Rétt er að hefja leikinn á nokkrum staðreyndum um ræðu forsetans. Þessi ræða kallast á frummálinu State of the Union Address og eins og nafnið bendur til um fjallar hún jafnan um stöðu Bandaríkjanna, horfur og auðvitað fyrirætlanir forsetans næsta árið. Þessa ræðu flytur forseti Bandaríkjanna í upphafi hvers árs og var þetta fimmta ræða Hr. Bush. Ræðan var að þessu sinni rúm 5.000 orð og tók um fimmtíu mínútur í flutningi. Þetta kann að virðast langur tími, en skýrist helst af því að forsetinn þurfti um 65 sinnum að gera hlé á máli sínu vegna fagnaðarláta. Reyndar er ræðan að sjálfsögðu samin með þetta í huga og þingmenn klappa samviskusamlega á fyrirfram ákveðnum stöðum.
Að þessu sinni var ræðan heldur í lengra lagi miðað við fyrri ræður, en engu verri fyrir þær sakir. Hr. Bush fór mikinn og eru margir hér vestra á þeirri skoðun að ræðan hafi tekist mjög vel upp, bæði hvað varðar flutning og innihald. En hvað sagði maðurinn?
Bush hóf ræðuna á því að bera sjálfan sig saman við nýkjörna leiðtoga í Afghanistan, Úkraínu, Írak og Palestínu og sagðist njóta sömu forréttinda, að því leyti að þeir væru allir kjörnir til sinna starfa af fólkinu í landinu. Vissulega ágætis byrjun.
Fyrsti hluti ræðunnar fjallaði svo að miklu leyti um Bandaríkin sem efnahagsstórveldi og hvað þyrfti að gera til þess að þar yrði áfram stærsta hagkerfi heimsins. Bush lagði mikla áherslu á fjölgun starfa, bæði þá miklu sem hann segir að hafi verið hingað til sem og nauðsyn þess að halda áfram á sömu braut. Hann lofaði bót og betrun í ríkisfjármálum og undirbýr nú áætlun um leiðir til þess að helminga halla ríkissjóðs árið 2009 – það veitir víst ekki af.
Að þessu loknu tók við miðkafli ræðunnar sem fjallaði allur um endurskipulagningu hins opinbera velferðarkerfis, Social Security. Bush ætlar sér að gjörbylta því kerfi og munu breytingarnar eiga við þá sem eru í dag 54 ára og yngri. Stærsta ástæða þessara breytinga er sú að verði ekkert að gert, þá mun meira fé flæða út úr kerfinu en kemur inn í það, strax árið 2018. Þetta er mikið áhyggjuefni og svo virðist sem Bush sýni þarna ákveðna framsýni og hugsi lengra en nemur þessu kjörtímabili.
Ekki eru þó allir á eitt sáttir um þær leiðir sem best væri að fara til þess að koma á umbótum í velferðarkerfi Bandaríkjanna. Bush gerði þjóðinni hins vegar ljóst að ætlan hans er að einkavæða kerfið að hluta. Hann ætlar að búa til svokallaða einkareikninga, þar sem hver og einn safnar sínum eigin eftirlaunum og ráðstafar þeim að vild eftir að sest er í helgan stein. Stærstu kosti þessa kerfis segir Bush vera betri ávöxtun fjárins og að ríkið muni ekki hafa ráðstöfunarrétt yfir því sem safnast. Þetta kerfi verður hins vegar valfrjálst með öllu og kemur aðeins sem viðbót við núverandi velferðarkerfi, sem verður þá rekið á núlli.
Bush segir að þetta nýja kerfi komi til með að veita fólki aukið öryggi í ellinni, sérstaklega þar sem ætlunin er að því fé sem fólk sem safnar verði varið í kaup á hluta –og skuldabréfum sem eru tiltölulega áhættulítil. Hann sagði jafnframt að eftirlaunareikningarnir yrðu tryggðir gegn sveiflum á Wall Street og því þyrfti fólk engar áhyggjur að hafa. Þetta kerfi hljómar vissulega vel, en þó á eftir að koma í ljós hvort það verður eins og Bush sér fyrir sér og hvort það mun yfir höfuð ganga upp.
Í næsta hluti ræðunnar drap forsetinn á nokkrum mikilvægum málum. Má þar nefna heilbrigðiskerfið og ýmis heilbrigðismál, tilnefningu dómara, nauðsyn þess að halda ungu fólki frá glæpagengjum og mikilvægi áframhaldandi rannsókna á HIV veirunni. Allt eru þetta vissulega brýn mál og þrátt fyrir að hafa ekki farið út í smáatriði er Bush í það minnsta með þau á bakvið eyrað.
Lokahluti ræðunnar fjallaði svo að sjálfsögðu um baráttuna við hryðjuverk, stríðið í Írak og nauðsyn þess að veita Bandaríkjamönnum öryggi í heimahögum. Bush minntist þar 11. september 2001 og fjallaði um það grettistak sem lyft hefur verið í öryggismálum þjóðarinnar síðan þá. Hann fjallaði stuttlega Mið-Austurlönd og þá stefnu Bandaríkjanna og koma á friði og lýðræði þar sem og annars staðar á hnettinum. Hann fjallaði um kosningarnar í Írak og sagði hjartnæma sögu af konu sem var ein að þeim fjölmörgu sem loksins fengu að kjósa sína eigin leiðtoga. Auk þess talaði Bush um þá bandarísku hermenn sem gegna skyldu sinni samviskusamlega um allan heim og minntist hann þeirra sem gefið hafa líf sitt í baráttunni fyrir friði.
Að lokum vitnaði hann í Franklin Roosevelt sem hafði sagt: “Each age is a dream that is dying, or one that is coming to birth.” Honum þykir hann því standa á miklum tímamótum, sem má eflaust til sanns vegar færa og segja þeir sem til þekkja að hann sé mun meðvitaðri um eigið mikilvægi í málefnum heimsins en faðir hans var á sínum tíma. Hann endaði svo á hinu hefðbundna “and may God bless America.”
Á heildina litið ágætis ræða hjá Hr. Bush og ljóst að hann ætlar sér stóra hluti eins og fyrri daginn. Hann hefur hins vegar haft fjögur ár hingað til sem ef til vill hafa ekki gengið að óskum, en rétt er að vona að framtíðin sé öllu bjartari.
- Siðlaust guðlast - 5. september 2007
- Þess vegna er Laugavegurinn dauður - 6. mars 2007
- Hvað á RÚV að þýða? - 12. febrúar 2007