo fortakslaus sem þau eru, leitt til einkennilegra niðurstaðna eins og orðin er raunin með nýjasta úrskurði nefndarinnar.
Afleiðing úrskurðarins er sú að nú verða leikir úr ensku deildinni sumir hverjir sýndir með umhverfishljóðunum einum, eins og gert var í gær. Engu erum við bættari með það. Í stað þess að hafa tal enskra þula undir sem flestir geta skilið heyrum við nú aðeins áhorfendaklið og dómaraflaut í þessum leikjum. Þótt þetta angri undirritaðan ekki mikið þykir honum viðfelldnara að hafa tal undir leiknum, enda falla oft fróðleikskorn úr munni ensku þulanna.
Þótt pistlahöfundi sé annt um íslenskt mál, og frekar íhaldssamur í þeim efnum, telur hann að æskilegt væri að útvarpslögum yrði breytt og rýmkaðir möguleikar íslenskra sjónvarpsstöðva til að senda út erlent efni án íslensks tals og texta, t.d. þegar um er að ræða íþróttaviðburði og því um líkt. Jafnvel mætti ganga svo langt að fella út bannið við því að senda út efni á erlendu máli án íslensks tals eða texta.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006