„Sumaraðsetur Danadrottningar Marsllíusarborg er ekki byggð í Nýfúnkísstíl“
|
Á bls. 6 í Morgunblaðinu í gær var frétt um að í hyggju væri að reisa einbýlishús við Grenimel í vesturbænum á næstunni. Sé einhver að velta því fyrir sér af hvort svo veruleg gúrkutíð sé í fréttum þessa dagana, eða að kreppa ríki í byggingariðnaði, skjátlast viðkomandi því hér er í raun um að ræða frétt vikunnar, allavega hvað varðar lúxuseinbýlishús í nýfúnkísstíl. (Fúnkísstíll var stefna í arkitektúr sem byggði á nytjagildi og fundin var upp á þriðja áratug síðustu aldar. Jónas frá Hriflu nefndi þessa stefnu jafnan kassastefnuna)
Fyrrnefnt einbýlishús er nefnilega enginn smásmíði; 660 fm á þremur hæðum. Lyftu verður komið fyrir í húsinu svo að fara má salíbunu á milli vínkjallarans og 70 fm þakgarðsins á þriðju hæð á örskotsstundu. Unnt verður að koma fyrir heitum potti í þakgarðinum-og má því spyrja sig hvort ekki sé þá unnt að koma fyrir vaðlaug eða lítilli sundlaug þar einnig fyrir.
Fyrir framan húsið verður 75 fm. timburverönd, eða svokallaður dekkpallur, þar sem koma má fyrir gasgrilli sólstólum gaslömpum eða öllu því sem hugurinn girnist til þess að gera stutt íslenskt sumar pan-evrópskara. Í kringum dekkpallinn ( Dekkpallur. Heitið er dregið af þilförum skemmtiferðaskipta sem jafnan voru lögð tekkfjölum.) verður reistur steyptur skjólveggur til þess að halda forvitnum áhorfendum frá heitum sumardagshófum.
Í stofu hússins er gert ráð fyrir 6,6 m lofthæð, svo auðvelt ætti að vera koma fyrir nokkuð af svokölluðum flekalistaverkum fyrir á veggjum hússins. ( Flekalistaverk. Myndlist sem mæld er í flekum frekar en metrum og listrænt gildi víkur oft fyrir kröfunni um stærð) Hins vegar veldur slík lofthæð væntanlega hærri kostnaði við kyndingu hússins.
Á jarðhæð verður svokölluð þjónustuíbúð, en ekki var nánar skýrgreint í frétt blaðsins hvort um væri að ræða íbúð fyrir húsvörð, eða þjónustuíbúð aldraðra! Líklegra verður þó að telja að hér sé átt við hið fyrrnefnda, fremur en hið síðarnefnda.
Hafist verður handa við byggingu um leið og búið er að rífa núverandi hús á lóðinni.
Og hver er svo verðmiðinn á slíku sloti í nýfúnkísstil? Leyndamál! Ábyggilegir menn sem leitað var til töldu hins vegar að verð slíks húss myndi væntanlega vera í kringum 150 milljónir.
Spurning er þá bara hvort 100% íbúðalán fáist til kaupa á slíku. Væntanlega ekki!
En eru svona byggingar ekki bara besta mál? Jú og þrátt fyrir ögn meinfýsna umfjöllun hér að ofanverðu er það óhjákvæmileg afleiðing í frjálsu samfélagi að menn geta látið hanna það sem þeir helst kjósa og byggja á lóðum sínum meðan slíkt er samþykkt af skipulagsyfirvöldum.
Eigi borgir að þróast og vaxa með íbúum sínum er nauðsynlegt að framþróun verði-og borgir staðni ekki. Markaðurinn ræður síðan hvað selst og hvað selst ekki. Vilji einhver byggja 660 fm. einbýlishús þá ræður sá hinn sami því.
En kannski er ástæða þess að greinarhöfundar finnur þessari byggingu sumt til foráttu á þeirri einföldu staðreynd byggð að húsið verður byggt í garði sem hann, sökum fjölskyldutengsla, sló 12-15 sinnum á sumri á árum áður, reitti arfa í beðum og hreinsaði, ásamt því að dreifa mold og áburði um beð og runna. Greinarhöfundur þarf því að sjá ávöxt erfiði síns fara undir dekkpalla og bílastæði!
Og þó má ef til vill segja að hér sé um ljúfsár tímamót að ræða-því aldrei aldrei, aftur þarf hann að ýta Stiga-sláttuvél um flötina bölvandi mosa steinum og öðru kargaþýfi.
Svo ef til vill er þetta bara hið besta mál!
- Kveikt er ljós við ljós – burt er sortans svið - 24. desember 2020
- Hæstivirtur forseti,Royal Straight Flush! - 21. febrúar 2008
- Má Kaupþing þetta? - 7. nóvember 2007