Það gerist ekki oft á Íslandi að menn láta sjálfviljugir af störfum vegna mistaka sem þeir hafa gert. Einna helst á þetta við um þjálfara íþróttaliða sem stundum láta af störfum „að eigin ósk“, eins og gjarnan er sagt.
Allir geta gert mistök í starfi en það fer eftir eðli starfsins hvort mistökin hafi í för með sér alvarlegar afleiðingar. Alvarlegast er væntanlega þegar líf og limir fólks eru í hættu. Því miður verður læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki stundum á mistök og í verstu tilvikum leiðir það til dauða sjúklinga. Þegar blaðbera verða hins vegar á mistök í starfi leiðir það í versta falli til þess að viðtakandi blaðsins verður af lestri þess þann morguninn. Mistök manna í starfi hafa því misjafnar afleiðingar.
Nú hefur það gerst að íslenskur blaðamaður hefur látið af störfum, að eigin frumkvæði eftir því sem næst verður komist, vegna mistaka sem hann gerði í starfi sínu. Afar sjaldgæft er að blaðamenn axli ábyrgð á mistökum sínum með þessum hætti, þótt fullyrða megi að mistök séu gerð á öllum fjölmiðlum landsins svotil á hverjum einasta degi.
Í því tilviki sem hér um ræðir hafði viðkomandi blaðamaður unnið frétt þar sem því var haldið fram að æðstu stjórnvöld hér á landi færu vísvitandi með rangt mál í tilteknu deiluefni. Taldi hann sig hafa í höndunum sannanir fyrir því að svo væri og byggði fréttin á því. Þetta var stór frétt sem slegið var upp fremst í fréttatíma, enda ekki á hverjum degi sem æðstu ráðamenn þjóðarinnar eru bornir svo þungum sökum í fjölmiðlum, þótt þeir megi oft þola harða gagnrýni frá andstæðingum sínum í pólitík.
Blaðamenn og fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræðislegu samfélagi. Í sumar sem leið urðu mjög margir til þess að benda á þessa staðreynd, einkum og sér í lagi þeir sem börðust mest gegn setningu laga um eignarhald á fjölmiðla. Ef fjölmiðlar og blaðamenn ætla að standa undir því mikilvæga hlutverki sem þeir gegna og þeir sjálfir hafa lagt svo mikla áherslu á, verða þeir að standa undir kröfum í samræmi við það.
Nýlega kom upp í Bandaríkjunum mál sem er að mörgu leyti sambærilegt við það sem nú hefur gerst hér á landi. Blaðamenn fréttastofu CBS-stöðvarinnar töldu sig hafa sannanir fyrir því að forseti Bandaríkjanna færi með rangt mál um herþjónustu sína á áttunda áratugnum. Þegar í ljós kom að skjölin sem blaðamennirnir byggðu á voru fölsuð var öllum þeim sem báru ábyrgð á viðkomandi frétt ýmist sagt upp störfum eða þeir látu af störfum „að eigin ósk“, allt frá þeim blaðamönnum sem komið höfðu að gagnaöflun og vinnslu fréttarinnar til þess sem las fréttina í fréttaskýringaþættinum 60 mínútum, Dans Rather.
Það má segja að Róbert Marshall, fréttamaður á Stöð 2 og formaður Blaðamannafélagsin Íslands, hafi gert það sem sómasamlegt var að gera í þeirri stöðu sem hann var í. Með uppsögn sinni axlar hann ábyrgð á mistökum sínum og er maður að meiri á eftir. Ljóst er hins vegar að trúverðugleiki sjálfrar fréttastofu Stöðvar 2 hefur beðið hnekki við þennan fréttaflutning og spurning hvort ábyrgðin liggi ekki hjá fleirum en viðkomandi blaðamanni sem nú hefur axlað sína ábyrgð í málinu. Hér var vitaskuld ekki um neina venjulega frétt að ræða, heldur fréttaflutning sem beinlínis dróg í efa heilindi og sannsögli æðstu ráðamanna ríkisins.
Hér að ofan segir að afleiðingar þess að gera mistök í starfi séu misjafnar efir því hvaða starf er um að ræða. Afleiðingar þess þegar fjölmiðlar og blaðamenn verða uppvísir að svo alvarlegum mistökum sem hér um ræðir, eru alvarlegar. Þær eru auðvitað alvarlegar fyrir viðkomandi blaðamann og þá fréttastofu sem setur fréttina fram, en þær eru ekki síður alvarlegar fyrir fjölmiðla almennt. Til þess að fjölmiðlar geti rækt það mikilvæga hlutverk sem þeim er ætlað í lýðræðislegu samfélagi verða þeir að njóta trausts og hafa tiltrú almennings. Á sama hátt og kosningasvindl veikir traust manna á lýðræðinu, þá eru ófagleg vinnubrögð fjölmiðla til þess fallin að draga út trú manna á hið mikilvæga hlutverk þeirra. Allir fjölmiðlar verða þannig fyrir skaða með einum eða öðrum hætti þegar skuggi fellur á trúverðugleika eins þeirra. Það er þess vegna fjölmiðlum ekki einungis hollt heldur beinlínis nauðsynlegt að gerar ríkar kröfur í eigin garð.
Allar fréttastofur byggja tilveru sína á trúverðugleika. Þegar hann bíður hnekki er tjónið tilfinnanlegt og langvarandi. Fjölmiðlar munu aldrei geta rækt hið mikilvæga hlutverk sitt í lýðræðislegu samfélagi ef eitthvað vantar upp á fagmennsku í störfum þeirra. Vonandi verður mál Róbert Marshalls og fréttastofu Stöðvar 2 til þess að efla fagmennsku í íslenskum fjölmiðlum og vönduð vinnubrögð verði höfð að leiðarljósi í enn ríkari mæli en tíðkast hefur til þessa.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021