Place de la Comedie í Montpellier. Öll bílaumferð er 30 metrum neðar
|
Ágætt dæmi um það er hvernig höfuðborgarsamtökin hafa barist fyrir því að Hringbrautin verði sett í stokk á milli Snorrabrautar og hringtorgsins við Þjóðarbókhlöðuna. Þetta hefur áður verið rætt hér á Deiglunni. Borgaryfirvöld lýstu því yfir að það væri of dýrt og ekkert ætti að tala um þetta meira.
Það eru meira en 20 ár síðan borgaryfirvöld í Montpellier í Frakklandi ákváðu að leggja aðalumferðaræðina í borginni í göng og gera miðbæinn að gönguhverfi. Fólk sem heimsækir borgina getur varla ímyndað sér hvernig þetta hefur verið áður – þetta er svo sjálfsagt eftir á.
Önnur borg sem hefur lagt mikið á sig við að opna rými og færa stofnbrautir neðanjarðar er Boston en þar eru nú loksins að ljúka gríðarlegum framkvæmdum sem gengu undir nafninu The Big Dig þar sem gríðarmikið af opnu svæði hefur verið fært inn í borgina á kostnað hraðbrautar sem skarst í gegn um miðbæinn.
Af þessum dæmum má ljóst vera að öðruvísi hafast mennirnir að. Þegar menn skoða framkvæmdirnar í Vatnsmýri í dag þá verður það stöðugt erfiðara að skilja þankagang R-listans. Það liggur fyrir að það verður mikil uppbygging í framtíðinni í Vatnsmýrinni. Óháð því hvort flugvöllurinn fari fljótlega eður ei eins og var nýlega skrifað um hér á Deiglunni þá er þekkingarmiðstöð Íslands staðsett þar í formi Háskóla Íslands, Landsspítalans Háskólasjúkrahúss og aðalstöðva Íslenskrar Erfðagreiningar og þar til viðbótar eiga að bætast Vísindagarðar. Borgarstjórn vill endilega skera þetta hverfi frá miðbænum með stofnbraut í stærðargráðu sem þekkist varla í miðborgum erlendis.
Höfundur efast ekki um það að hér er um ranga ákvörðun að ræða hjá borgaryfirvöldum. Í stað þess að gera ráð fyrir að Vatnsmýrin og miðborgin séu tveir miðpunktar með miðlínu í Hringbraut sem kallast á, þá hefði þróunin átt að vera sú að miðborgin myndi þróast í áttina að Háskólanum. Í því samhengi má spyrja hvort ekki megi endurskoða skipulag við tjörnina og leyfa blönduðu verslunar og íbúðahverfi að koma í staðinn fyrir þessi stöku íbúðahús sem taka svo mikið af verðmætu plássi undir sig.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021