Ég horfði á skaupið með foreldrum mínum (56 og 54), ömmu (76), bróður (18), frænku (ca 50), frænda (34) og foreldrum (ca 55-60). Öll voru þau sammála að þegar Vigdís Finnbogadóttir var forseti var ekki gert grín að henni.
Nú er ég ekki að segja að ég sé eitthvað á móti því að gert sé grín að forsetanum því þvert á móti ef hann hefur gert eitthvað spaugilegt, endilega skellum því í skaupið. En afhverju var ekki gert grín að Vigdísi, en Ólafur tekinn svona mikið fyrir? Er það vegna þess að tímarnir hafa breyst, það leyfist meira. Eftir tilkomu Tvíhöfða, 70 mínútna o.s.frv. hefur línan sem strengd hefur verið við „grínleyfismörkin“ færst lengra og lengra? Eða er Ólafur kannski öðruvísi forseti en Vigdís? Hefur hann ekki sama virðingarsess í augum þjóðarinnar? Eru hans embættisathafnir eitthvað fyndnari en Vígdísar? Ég hef ekki séð neitt kvartað, yfir þeirri útreið sem Ólafur Ragnar og frú fengu í skaupinu, á þeim spjallsíðum og bloggsíðum sem ég hef skoðað, lítið verið rætt um að skaupið hafi verið slæmt, flestir bara frekar jákvæðir. Þannig að fólki hlýtur að þykja það vera allt í lagi að gera grín að þjóðhöfðingjanum. Það finnst mér líka ef hann gefur tilefni til þess.
Skaupið hefur að sjálfsögðu breyst mikið frá því að Flosi söng: „það er svo geggjað, að geta hneggjað.“ Staðall fólks hefur alveg örugglega breyst m.a. með tilkomu áðurnefndra grínara. Það má greinilega gera grín hlutum sem þóttu taboo áður (Davíð Oddssyni finnst reyndar heldur langt gengið að gera grín að veikindum manna í áramótaskaupi, þó hann megi gantast með sín veikindi hjá Gísla Marteini).
En ég held að ástæðan fyrir því að svo mikið er gantast með Ólaf Ragnar og frú sé ekki þessi. Ég hugsa að það sé frekar vegna sess hans í huga fólksins í landinu. Fólk lítur ekki á hann sem það sameiningartákn sem mér finnst að forsetinn eigi að vera. Fólk lítur ekki á hann þeim virðingaraugum sem það leit Vigdísi Finnbogadóttur. Fólk sér hann sem gamlan pólitíkus sem klæjar í puttana að taka áfram þátt í stjórnmálum og tókst að setja svo um munaði mark sitt á nýliðið stjórnmálaár.
Og fyrst hann vill vera stjórnmálamaður, þá má sko alveg gera grín að honum.
- Hvít heyrnartól - 2. desember 2005
- Aðeins um nýjustu geisladiskana - 12. október 2005
- Iðnaðarleyndarmál frítt til Kínverja - 3. september 2005