Er æskilegt að skondin ákvæði séu í lögreglusamþykktum?

Í gildandi lögreglusamþykktum víða um land má finna ýmis skondin og undarleg ákvæði. Einkum á þetta við um eldri samþykktir sem settar voru á síðustu öld. Í nýlegri lögreglusamþykktum eru ákvæðin ekki jafnskondin og áður. Er vafalaust ýmislegt sem veldur því.

Í lögreglusamþykktum víða um land má finna ýmis skondin og undarleg ákvæði. Einkum á þetta við um eldri samþykktir sem settar voru á síðustu öld. Í nýlegri lögreglusamþykktum eru ákvæðin ekki jafnskondin og áður. Er vafalaust ýmislegt sem veldur því.

Lögreglusamþykktir hafa almennt að geyma ákvæði um ýmis atriði er varða allsherjarreglu, svo sem um reglu og velsæmi á og við almannafæri, opnunar- og lokunartíma veitingastaða, verslun og aðra atvinnu á almannafæri og meðferð dýra. Sveitarfélög semja frumvörp að slíkum samþykktum sem gilda skulu í hverju sveitarfélagi fyrir sig en frumvörpin þurfa að fá staðfestingu dómsmálaráðuneytisins til að öðlast gildi.

Með gildandi lögum um lögreglusamþykktir sem sett voru árið 1988 var ætlunin að dómsmálaráðherra setti reglugerð sem fyrst eftir gildistöku laganna og átti hún að vera fyrirmynd að lögreglusamþykktum sveitarfélaganna. Þannig skyldi reglugerðin koma í stað gildandi lögreglusamþykktar á hverjum stað þar sem ný lögreglusamþykkt hefði ekki verið sett eftir að lögin tóku gildi. Enn hefur engin slík reglugerð verið sett og eru því í sumum sveitarfélögum landsins í gildi allgamlar samþykktir, sumar frá fyrri hluta aldarinnar. Eins og áður segir er þar ýmislegt skondið að finna. Sem dæmi má taka lögreglusamþykkt Hafnarfjarðarbæjar sem er þó ekki eldri en frá árinu 1982. Eftir því sem höfundur kemst næst er hún enn í gildi. Skoðum nokkur ákvæði:

5. gr.

Enginn má að ástæðulausu berja á dyr eða glugga eða hús að utan né heldur hringja dyrabjöllu, hringja í síma eða aðhafast neitt það sem ónáðar eða móðgar heimilisfólk eða veldur því ótta.

14. gr.

Enginn má taka vatn úr brunahönum bæjarins eða hreyfa við þeim að neinu leyti nema hafa til þess leyfi slökkviliðsstjóra eða tæknideildar bæjarins. Enginn má ótilkvaddur slökkva eða kveikja á götuljósum bæjarins.

15. gr.

Bannað er sölumönnum að gera vart við sig með hrópum eða söng frá kl. 18.00 til kl. 09.00.

46. gr.

Á almannafæri, innan hafnar og á fjörum má eigi kasta hræjum, dauðum fiski, matarleifum, fiskúrgangi né öðru slíku og ekki skila neitt slíkt þar eftir. Eigi má heldur á þessum stöðum brjóta flöskur, fleygja eða skilja eftir grjót, mold, möl, sand, slor, ösku, járnarusl, víra, bréf, ávaxtahýði, úrgangssalt, múrbrot, spýtnabrek, bílhræ eða yfirleitt nokkuð það, þótt eigi sé hér talið sérstaklega, sem valdið getur óheilnæmi, óþrifnaði, tálmunum eða óprýði……….

Í eldri samþykktum frá fyrri hluta aldarinnar má finna ákvæði sem leggja bann við því að menn séu dulbúnir nema þeir séu á leið á álfadansleik og jafnframt bann við því að farið sé yfir brú á meiri hraða en hægu brokki.

Í nýjustu samþykktunum frá um 1988 til dagsins í dag fer minna fyrir skondnum ákvæðum. Eflaust eru ýmsar ástæður fyrir því. Líkleg skýring er sú að þjóðfélagsaðstæður séu að ýmsu leyti breyttar, t.d. eru hestar almennt ekki lengur notaðir sem samgöngutæki. Þá er mögulegt að menn telji ekki lengur þörf á því að kveða á um ýmislegt í lögreglusamþykktum sem telja verður til almennrar skynsemi, (e. common sense), en áður fyrr voru lögreglusamþykktir mun ítarlegri en nú er. Þá kann gildismat að vera breytt frá því sem áður var enda hljóta lögreglusamþykktir að endurspegla hvað almennt telst varða við allsherjarreglu og hvað ekki á þeim tíma sem þær eru settar.

Velta má því fyrir sér hvort það sé æskilegt að ákvæði í gildandi lögreglusamþykktum séu skondin. Hætt er við því að menn taki lítið mark á undarlegum og jafnvel fyndnum ákvæðum. Það er verra því að brot gegn lögreglusamþykktum varða sektum samkvæmt 6. gr. laga nr. 36/1988 um lögreglusamþykktir.

Alltént er það svo að lögreglusamþykktir eru hluti af þeim réttarreglum sem mönnum ber að virða, óháð því hve undarleg ákvæðin kunna að vera. Af þeim sökum er skorað á lesendur að kynna sér gildandi lögreglusamþykktir í sínum sveitarfélögum. Sums staðar eru samþykktirnar aðgengilegar á netinu, t.d. lögreglusamþykkt Akureyrar á vefnum www.akureyri.is, en á öðrum stöðum þarf að hafa mun meira fyrir því að kynna sér efni þeirra, t.d. fletta upp í Stjórnartíðindum jafnvel áratugi aftur í tímann. Hætt er við því að fáir nenni því.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)