Ætli Árni og Palli fagni árangri liðinnar viku með því að hvor fái sér tylft bjóra á Players í kvöld?
|
Á föstudögum hamra flestir landsmenn í sig 12-14 bjórum. Því er nauðsynlegt fyrir hvern íslending sem vettling getur valdið og á bjórglasi haldið að þekkja reglurnar um ölvun á almannafæri.
Það eru þó nokkuð margir íslendingar sem hafa verið handteknir fyrir ölvun á almannafæri. Sumir oftar en aðrir. Hvort sem fólk hefur verið handtekið fyrir ölvun á almannafæri eður ei er alltaf gott að þekkja réttarstöðu sína.
Meginregla íslensks réttar um ölvun á almannafæri birtist í 21. gr. áfengislaga og er hún svohljóðandi:
„Hver sá sem sökum ölvunar veldur óspektum, hættu eða hneyksli á almannafæri, opinberum samkomum, í bifreiðum eða öðrum farartækjum eða skipum skal sæta ábyrgð samkvæmt lögum þessum.“
Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. áfengislaga varða brot á lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim sektum eða fangelsi allt að sex árum. Telja verður þó ólíklegt að menn fari í steininn einungis fyrir þær sakargiftir að fá sér of mikið.
Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að áfengislögum nr. 33/1935, sem er að öllu verulegu leyti samhljóða núgildandi 21. gr. áfengislaga nr. 75/1998, kemur fram um 19. gr. frumvarpsins, sem varð síðan 18. gr. laganna:
„Ekki þykir ástæða til þess að refsa fyrir ölvun út af fyrir sig, geri hinn ölvaði sig ekki jafnframt sekan um óspektir á almannafæri eða aðra hneykslanlega framkomu.“
Í áliti áfengisþyrsts lögfræðings út í bæ nr. 3461/2002 var einmitt ölvun á almannafæri til skoðunar. Í álitinu segir:
Af forsögu og orðalagi 21. gr. áfengislaga nr. 75/1998 verður dregin sú ályktun að til þess að ölvun á almannafæri, eða á öðrum þeim stöðum sem tilgreindir eru í ákvæðinu, verði talin falla undir ákvæðið verði að liggja fyrir að hinn ölvaði hafi valdið óspektum, hættu eða hneyksli með hátterni sínu. Ölvun á almannafæri verður því ekki talin refsinæm háttsemi, sbr. 21. og 27. gr. áfengislaga, ein og sér, þ.e. án þess að staðreynt sé að a.m.k. ein tegund slíkra afleiðinga hafi leitt af ölvun viðkomandi í því tilviki sem um ræðir. Þá verður að hafa í huga að ákvæðið er takmarkað við þau tilvik þegar ölvaður maður veldur óspektum, hættu eða hneyksli á „almannafæri, á opinberum samkomum, í bifreiðum eða öðrum farartækjum eða skipum“.
Mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð opinberra mála og a-liður 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga er skoðaðar. Í fyrrnefnda ákvæðinu segir að lögreglu sé rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur er á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum. Í síðarnefnda ákvæðinu segir að handhafa lögregluvalds sé heimilt að handtaka mann og færa á lögreglustöð eða á annan stað þar sem lögregla hefur aðstöðu í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu, svo sem ef maður ærist á almannafæri eða veldur þar hneyksli eða hættu á óspektum.
Niðurstaðan er því að lögreglan getur ekki handtekið mann nema maður sé til ama. Það er sem sagt ekki refsivert eitt og sér að vera alveg smellkexblekaður.
Ráðlegging mín, að teknu tilliti til framgreinds, til þeirra sem eru að fara hamra í sig er að það er betra að halda sig sem næst barnum á kenderíum og einbeita sér að drykkjunni í stað þess að taka þátt í einhverjum ærslum og fíflalátum sem leitt getur til handtöku og skemmt fyrir manni kvöldið. Skál í botn.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009