Á forsíðu Morgunblaðsins í gær var að finna sláandi frétt um afdrif kæra vegna kynferðisbrota á Íslandi. Þar var sagt frá því að einungis 16 ákærur af þeim 125 kynferðisbrotamálum sem bárust ríkissaksóknara árið 2003 hafi leitt til sakfellingar. Auk þess sem fram kom að einungis í 34% þessara 125 mála ríkissaksóknari gefið út ákæru og málið komið fyrir dóm.
Umfjöllun blaðsins um afdrif og meðferð kynferðisbrota var ítarleg og margt fróðlegt sem þar kom fram. Meðal annars mátti ráða af umfjölluninni að aðalástæða þess hversu fáar ákærur vegna kynferðisbrotamála væri skortur á sönnunum. Í máli viðmælanda blaðsins kom fram óánægja með þessa erfiðu sönnunarstöðu ákæruvaldsins í kynferðisbrotamálum, t.d. um ásetning. Brot telst ekki nauðgun nema ásetningur sé til staðar og það er ákæruvaldsins að sanna ásetning. Af þessu leiðir að brotaþolinn lendir stundum í því að þurfa að sýna fram á eða sanna að hún hafi ekki viljað árásina. Í tengslum við þetta kom líka fram að í umræðum um þessi mál kæmu oftar en ekki fram hugmyndir um öfuga sönnunarbyrði, þ.e. að sakborningi yrði gert að sanna að hann hafi ekki framið kynferðisbrot eftir að kæra hefur verið lögð fram.
Undirrituð tekur undir það að það séu sláandi fá kynferðisbrotamál hjá ríkissaksóknara sem enda með sakfellingu brotamanns. Það er hins vegar ekki óeðlilegt eða óskiljanlegt í ljósi þess hvernig þessum málum er háttað. Oft er ekkert annað í málinu að byggja á en orð gegn orði og engin vitni eða gögn í málinu til að styðja framburð kæranda.
Í íslensku stjórnarskránni er manni, sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi, tryggður réttur til að vera talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Reglu þessa má einnig finna á Mannréttindasáttmála Evrópu og er hún í raun ein af mikilvægustu grundvallarreglunum í sérhverju réttarríki.
Í meðferð opinberra mála hér á landi er ljóst að þessi regla er ríkjandi. Í lögum um meðferð opinberra mála er mælt fyrir um að sönnunarbyrði um sekt sakbornings og atvik, sem telja má honum í óhag hvíli á ákæruvaldinu. Af þessu hefur verið talið leiða að allan vafa um sönnun beri að skýra sökuðum manni í hag. Því er ljóst að ákæruvaldinu ber að afla sönnunargagna og færa þau fyrir dóm og hefur sönnunarbyrðina í málinu. Þá er bundið í lög að mál skuli fellt niður ef það þykir ekki nægilega líklegt til sakfellingar.
Það er algerlega nauðsynleg forsenda réttarríkis að fólk hafi trú á réttarkerfinu og treysti dómstólum landsins. Sumir vilja halda því fram að sýknur og lágar refsingar í alvarlegum málum eins og kynferðisbrotamálum séu til þess fallnar að rýra þetta traust. Það er líklegast rétt. Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu síðustu ár um of vægar refsingar fyrir kynferðisbrotamennt. Það hefur verið áberandi skoðun að of vægt sé tekið á kynferðisbrotamönnum og m.a. hefur verið kvartað yfir því að dómstólar nýti ekki refsiramma hegningarlaganna nægilega vel í þessum málum. Þetta er réttmæt gagnrýni og tölurnar sem nefndar voru að ofan sýna glöggt að útilokað er að meirihluti kynferðisbrotamanna þurfi nokkurn tímann að taka afleiðingum gjörða sinna, miðað við hvernig þessum málum er farið í dag.
Undirrituð telur þó alveg ljóst að það er engin lausn á þessu eða leið til að endurheimta traust almennings á réttarkerfinu í þessum málum að snúa við sönnunarbyrðinni í þessum málum. Ekki einu sinni þó gengið yrði skemur og einungis gerðar vægari kröfur til ákæruvaldsins um sönnun en gerðar eru í dag. Slíkar aðgerðir væru augljóslega til þess fallnar að grafa undan öryggi borgaranna og myndi svipta þá stjórnarskrárvörðum rétti sínum til að teljast saklausir, þar til sekt þeirra hefur verið sönnuð. Þá væri einnig ótækt ef ákæruvaldinu væri heimilt að fara með mál fyrir dómstóla, sem væru algerlega vanbúin sönnunum, upp á von og óvon. Þá fyrst væri traust manna á réttarkerfi landsins í hættu.
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008