Sá sem hér heldur á penna ýtir hér með knerri sínum úr vör og heldur í jómfrúarferð sína á þessu vefriti. Höfundur hefur reyndar lengi beðið færis á að koma helstu skoðunum sínum á framfæri-en vettvanginn hefur hingað til skort og áhlýðendur hafa vart fyrirfundist. Jómfrúin er því fallin-og Örninn lentur.
Er klisjukennt að tala um fallnar jómfrúr og lendandi erni?
Efnistök höfundar eru væntanlega sjálfmiðuð og jafnvel sjálfhverf í karlagrobbsstíl, enda hefur hann í lengri tíma beðið eftir því að úthella skoðunum sínum um málefni samtímans einhvers staðar á alneti. Nú ryðst það fram sem lengi hefur búið í brjósti. Þess vegna má vænta að pistillinn beri höfundi sínum vitni og verði ögn „scatterbrainlegur”. Lesendur eru beðnir lengstra orða að misvirða það við höfund.
Pistilinn skrifar Ari Karlsson.
Freistandi væri í jómfrúarpistli að fjalla Alfreð Þorsteinsson og tengsl Hvítasunnusafnaðarins við Framsóknarflokkinn. Betur færi þó á því að fjalla um tengsl Sambandsins og Framsóknarflokksins. En þar sem markmið höfundar er að skauta létt yfir málefni liðinnar viku verður samband þessa ágæta flokks við önnur öfl ekki skýrgreint í æsifréttastíl.
Ef til er risarækjueldi hlýtur að vera til risarækjusalat. QED.
Nú við úthlaup vikunnar var skýrt frá í fjölmiðlum að samkvæmt Panskandinavískri( ísl. samnorræn) rannsókn Norræna tungumálaráðsins sem fjámögnuð var af Norræna meningarsjóðnum að norskir menntaskólanemar ættu auðveldast Skandinava að skilja tungumál nágranna sinna.
Í ljós kom jafnframt að dönskum framhaldskólanemum fannst það kúnstugast að skilja önnur skandinavísk tungumál. Þessum tíðindum ber að sjálfsögðu að fagna, enda eiga Norðmenn allt gott skilið. Ef til er EKKIrannsókn þá flokkast ofangreind rannsókn undir slíkt safnheiti.
Nærtækara hefði hins vegar verið að rannsaka þá, sem bruna út og suður um Norðurlönd með það að markmiði að taka þátt í panskandnavísku samstarfi, og hvort þáttakendur slíks samstarfs botni í raun og veru hvað fram fer í þvílíku samstarfi. Niðurstöður slíkrar rannsóknar myndu leiða í ljós sem löngum hefur verið morgunljóst að einfaldast, fljótlegast og hagkvæmast sé á slíkum fundum að tala ensku!
Hvad har du der i fickan Jan? Er det kanske en JetteBanan?
Stöð tvö greindi í vikunni frá stúlku á fermingaraldri sem ekki sagði farir sínar sléttar í samskiptum við Tollyfirvöld. Faðir stúlkunnar sendi henni svokallaðan Ipod spilara sem við komuna til landsins var tollaður upp í topp; og stúlkunni gert að greiða fjórtán þúsund krónur til þess að leysa jólagjöf sína úr tolli.
Stúlkunni datt slíkt ekki í hug og var spilarinn endursendur til Bandaríkjanna. Fram kom í fréttinni að jólagjafir væru tollfrjálsar færi verðmæti þeirra ekki yfir sjö þúsund krónur en hins vegar væri ekkert hámark sett á verðmæti brúðkaupsgjafa, heldur færi það eftir mati embættismanna tollsins á hverjum tíma.
Eðlilegast er fyrir stúlkuna að fara þess á leit við föður sinn að hann sendi sér jólagjöfina aftur, en nú í líki sameiginlegrar fermingar-og brúðkaupsgjafar. Þá setti hún ráðvanda og löghlýðna embættismenn í skriffinskuvanda par excelance.
Að lokum er rétt að tæpa á eftirfarandi:
Bretaprinsar spranga ekki um í nasistabúningun…þrátt fyrir þýskan uppruna sinn.
Í stað þess að kaupa Zeppelin loftfar, eða bora jargöng til Vestmannaeyja er miklu gáfulegra að athuga hagkvæmni þess að útbúa flotgöng með segulhraðlest milli lands og eyja. Athuga þarf þetta.
Að lokalokum er rétt að víkja tali sínu til einhleypinga sem hyggjast svara kalli galeiðunnar í kvöld og vantar heilræði í nestismal sinn:
Drekkið, dansið og duflið, en munið nöfn bólfélaga ykkar daginn eftir. Það getur sparað heilmikil vandkvæði ca. níu mánuðum seinna!
Góða helgi!
- Kveikt er ljós við ljós – burt er sortans svið - 24. desember 2020
- Hæstivirtur forseti,Royal Straight Flush! - 21. febrúar 2008
- Má Kaupþing þetta? - 7. nóvember 2007