Í upphafi árs er ekki fjarri lagi að taka saman það sem hæst hefur borið í heimi lífvísindanna. Af mörgu er að taka og verður hér tæpt á helstu afrekum á sviði líf- og læknavísinda. Bar þar á þessu ári líklega mest á fuglaflensunni í Asíu, stofnfrumurannsóknum, og stigvaxandi útbreiðslu AIDS.
Í byrjun árs breiddist nefnd fuglaflensuveira hratt út um gjörvalla Suðaustur Asíu, og olli miklu fjaðrafoki sem náði hæstu hæðum þegar stökkbreytt afbrigði fuglaflensuveirunnar, H5N1, smitaðist í menn. Fyrir utan gífurlegt tjón vegna dauða fiðurfés á þessu svæði, þá smituðust á árinu um 45 manns af H5N1 veirunni og þar af létust 32. Faraldurinn gekk að mestu yfir fyrri part árs, en þó er ekki enn útséð með endalok hans. Á síðustu mánuðum ársins voru enn að koma upp tilfelli fuglaflensu, og síðast í desember bárust fregnir af smiti ungrar stúlku í Viet Nam.
Á árinu urðu einnig miklar framfarir á sviði einræktunar (klónunar), og sýndu Suður kóreskir vísindamenn í fyrsta skipti fram á að hægt er að nota einræktun á mönnum í lækningaskyni. Þeim tókst að einrækta 30 fóstur, sem náðu öll að vaxa að 100 frumu stigi, en aldrei hefur slíkum fjölda verið náð. Úr þeim fengust síðan stofnfrumur sem sýnt var fram á að hægt er að beina í mismunandi farvegi og þær þroskast svo í framhaldi í mismunandi gerðir fruma og vefja (t.d. taugavef). Þetta gefur mikla möguleika í meðferðum sjúkdóma eins og t.d. Parkinsons, þar sem óendurnýjanlegar taugafrumur deyja. Á vormánuðum tókst síðan japönskum vísindamönnum að búa til föðurlaus músafóstur úr erfðaefni eggja tveggja kvenkyns músa.
Stofnfrumurannsóknum fór mikið fram á árinu, og leit fyrsta stofnfrumulínan sem búin er til úr fóstrum með ákveðinn genagalla, t.d. slímseigusjúkdóm (cystic fibrosis), dagsins ljós. Mikið kapphlaup hefur verið í lífvísindaheiminum að búa til slíkar gallaðar stofnfrumulínur, þannig hægt sé að prófa nýjar meðferðir við ákveðnum sjúkdóma á þeim, t.d. genalækningar. Eru miklar vonir bundnar við tilkomu þessara frumulína. Umræðan um stofnfrumur var þó ekki aðeins hávær í vísindaheiminum enda urðu stofnfrumurannsóknir að hitamáli í forsetakosningunum í Bandaríkjunum.
Á árinu var einnig mjög áberandi áróður gegn útbreiðslu alnæmis, en ljóst þykir að faraldurinn stigmagnast. Í kjölfar alþjóðlegrar AIDS ráðstefnu sem haldin var í Bangkok í sumar voru Asíuþjóðirnar aðvaraðar og hvattar til að taka í taumana eftir fremsta megni, annars ættu þær yfir höfði sér faraldur af sömu gráðu og geisað hefur og geisar enn í Afríkulöndum. Á ráðstefnunni varð líka ljóst að vísindamenn eiga enn mörg ár í það að finna lækningu bóluefni gegn AIDS veirunni.
Það er ljóst að vísindaárinu 2004 hefur skapast mikil vitneskja og mörg tækifæri til að gera líf manna betra og lengra. Vonum að vísindaárið 2005 verði ekki síðra.
Heimildir og ítarefni:
World Health Organization
New Scientist
- Afstæðar og óbærilegar raunir - 25. mars 2021
- Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta - 22. október 2020
- Offita og aumingjaskapur - 15. ágúst 2007