Allt frá því að sagnfræðingurinn Þúkýdídes útskýrði orsakir Pelópsskagastríðsins milli Aþenu og Spörtu fyrir rúmlega 2400 árum, hafa menn litið til nýrra risavelda með óvissu og kvíða. Þúkýdídes benti á þær væntingar sem mynduðust um að stríð væri óumflýjanlegt: „Hinn almenna skoðun var að hvað svo sem yrði gert, þá myndi stríð við Peloponnese vera óhjákvæmilegt.“ Það sem gerði stríðið óhjákvæmilegt, að mati Þúkýdídes, var vöxtur aþenska borgríkisins og sá ótti sem hann olli hjá Spartverjum – þeir gátu ekki hugsað sér að hafa svo öflugt ríki í bakgarðinum.
En hvað kemur þetta samskiptum Bandaríkjanna og Kína eiginlega við? Jú, ef við gefum okkur þá forsendu að hagkerfi Kína muni halda áfram að vaxa með sama hætti og undanfarin 25 ár, mun það sjá sér fært að setja mun meiri fjármuni í að efla hernaðargetu sína heldur en það hefur gert hingað til; efnahagsveldi leiðir af sér hernaðarveldi. Og þegar hvoru tveggja hefur verið náð mun Kína gera kröfu um að taka við sem forysturíkið í Asíu af Bandaríkjunum. Rökin fyrir þessu eru ósköp einföld: öll ríki sem hafa getu til þess, sækjast eftir að verða forysturíkið á sínu svæði og geta þar með tryggt að ekkert annað ríki sé að aðhafast í þeirra bakgarði. Þannig brugðust Bandaríkin við á 19. öld og Monroe kenningin snérist um. – Því ætti ekki Kína að gera það sama?
Samkvæmt þeirri atburðarás sem hér hefur verið lýst telja því sumir (realistar aðallega) að átök milli Kína og Bandaríkjanna séu óhjákvæmileg á sama hátt og raunin varð með Aþenu og Spörtu: Bandaríkin muni aldrei standa aðgerðalaus hjá og leyfa Kína að taka við stöðu þeirra í Asíu. Þess vegna eigi Bandaríkin að hefjast handa við setja saman stefnu sem miðar að því að halda aftur að Kína. En það eru langt í frá allir á sama máli um að þessi atburðarás sem realistar spá fyrir um sé eins óumflýjanleg og þeir vilja gefa sér. Þeir Zbigniew Brezinski og John J. Mearsheimer, stjórnmálafræðiprófessor við Chicago háskóla, skiptast á skoðunum um þetta efni í nýjasta tölublaði Foreign Policy. (jan/feb 2005)
Brezinski hafnar þeirri skoðun að átök milli Kína og Bandaríkjanna séu óhjákvæmileg – eða jafnvel líkleg. Áhersla Kína miðist fremur að áframhaldandi efnahagsþróun og að öðlast samþykki sem stórveldi, en hafi ekki löngun til að storka Bandaríkjunum á hernaðarsviðinu. Brezinski heldur því fram að leiðtogar Kína geri sér grein fyrir því að tilraunir til að reka Bandaríkin á brott frá Asíu yrðu með öllu gagnslausar. Og þrátt fyrir að svo ólíklega vildi til að Bandaríkin færu á brott þá kæmi bara Japan í staðinn. Innan nokkurra mánuða gæti Japan svo komið sér upp umtalsverðri kjarnorkufælingu. Kína skilur nefnilega gildi bandarískrar nærveru á þessum slóðum, því hún kemur í veg fyrir að Japan verði að hernaðarveldi.
Mearsheimer segir hins vegar að Kína geti ekki mögulega risið á friðsaman hátt. Hann leggur áherslu á að ekki sé einblínt á stöðuna eins og hún er í dag. Það verði að horfa 20-30 ár fram í tímann. Að lokum muni Kína leitast við að verða forysturíkið í Asíu og reyna að reka Bandaríkin á brott. Öll saga stórvelda hafi sýnt það hingað til. „[Þ]að er betra að vera Godzilla heldur en Bambi“ segir Mearsheimer. En þetta á Bandaríkin aldrei eftir að sætta sig við. Eins og 20. öldin sýndi þá umber Bandaríkin ekki stórveldi sem er jafnoki þeirra. Og þess vegna munu Bandaríkin fara í aðgerðir til að halda aftur að Kína og að lokum veikja það, þangað til komi að þeim tímapunkti, að Kína sé of veikt til að geta ráðið yfir Asíu. Í stuttu máli, þá heldur Mearsheimer því fram, að Bandaríkin séu líkleg til að haga stefnu sinni gagnvart Kína á sama hátt og þau gerðu gagnvart Sovétríkjunum á tímum kalda stríðsins.
Þessar hugmyndir Mearsheimer eru að sumu leyti vanhugsaðar. Það er t.d. ólíklegt að Bandaríkin gætu fengið einhverjar þjóðir í lið með sér til að mynda bandalag gegn Kína eins og Francis Fukuyama bendir á í greininni „Re-Envisioning Asia“ í Foreign Affairs. (jan/feb 2005) Japan, Suður-Kórea og Ástralía eiga öll í margslungnum samskiptum við Kína og engin þeirra er tilbúin til að stofna þeim samskiptum í hættu.
Á síðastliðnum 25 árum hefur stefna Bandaríkjanna gagnvart Kína haft það að meginmarkmiði að gera Kína að ábyrgum aðila á alþjóðavettvangi, með því að þrýsta á Kína til að ráðast í markaðsumbætur og þáttöku í alþjóðastofnunum á borð við alþjóðaviðskiptastofnunina, (WTO) sem Kína gerðist aðili að árið 2001. Þessi stefna hefur að mestu leyti heppnast vel. Hugmyndin á bak við þessa stefnu er auðvitað sú, að með aukinni velmegun í Kína skapist þrýstingur frá millistéttinni um að gerðar verði lýðræðislegar umbætur á stjórnkerfinu.
Bandaríkin ættu í meginatriðum að halda þessari stefnu áfram – um leið og þau hafa samt allan varann á. Margt er farið að benda til þess að stjórnvöld í Kína séu í ákveðinni krísu um þessar mundir, sem byggir á þversögn í framþróuninni í Kína. Enn frekari framþróun mun þurfa að hafa í för með sér aukið frjálsræði í efnahagsmálum, sem grefur svo aftur undan völdum kommúnistaflokksins í landinu sem verður veikari með hverju árinu. Á endanum mun flokkurinn þurfa að gefa eftir völd sín.
Alræðisríki eru nefnilega líklegust til að falla þegar þau reyna sjálf að endurbæta sig. Það var Frakkinn Tocqueville sem var fyrstur til að taka eftir þessari þversögn og hafði rétt fyrir sér – eins og svo oft áður.
- Hvenær mun kínverska hagkerfið fara fram úr hinu bandaríska? - 21. ágúst 2008
- Af hverju kapítalismi leiðir ekki endilega til lýðræðis - 15. ágúst 2008
- Annað tækifæri - 12. janúar 2008