Endurskoðun stjórnarskrárinnar stendur nú fyrir dyrum. Þingflokkarnir hafa skipað sína fulltrúa í stjórnarskrárnefnd og þeim til aðstoðar er hópur sérfræðinga. Ætlunin er að væntanlegar breytingar á stjórnarskránni taki gildi að loknum þingkosningum 2007, verði þær samþykktar á því þingi sem tekur við eftir þær kosningar.
Forsætisráðherra hefur þegar sagt að endurskoðunin beinist einkum að I., II. og V. kafla stjórnarskrárinnar, þ.e. ákvæðum um forseta Íslands, ríkisstjórn og dómsvaldið. Þannig verði almennt ekki hróflað við öðrum köflum stjórnarskrárinnar, t.d. um kosningar, Alþingi, kirkjuna og mannréttindaákvæðin, en umfjöllun um þessi atriði er að finna í III., IV., VI. og VII. kafla stjórnarskrárinnar.
Nálgun forsætisráðherra í þessu máli, þ.e. að binda endurskoðunina einkum við þá kafla hennar sem fjalla um forseta Íslands, ríkisstjórn og dómsvaldið er nokkuð athyglisverð. Sérstaklega er hún athyglisverð í ljósi umræðunnar á undanförnum misserum. Í þeirri umræðu hefur mikið verið rætt þjóðaratkvæðagreiðslur, þ.e. hvort fella eigi út svonefndan málskotsrétt forseta og setja inn ákvæði þar sem tiltekinn hluti kosningabærra manna getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp sem Alþingi hefur samþykkt.
Afar líklegt er að ákvæði þess efnis að ákveðinn hluti kosningabærra manna, eða ákveðinn hluti þingmanna, geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, muni ekki verða í I., II. eða V. kafla stjórnarskrárinnar. Slík ákvæði eiga heima í III. kafla stjórnarskrárinnar þar sem fjallað er um kosningar til Alþingis, eða þá IV. kafla hennar þar sem fjallað er almennt um Alþingi, þ.e. starfskipan o.fl. Í dönsku stjórnarskránni er að finna ákvæði um að þriðjungur þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um samþykkt lagafrumvörp. Þetta á reyndar ekki við um öll frumvörp, t.d. ekki um fjárlög, skattalög o.fl. Ákvæði þetta er í þeim kafla dönsku stjórnarskrárinnar sem fjallar um þingið, þ.e. sem samsvarar IV. kafla í íslensku stjórnarskránni.
Af ofangreindu má líklega ráða að ef einlægur vilji stendur til þess að setja í íslensku stjórnarskrána ákvæði um heimildir borgaranna, eða minnihluta þingmanna, til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök samþykkt lagafrumvörp þá geti endurskoðun á henni ekki aðeins miðast við I., II. og V. kafla hennar. Hugsanleg ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu eiga nefnilega heima í III. eða IV. kafla hennar.
Í áramótávarpi sínu sagði Halldór Ásgrímsson m.a. svo orðrétt: „Í alþingiskosningum 2007, þegar kosið verður um stjórnarskrárbreytingarnar, eiga sem flestir að geta sagt: Ég hef tekið þátt í að ræða og móta stjórnarskrána.“
Þótt pistill þessi sé ekki tímamótainnlegg í umræðuna um stjórnarskrána, þar eð hann beinist nær eingöngu að formsatriðum, getur pistlahöfundur líklega núna sagt:
Ég hef tekið þátt í að ræða og móta stjórnarskrána.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006