Í daglegu lífi er máttur vanans mikill en mannskepnan þeim kostum gædd að geta vanið sig á flest og jafnvel vanið sig af því aftur. Bókin “The 7 Habits of Highly Effective People” er eitt dæmi um þetta, því þar fjallar Dr. Stephen Covey um sjö atriði sem mikilvægt er að tileinka sér og geta hjálpað hverjum sem er við að ná langt í lífinu.
Bókin kom fyrst út árið 1989 og líklega áttu þá fáir von á því að hún yrði jafnvinsæl og raun ber vitni. Bókin var meðal annars valin áhrifamesta bók 20. aldar í könnun sem gerð var meðal stjórnenda fjölmargra stórra fyrirtækja í Bandaríkjunum. Hún hefur selst í yfir 10 milljónum eintaka og haft víðtæk áhrif á flesta þá sem hafa lesið hana og reynt að tileinka sér eitthvað af því sem fjallað er um. Bókin hefur verið þýdd á fjölda tungumála, meðal annars íslensku, en sú þýðing þykir ekki góð og því mun höfundur notast við frummálið í þessum pistli.
Þær sjö venjur eða þau atriði sem bókin fjallar um skiptast í þrennt. Fyrstu þrjú atriðin eru Be Proactive, Begin with the End in Mind og Put First Things First. Þau fjalla öll um það að ná tökum á sjálfum sér og sínum persónuleika, til þess að búa sig undir næstu þrjú atriði sem fjalla um samskipti. Þau eru Think Win/Win, Seek First to Understand, Then to Be Understood og Synergize. Sjöunda venjan nefnist svo Sharpen the Saw en hún fjallar um mikilvægi stöðugrar endurnýjunar og þess að vinna sífellt að því að bæta sjálfan sig. Þess skal getið að þetta er aðeins mjög stutt yfirlit og vilji menn kynna sér efnið örlítið nánar án þess að kaupa bókina er þessi síða ágæt til þess: http://www.quickmba.com/mgmt/7hab/.
Höfundur 7 Habits, Dr. Stephen Covey er nú orðinn heimsþekktur bæði sem fyrirlesari og ráðgjafi. Hann þiggur litla 65.000 dali fyrir að koma og tala og er sennilega einn eftirsóttasti ráðgjafi í heiminum. Auk 7 Habits hefur hann skrifað fjölda annarra bóka sem fjalla um tengd svið og ber þar líklega hæst Principle Centered Leadership. Hún fjallar hvernig leiðtogar í fyrirtækjum og stofnunum, raunar hver sem er, geta byggt á venjunum sjö og nýtt sér þær í leik og starfi.
Undir lok síðasta árs gaf Dr. Covey svo loks út langþráða bók sem fjallar um áttundu venjuna. Hún ber titilinn “The 8th Habit: From Effectiveness to Greatness” og skiptist í megindráttum í tvennt. Fyrri hlutinn ber heitið “Find Your Voice” og efni hans byggir á grunni fyrri bókarinnar. Seinni hlutinn kallast svo “Inspire Others to Find Theirs”. Eins og nafnið bendir til er þar fjallað um hvernig breiða má út boðskapinn og hversu mikilvægt það er, ef svo má að orði komast.
Það kann að vera að sumir lesendur hafi nokkrar efasemdir um gagnsemi bóka í þeim dúr sem hér hefur verið fjallað um og er það ekki að undra, því fjöldi bóka um sjálfshjálp er nánast ótölulegur og þær eru eins misjafnar og þær eru margar. Pistlahöfundur getur hinsvegar hiklaust mælt með 7 Habits og ábyrgst að þeir sem lesa og nýta sér hana á þann hátt sem hún sjálf mælist til verða ekki fyrir vonbrigðum.
- Siðlaust guðlast - 5. september 2007
- Þess vegna er Laugavegurinn dauður - 6. mars 2007
- Hvað á RÚV að þýða? - 12. febrúar 2007