Þá eru jólin búin og við tekur blákaldur hversdagsleiki með sinni alvöru og skuldum. Eftir að hafa kveikt í síðustu seðlunum á þrettándanum fara Íslendingar að taka niður jólaskrautið og kvíða visareikningnum – og það þýðir lítið að kveikja í honum og skreytingargildi hans er lítilfjörlegt.
“Við eyðum of miklu, borðum of mikið, foreldrar þjást af streitu og kvíða og gerspillt börnin meðtaka ekki boðskap jólanna.” Þessar skynsemisraddir heyrum við fyrir hverja einstu jólahátíð og allir virðast sammála. En þrátt fyrir það breyta fáir hegðun sinni og við sláum hvert eyðslumetið á fætur öðru. Í ár voru það sennilega nýju húsnæðislánin sem hrukku fyrir jólaglamúrnum og mestu jólaverslun á Íslandi frá því land byggðist, eflaust mestu jólaverslun í heiminum sé tekið mið af títtræddri höfðatölu.
En er þetta svo slæmt? Það fer ef til vill eftir því hvernig á það er litið. Hagfræðilega má velta því fyrir sér hvort jólin séu “þjóðhagslega hagkvæm eða óhagkvæm” og félagsfræðilega má eflaust velta því fyrir sér hvort “heildarhamingja” Íslendinga aukist eða minnki hver jól.
Hagfræðilega eru margir jákvæðir þættir við hátíðarnar. Neyslan fer upp úr öllu valdi og hefur mikil og góð áhrif á rekstur verslana, heildsala, matvælafyrirtækja og ýmissa þjónustugreina, sem aftur ætti að skila sér í fjölgun starfa og arði til eigenda. Þá hljóta bankarnir einnig að hagnast á umframeyðslunni í formi vaxtagreiðslna. En jafnframt fylgjast að neikvæðir þættir. Við flytjum inn ógrynni af tilvonandi jólagjöfum sem aftur stuðlar að viðskiptahalla og veikingu krónunnar samhliða aukinni erlendri lántöku bankanna sem aftur ýtir undir verðbólgu. Skuldir heimilanna aukast með tilheyrandi vaxtakostnaði og útgjöldum, sem ætti að leiða til þess að herða verður sultarólina strax eftir hátíðarnar. Það ætti að leiða til þess að draga verður úr neyslu á öðrum tímum ársins sem þá skilar sér í minni arði af verslun og þjónustu á þeim tíma sem getur leitt til þess að fækka þurfi störfum og arður eigenda minnki sem aftur…..það er ekki einfalt mál fyrir leikmann að gera sér grein fyrir eða reikna út “þjóðhagslega hagkvæmni” jólahátíðarinnar.
“Hamingjuhagfræðilega” er málið heldur ekki einfalt. Það má færa góð rök fyrir því að jólin treysti fjölskylduböndin, skapi samheldni, ást og virðingu. Jólaandinn óskilgreindi smýgur inn í hjörtu okkar flestra og eykur líklega “heildkærleik” samfélagsins, ef kærleikur væri mælanlegur. En jafnframt eru jólin sárasti tími ársins hjá þeim sem eiga um sárt að binda og eiga fáa að. Þá er einnig líklegt að áhyggjur magnist hjá mörgum fjölskyldum eftir hátíðirnar er kemur að skuldadögum og sambúðarerfiðleikar geri vart við sig er með tilheyrandi áhrifum á börnin.
Hver er þá niðurstaðan, er jólahátíðin “þjóðhagslega óhagkvæm”? Er skynsamlegra fyrir þjóðina að einbeita sér að trúarlegri merkingu jólanna og skera niður jólagjafir, mat og drykk, fatakaup, skotelda, skraut og aðra “óþarfa” neyslu. Er hugsanlega þjóðhagslega hagkvæmast að jólahátíðin sé sem líkust páskum?
Í einfaldri hagfræðilegri mynd eru jólin bara umframneysla sem er ekki endilega slæm. Það skiptir kannski ekki öllu máli þótt við verslum fullt af alls kyns drasli handa þeim sem ekki þurfa á því að halda Því almennt væri hægt að segja að við séum alltaf að versla einhvern “óþarfa”. Líklega mættum við þó gæta meira hófs í desembermánuði og dreifa neyslunni yfir á aðra tíma ársins. Það er ef til vill óþarfi að sækja mörg svokölluð jólahlaðborð með vinum, vinnufélögum og ættingjum í sama mánuði og mesta matveisla ársins stendur yfir. Það væri líka eflaust “sniðugt” að skjóta upp flugeldum við eitthvað annað tilefni og dreifa fatakaupum yfir árið. En við erum öfgakennd þjóð og búum í landi sem stór hluti mannskyns myndi eflaust telja óbyggilegt. Hugsanlega er kaupæði jólanna með öllum sínum fylgifiskum leið okkar til þess að þrífast í skammdeginu og komast í gegnum veturinn.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009