Brjóst, einfaldir mjólkurkirtlar eða úthugsuð aðferð náttúrunnar til að opna pyngjur grunlausra karlmanna?
|
Félagsfræðingurinn Edward Miller [1] leggur út frá því að brjóst kvenna stækki á meðgöngu og að hagur barnsins liggi í því að móðirin fái þau gæði (provisions) sem hún þarf meðan á meðgöngu stendur. Karlmenn hafa vegna þess þróast til þess að veita betur fyrir konur með stór brjóst. Konur virðast hafa fattað þetta og brjóstastækkanir þannig orðið gríðarvinsælar. Miller bendir á máli sínu til stuðnings að prímatar þar sem kvendýrin þurfa ekki að stóla á karlkynið til að afla fæðis hafa ekki áberandi brjóst.
Miller lagði einnig fram þá tilgátu að dóminerandi karlmenn í veiðihópum voru ekki hrifnir af stórum brjóstum og þetta hefði gefið hinum karlmönnunum í hópnum færi á að fjölga mannkyninu. Þessir menn gátu betur séð fyrir konunum þar sem þeir gátu beint þeirri fæðu sem þeir öfluðu til eins kvenmanns ólíkt dóminerandi karlmanninum sem þurfti að sjá mörgum konum fyrir fæði. Sé kenningin um að dóminerandi karlmaðurinn sæki frekar í konur með minni brjóst sönn þá vaknar spurning um hvort brjóstastækkanir geti verið raunhæf forvörn gegn heimilisofbeldi.
Talandi um brjóstastækkanir þá er fræg flökkusagan af fallna ungliðastjórnmálaforingjanum sem var nógu smekklaus til þess að gefa unnustum sínum árlega brjóstastækkanir í jólagjöf. Nýleg rannsókn [2] á meðal kvenna sem höfðu farið í brjóstastækkun staðfesti að meirihluti þeirra taldi útlit sitt betra (92%) og að sjálfstraustið hefði aukist (82%) en jafnframt að engar stórvægilegar breytingar hefðu átt sér stað á félagslega sviðinu. Það er að segja brjóstastækkanir auka ekki líkurnar á hjónabandi.
Sú kenning að það sé sérmál karlmanna að finnast stór brjóst betri en smærri hefur verið ítrekað afsönnuð með stálkaldri hendi félagsvísindanna. Rannsóknir hafa leitt í ljós að konur telja að kona með stærri brjóst sé meira aðlaðandi en önnur með minni brjóst. Ein könnun [3] leiddi einnig í ljós að samkynhneigðar konur laðast einnig frekar að stærri brjóstum en minni (sú könnun sannaði einnig að samkynhneigðar konur löðuðust frekar að “stærri” konum en “minni”- mýtan um trukkalessuna fékk þar óvæntan stuðning).
Ein frægasta brjóstarannsóknin birtist þó víst í New England Journal of Medicine þar sem Dr. Karen Weatherby komst að þeirri niðurstöðu að tíu mínútna gláp á konubrjóst getur helmingað líkur á hjartaáfalli og reglulegt gláp getur lengt líf manns um fjögur til fimm ár [4]. Ef satt er þá er ljóst að ef eitthvað vit á að vera í svokallaðri Lýðheilsustofnun þá hefði hún fyrir löngu átt að senda þau leiðbeinandi tilmæli til íslenskra kvenna að flegnir toppar væru til góðs fyrir heilsu Íslendinga. Alþingi ætti auk þess að afnema öll lög sem leggja hömlur á strípihneigð, slíka hegðun á að hvetja, ekki letja, enda í almannahag.
[1] Miller, Edward M, Humar breasts: Evolutionary origins as a deceptive signal of need for provisioning and temporary infertility, Mankind Quarterly, 00252344, Winter 95, Vol. 36, Issue 2
[2] Young et al., Initial results from an online breast augmentation survey, Aesthetic surgery journal, March-April 2004, 117-135
[3] Cohen & Tannenbaum, Lesbian and bisexual women’s judgements of thetattractiveness of different body types, The Journal of Sex Research, 2001, Vol 38, No 3, (http://www.findarticles.com/p/articles/mi_m2372/is_3_38/ai_82013894)
[4] Því miður er þessi rannsókn uppspuni, engin Karen Weatherby hefur nokkurn tímann skrifað í New England Journal of Medicine heldur er hér um gamlan internetbrandara að ræða. Sumar sögur eiga bara ekki að þjást fyrir sannleikann.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021